31 janúar, 2006

Rafraus í útlöndum

Rafraus í útlöndum

Ég verð að játa að ég hef alltaf hætt að lesa rafraus fólks sem flytur til útlanda. Hef fundist svoleiðis rafraus verða á endanum leiðinlegt. Fólk er þá með endalausar upptalningar á því sem það er að gera.. nýju staðirnir sem það er að fara á o.s.frv.

Hættir að vera með vangaveltur um lífið og tilveruna og fer að segja frá því hvað allt er ódýrt í nettó.

Fólk fer þá meira í upptalningagírinn. En eftir smá tíma þá fer þetta af þeim. Þegar fólk lítur á staðinn sem það býr á sem heimili þeirra. Tinna er komin á þann stað núna. Maður finnur fyrir því að henni líður vel á þessum stað sem hún býr á núna og lítur á hann sem heimili.

Ég veit ekki hvernig rafrausið mitt verður.. það verður bara að koma í ljós.

30 janúar, 2006

Fyrsta rafrausið í útlöndum

Þrátt fyrir allar áætlanir sem maður gerir, þrátt fyrir alla drauma sem maður hefur þá tekur lífið stundum á því að hlusta ekkert á það sem maður er að stefna að. Það gefur manni bara einn í nýrun og lætur mann hósta blóði í nokkra daga.. ef ekki mánuði (nú er ég auðvitað að tala í myndlíkingum).

Ég er nú komin til Köben, ætla að vera þar í nokkra daga í góðu yfirlæti hjá góðum vini. Það er skítkalt hérna í danmörku og snjór út um allt. Dröslaðist með 38 kíló tösku í gegnum köben.. mæli ekki með þeirri reynslu.

25 janúar, 2006

Fyrsta gjöfin frá kærustunni

Fyrsta gjöfin frá Kærustu

Ég var að fara í gegnum minningakassan og tók þá upp fyrstu gjöfina sem ég fékk frá kærustu. Hún endaði í ruslinu með þeirri hugsun að af hverju í andskotanum ég hefði verið að geyma þetta.

Ég var rosalega feimin og óframfærin drengur en mikil tilfinningavera og varð rosa skotinn. Fyrsta kærastan. Ég var 18 ára og hún eitthvað álíka. Vorum saman í framhaldsskóla og kynntumst og urðum kærustupar.

Þegar kom að jólunum þá vildi ég nú gefa almennilega gjöf. Bjó til eina mest væmna gjöf sem nokkur getur gefið. Gaf henni bók með helling af ljóðum og minningum. Skreytti hana og vandaði mig mikið við hana. Gaf henni síðan hjartalaga hálsmenn sem í var fyrsti stafurinn hennar.

Já þetta var rosa væmið... og nei.. hef ekki gefið svona gjöf aftur.

En allavega... ég fékk auðvitað gjöf hjá henni. Ég man ennþá tilfinninguna þegar ég fékk hann í hendina. Lítill pakki en það skipti svo sem ekki máli. Þetta var svona filmubox og í því var leðuról sem var búið að setja dýrahöfuðkúpu upp á (minnir að það hafi verið músarhöfuðkúpu). Ég tók þetta upp og fann fyrir hryllingi.. hélt andlitinu gangvar fjölskyldunni og sagði að þetta væri voða sætt .. hún hafði sagt í kortinu að þetta minnti einhvern vegin á mig....

Ég gekk með þetta í nokkra mánuði.. þangað til að við hættum saman. Fannst þetta hryllilega ljótt og skildi aldrei hvað hún meinti með því að segja að þetta minnti á mig... Sagði alltaf við hana að þetta hafði verið rosa flott... vildi ekki að hún yrði leið yfir þessari gjöf.

Núna 9 árum síðar þá get ég loksins hent þessari gjöf og sagt að mér hafi aldrei fundist hún flott. Loksins!

Tilfinningaþvaður

Án titils
Tilfinningaþvaður

Merkilegt hvað sumir hlutir breytast hratt. Hvað tilfinningar og hugsanir þróast mikið á stuttum tíma. Hvað sumar persónur hafa mikil áhrif á mann.

Ég er alltaf að læra á lífið. Er að reyna taka mig á í mörgum hlutum. Alveg ótrúlegt hvað litlir hlutir hafa mikil áhrif.

er maður ekki alltaf að þróast?

Ég fékk fyrir stuttu smá ræðu um það sem ég ætti að bæta í fari mínu. Ábendingar sem ég hef fengið áður, en stundum síast svona ábendingar alltof hægt inn. En ég hef ákveðið að taka mig á.

Ætti kannski að fjalla nánar um það? ... kannski seinna.

Nú ætla ég bara segja hálfkveðnar vísur.

Upp á síðkastið hef ég fundið fyrir því að ég á marga góða vini sem styðja mig og fjölskylda mín er ómetanleg. Ég á því fólki sem er í kringum mig mikið að þakka. Ég vona að allir sem eru í kringum mig viti það.

23 janúar, 2006

Hár í kringum geirvörtur

Hár á bringunni

Það fólk sem hefur séð mig ber að ofan hefur náttúrulega tekið eftir því að ég er nokkuð vel vaxin... og ekki með nein bringuhár. Ég virðist hafa algerlega hárlausa bringu.

Það er náttúrulega alger vitleysa. Ég hef alltaf verið með svona 3 hár. Eitt við vinstri geirvörtu og hin tvö við hægra. Frekar dökk hár. Þau hafa aldrei pirrað mig og ég hef bara leyft þeim að vaxa. Hef stundum fundið fyrir þeim þegar þau rifna burt.

En um daginn tók ég eftir því að þessi hár hafa fjölgað talsvert. Orðin um 10 við hverja geirvörtu. Svört og löng hár.. nokkuð þykk hár.. Ég sá fyrir mér mig orðin svona 60 ára gamlan og með nokkuð góðan brúsk á bringunni... í kringum geirvörturnar.

Fannst það ekki heillandi tilhugsun og ákvað að gera eitthvað í þessu. Skrapp í sturtu áðan og klippti þessu bölvuðu hár í burtu. Ætli ég taki ekki þá reglu að klippa þetta reglulega í burtu.

Áhugaverðar upplýsingar?

Brokeback Mountain


Ástarsaga milli tveggja karlmans kúreka. Saga sem gerist á yfir 20 árum. Hommamynd.

Ég verð að játa að þetta er ein af þeim fallegustu myndum sem ég hef séð. Tilfinningarnar sem eru hjá öllum persónunum eru svo vel sagðar. Maður settur í spor og hugsanir einstaklings með nokkrum svipbrigðum og orðum.

Þegar ég sá hana þá fannst mér hún góð. En minningin um hana stækkar. Finnst leikararnir standa sig gríðarlega vel. Er að sjá fyrir mér hinu ýmsu skot í myndinni. Svipbrigði og hluti sem eru að verða flottari.

Ég veit ekki alveg hvernig ég get lýst mínum tilfinningum gagnvart þessari mynd. Veit ekki hvort að hún sé fyrir alla. En hún er í topp 3 hjá mér.

21 janúar, 2006

Pakka

Að pakka
er ekki góð skemmtun....

Jæja þá er maður byrjaður að pakka. það er erfitt. Hvernig í fjandanum fer maður að því að sanka að sér svona miklu drasli? Og er ekki einu sinni byrjaður á bókunum... kvíði þeim parti nokkuð. Ég var að fara í gegnum fataskápinn minn.. sjit.. ákvað að henda þó nokkuð mikið af fötum. Fyllti einn svartan ruslapoka. En það er svo mikið eftir af fötum.. veit ekki hvað ég á að gera við þetta. Sumt getur maður bara ekki hent þrátt fyrir að hafa ekki notað þessi föt í hellings tíma.

"Þarna er Sidharta bolurinn, sjit hvað er mikil skápalykt af honum, af hverju var ég hættur að nota hann? Já.. hann meiddi mig í hálsinum... en ég get ekki hent honum.. Þetta er SIDHARTA bolurinn.."

O.s.frv. Ég henti samt helling.. flottu flauelsbuxunum sem ég keypti í L-12 og fílaði mig geðveikt í.. þangað til að talan datt af og mér fannst ég vera feitur í þeim.. ætlaði alltaf að grenna mig en stundum er komið nóg.

Síðan eru allir þessi smáhlutir.. skraut munir og dót sem maður getur ekkert gert með.. en þegar maður handfjatlar og skoðar þá vakna minningar upp. Steinninn sem ég fékk í Svíþjóð, ekki beint skrautmunur en fæ beintengingu við þær tilfinningar sem ég var að upplifa þarna (sem voru kjánahrollur og skömm). Ekki get ég farið að henda honum? En hvað á ég að gera við hann.. taka hann með mér? Nei.. það gengur ekki. En ekki get ég hent honum.. og varla er hægt að skilja hann eftir hjá R-inu...

En þetta er samt svona hlutur sem mun alltaf vera ofan í kassa. Mun aldrei vera uppi í hillu eða neitt þannig. En ég get ekki hent honum. Þannig að ég þarf að útbúa minningakassa.. á einn slíkan en það er margt í honum sem ég ætti að fara í gegnum. Og fá mér flottari kassa.

Síðan þegar ættingjar mínir fara í gegnum draslið mitt þegar ég verð dauður, þá taka þeir upp þennan stein, hrista höfuðið og spá í hvaða andskotans drasli hann Jens var alltaf að sanka að sér.

Ég vona samt að þegar ég er orðin eldgamall og elliær að ég eigi helling af svona minningarhlutum. Hlutum sem ég get tekið upp og farið aftur í tíman. Upplifað þær tilfinningar sem voru að krauma í mér á þeim tíma. Verð örugglega pirrandi elliheimilisíbúi. Með helling af óskiljanlegu drasli í herberginu mínu sem ég handfjatla af og til.

En ég get bara ekki hent minningum og tilfinningum.

20 janúar, 2006

Roleplay raus

Nosferatu

Skrímsli. Hann var skrímsli. Leit þannig út og hegðaði sér oft þannig. Aðrir eins og hann héldu sér í fjarlægð en vissu að það væri hægt að nota hann. Stór maður, hafði alltaf verið stór en þegar hann varð að þessu þá varð hann einhvern vegin stærri. Óhugnanlegur.

Hann var búin að vera svona í 300 ár. Þegar borgarastríðið braust út þá varð hann eftir, haltur á fæti og átti stóra fjölskyldu. Varð einhverskonar lögreglustjóri. Reyndi að vernda bæjarbúa fyrir ribböldum og ræningjum. Var strangur en sanngjarn.

Síðan byrjuðu morðin. Lík sundurtætt og limlest, fólk eitt út á gangi sem hvarf. Brotist inní afskekta bæi og fólk drepið. Hann fékk martraðir, svaf ekki og var oft á ferli einn. Vildi ná þessum morðingja. Varð heltekin af því að finna hann.

Tókst það á endanum. Eða kannski mætti segja að morðinginn fann hann. Hann hafði aldrei hitt ofurjarla sinn í bardaga. Sérstaklega opnum bardaga... hvað þá við grannvaxinn kvenmann. En hún lék sér að honum, reif af honum vopnið, kastaði honum fram og til baka. Sýndi það algjörlega að þetta var ekki mannvera sem hann barðist við.

Eftir að hafa lamið hann niður og hann vissi að hann væri búin að tapa bardaganum og bið dauða síns. Þá tók hún allt í einu til máls. Sagði að hún hefði verið að bíða eftir honum. Sagði að hún elskaði hann en vildi að hann elskaði sig. Hún sagði að hún skyldi það alveg að hann gæti ekki elskað hana. Það myndi bara koma með tímanum. En núna fengi hann að ráða. Annað hvort fórnaði hann sér fyrir fjölskylduna sína og kæmi með henni eða hún myndi drepa hann hér og nú og færi svo og myrti alla hans fjölskyldu. ALLA. Fjarskylda ættingja og allt. Hefnd hennar væri ægileg.

Hann sagðist myndi aldrei elska hana og einhver myndi gera útaf við hana. Þá sýndi hún sig. Óhugnanlegra kvikyndi hafði hann ekki séð. Skrímslasögur föður hans hafði ekki undirbúið hann fyrir þetta. Hann bað til guðs um að bjarga sér en skrímslið beið. Hann gat ekki flúið en vissi það að hann gæti aldrei látið sínar ákvarðanir lenda á börnum sínum svo hann fór með henni. Hún breytti honum, drap hann og gaf honum svo lífið.

Á endanum hafði hann elskað hana og þegar hún fór frá honum 80 árum síðar þá fannst honum eins og tilveran hans hefði hrunið.

En maður leggur ekki árar í bát. Hann elti uppi sína ættingja og fann barnabarnabarnið sitt og fylgdist með fjölskyldunni sinni stækka og dofna. Það gerði hann enn í dag með hléum.

18 janúar, 2006

Iron Kingdom

Margus Totoya

"Jæja, " sagði hann við sjálfan sig og klappaði hestinum. "komin tími á að taka niður grímuna og gangast henni á hönd"

Hann leit upp og horfði á snævi þakktan skóginn. Það var logn og gríðarlega fallegt. Fjöllin í fjarska og sá lítinn reyk líða úr bænum, bænum hans. Hann fann fyrir stolti yfir fegurðinni. Þetta var hans. Faðir hans var löngu hættur að skipta sér af daglegum störfum og hann stjórnaði öllu. Vissi líka að hann gerði gott starf. Fólkið var ánægt og vinnusamt. Drottningin var mjög ánægð með hans störf og hafði veitt honum orðu fyrir þau.

En nú var komið að því að gríman falli. Hann vissi það að hann myndi fyllast stolti þegar bærinn væri í rúst, flestir dauðir eða hnepptir í þrældóm og allt komið í tómt rugl. Hann gerði það. Hann gat allt. Gjörsamlega allt. Hann var komin langleiðina í ból drottningar en vissi að það myndi aldrei ganga þar sem hún væri vernduð af öflugum galdramönnum og prestum. Hafði sagt við hana að hann væri henni ekki samboðin. Sem var svo sem rétt. Eina manneskjan sem hann hafði heillast af og óttaðist. Vissi að hann gæti ekki stjórnað henni, haft áhrif á hana en aldrei stjórnað. En svik hans myndi vera ægileg. Verstu svik á versta tíma.

Hann harðnaði við tilhugsina. Thamar var góður meistari. Láttu undan hvötum. Öllum hvötum. Hann hafði daðrað við hana lengi en aldrei gengið henni á hönd eða gert eitthvað algerlega eftir hvötum. En fyrir mörgum árum síðan þá lét hann undan sinni hvöt. Athugaði hvort að það væri hægt að spilla þeim óspillanlegu. Hvað hann gæti látið fólk gera, hvað hann gæti stjórnað fólki. Hann hafði alltaf hið sjötta skilningarvit gagnvart fólki. Hver var drifkraftur þess, hvað ýtti því áfram. Hann gat allt. Látið álfa selja fólki sitt í þrældóm, látið mæður drekkja börnum sínum vegna ástar, elskendur halda framhjá. Allt. Stundum þegar hann áttaði sig á því hvað fólk var spillt þá drap hann það og varð bjargvættur. Hann fylltist viðbjóði þegar hann hugsaði um Alexis. Hann lét eftir sínum hvötum og það varð aðeins of mikið. Hann alexis hvarf fyrir 5 árum síðan og flestir héldu að hann hefði flúið réttvísina. En svo var ekki. Gröf hans var ekki langt frá heimilinu hans. Thamar ýttir við fólki. Ólíkt því sem margir halda þá er hún ekki að láta fólk gera neitt. Lætur það bara gera það sem það vill gera.

Hann lifði góðu lífi hérna. Mikið af fólki gekk Thamar á hönd, ótrúlegt hvað margir hefðu gangið alla leið og væru í dag að nota blessunar Thamar í daglegu lífi. En hann vissi að staðurinn hans væri ekki hér. Hann átti ekki hugmyndina að þrælasölunni en ótrúleg hugmynd. Eftir viku væri hann algerlega frjáls. Gæti farið hvert sem er og gert hvað sem er. Hann vissi að hann ætti svona 20 ár eftir.. og hann ætlaði að njóta þeirra. Síðan myndi faðmur Thamars bíða hans. Hann beið óþreyjufullur eftir að komast í hann og ef hann myndi ráða þá myndi Thamar taka hann í dag. En hann vissi að hann yrði aldrei samboðin henni.. ekki enn.

17 janúar, 2006

Ristilkrampi

Ristilkrampi/Iðraólga
Hægðir og önnur skemmtilegheit

Ég rafrausa vegna athyglissýki og ég hef mikla þörf fyrir að tjá mig um ýmsa hluti. Suma hluti sem mig langar til að röfla um eru bara ekkert vinsælir í spjalli. Hægðir er eitt af þeim. Þeir sem hafa þekkt mig í mörg ár að ég hef mikinn áhuga á hægðum og alls kyns starfsemi í kringum það ferli.

Það er nú bara ósköp eðlileg skýring fyrir því. Einu sinni heyrði ég brandara sem hefur svo verið brenndur inní mitt heilabú, þrátt fyrir að vera með krónísk minnisleysi á brandara. Hann hljómar svona

Þrír ættliðir feðga hittast á sunnudegi í fjölskylduboði og þeir segja að þessi helgi sem er að líða er ein af þeim betri sem þeir hafa upplifað.
Sá yngsti segir: Ég og konan mín leigðum okkur sumarbústað og vorum bara þar tvö og það var sko tekið á því. Upp á borðum, í sturtu, bara alls staðar og alltaf. Geggjuð helgi.
Faðir drengins segir : Móðir þín eldaði þetta dýrindislæri í gær. Fullkomlega steikt með öllu tilheyrandi, kartöflum, mömmusósu, rauðkáli og alles. Lá á blístri í gær.
Afi tekur til síns máls og segir: ég átti þessar dýrlegu hægðir í gær.....

Ég skildi svo vel hvað afinn átti við. Þetta er svona hjá mér. Ég hef hægðir og segi við sjálfan mig á eftir "þetta voru góðar hægðir".

Ég er með ástand sem heitir á fræðimáli Iðraólga (hét fyrir nokkrum árum ristilkrampi en það virðist hafa dottið úr tísku). Ég er búin að vera með þetta í fjölda mörg ár. Byrjaði í framhaldsskóla og hefur ekki stoppað síðan. Þetta tengist matarræði en ég hef ekki enn áttað mig á því hvað nákvæmlega veldur þessu. Það virðist vera svo mismunandi hvað kemur af stað krampanum. Einn daginn þá get ég etið allt, t.d í gær þá fékk ég mér Nonna bát sem er nú ekki þekktur fyrir hollan mat en maginn var í fína lagi. Ekkert bögg. En oft þá er bara tekin stefnuna á næsta klósett eftir að hafa borðað svoleiðis mat.

Ég hef lært að lifa með þessu en þetta virðist fara versnandi. Er líka búin að ákveða það þegar ég er fluttur til Prag að taka matarræðið vel í gegn. Hætta að borða rautt kjöt í smá tíma og láta allar mjólkurvörur í friði. Drekka bara þeim mun meira af vatni (það er vatn í bjór er það ekki?) og sökkva í græn fæði og hvítt kjöt. Reyna að elda meira o.s.frv.

Ég er ekki viss um hvort að það sé lausnin. En þar sem ég hef reynt Trefjatöflur, drekka mikið vatn, trefjaduft, sleppa öllu gosi, minnka við mig skyndibita.. þá get ég alveg eins prófað nýjan lífstíl.

12 janúar, 2006

Atvinnuleysi

Atvinnulaus

Já ég er atvinnulaus. Ég setti fyrir framan mig stóra dagskrá um hvað ég ætti að gera þessa daga sem ég var í fríi og það kom fljótt í ljós að dagskráin var tæmd frekar snemma.

Ætlaði að fara í viðtal til námsráðgjafa í sambandi við námið. Eitt símtal dugði.
Ætlaði að finna endurskoðanda en daginn sem ég settist niður til þess að hringja þá fékk þær fréttir að endurskoðandi væri fundin.
Er enn að bíða eftir því hver verður eftirmaður minn á stuðningsheimilinu svo að ég er ekki byrjaður að pakka.
Það er ekki nóg pláss á tölvunni til þess að byrja troða inn tónlist fyrir flutningana.. en ætli ég byrji ekki á því á morgun.
Hugurinn minn er á þeytingi þessa dagana. Þetta er örugglega eitt markverðasta árið sem ég hef upplifað. Það er svo margir spennandi hlutir í gangi.
Keypti mér Fables: Homelands um daginn. Veit einhver hvað það er? Bók nr. 6 í einni bestu teiknimyndaseríu sem hefur verið sköpuð. Núna vonar maður bara að höfundurinn lendi ekki í neinu slysi og drepist.. það yrði hræðilegt.

Byrjaður að ímynda mér hvernig ég ætla hafa herbergið mitt. er að spá hvaða myndir ég ætla taka með mér. Í fyrsta skiptið í lífi mínu þá fer ég að hugsa um að ég verði að hafa myndir af vinum og ættingjum hangandi upp á vegg. Áður fyrr var það bara myndir af mér og Jesú.
Var að skoða herbergi og íbúðir í Prag í dag, fór inná þessa síðu. Hugurinn fór á flug.

Er eitthvað til sem heitir örlög? Ég er alltaf að flakka á milli að svo sé ekki og það hlýtur að vera eitthvað til sem heitir örlög. Endalaus umræða inní mér. Þetta er á sama stað og umræðan um guð og tilveru hans. Stundum er ég bara fastur á því að það geti ekki verið til guð. Stundum er ég með þá hugsun að ef guð sé til þá á hann ekki skilið að láta tilbiðja sig. En stundum finnst mér að það sé til guð og hann er að reyna leiða mann áfram.. skil þetta ekki.

jæja.. besta að halda áfram að vera atvinnulaus og rónast.

11 janúar, 2006

börn

Börn

Börn eru yndislegar manneskjur, sjálfselsk og sjálfshverf. Allt snýst um þau, finnst þeim. Miða allt út frá sjálfum sér og eru í tengslum við tilfinningar sínar.

Elska þegar þau vilja elska og hata þegar þau vilja hata. Gráta þegar þau meiða sig og hlæja þegar þau sjá eitthvað fyndið.

En þegar þau koma á vissan aldur (6+) þá byrja þau að tala um, í einhverri alvöru, hvað þau vilja gera þegar þau eru stór og þá finnst mér eins og ég sjái alvöru lífsins koma fram í þeim. Eða þegar þau tala um skólan og segjast leiðast í honum. Ég verð alltaf hálf-sorgmæddur þegar ég heyri að börnum leiðast í skólanum. Að það sé ekkert skemmtilegt í honum. Ég veit vel að oftast er þetta bara stutt, þannig líður þeim í dag en þegar þau mæta í skólann daginn eftir þá finnst þeim gaman.

En þarna finnst mér sjá fyrsta skrefið í því að vera fullorðin. Þarna eru þau að finna fyrir skyldum þess að þroskast og þarna sér ég vísir að því þegar börnin eru byrjuð að ýta niður tilfinningum sínum. Hætta að segja frá hatrinu, ýta því til hliðar, vita að það að elska getur haft slæmar afleiðingar, hlæja ekki á röngum stöðum og minnka grátinn.

Ég á engin börn sjálfur og miðað við núverandi ástand þá er nokkuð langt í það að ég eignist barn. Veit satt að segja ekki hvort að ég væri góður uppeldisaðili, síðan veit ég ekki hvort að ég myndi vilja hlusta á hláturinn og háðsglósur hjá systkinum mínum. Þar sem ég hef verið óspar á "ráð" og "ábendingar" varðandi uppeldi, enda lærður maður og hef gríðarlegt vit á uppeldi barna....

anívei.. auðvitað veit ég að uppeldi er erfitt og það hjálpar stundum ekkert að heyra í einhverjum besservisser hvernig á að fara að hlutunum. Djö.. komin í einhvern varnarham hérna...

Anda djúpt og hlusta á tónlistina sem er í gangi. Coldplay með fix you. Gítarsóló.. varnarhamur farin í burtu.

Mér finnst öll börn falleg, það er sjaldan sem ég hitti barn sem ég þoli ekki. En auðvitað gerist það af og til. Á leikskólanum þar sem ég var að vinna þá hitti maður stundum pirrandi börn. En þau voru samt yndisleg og falleg þegar sá háttur var á þeim. Annars náði ég mestum tengslum við þessi börn sem engin þoldi.. börnin sem bitu og skyrptu, sem voru hálf útundan. Ætli ég hafi ekki fundið einhverja samleið með þeim.....

09 janúar, 2006

Spila til að Gleyma

Spila til að gleyma

Stundum er maður í þörf fyrir veruleikaflótta, ég held að allir gangi í gegnum tímabil þar sem þeir þurfa aðeins að stíga út fyrir veruleikann og gleyma sér í einhverri gleði.

Ég spila. Og það skiptir engu máli hvurslags spil er verið að tala um. Hlutverkaspil, borðspil, tölvuleikir. Mín flóttaleið er að spila, sökkva sér niður í annan heim. Heim þar sem ég ræð. Þar sem allt er sett ínní ákveðnar leikreglur, þar sem maður veit hvað er að gerast, veit alveg hvaða reglur eru til staðar eða að maður sé að ímynda sér að maður er einhver annar. Einhver hetja, eða dusilmenni sem gengur um sveitir fjarlægs lands.

Ég hef reynt aðrar flóttaleiðir.

Einu sinni þá var ég heima hjá mér og var í einhverri hrikalegri vanlíðan og ákvað að prófa drekka. Átti þar þessa fína vískiflösku sem ég tók nokkra gúlsopa úr. Vískið var gott en hjálpaði ekkert til með að láta mann gleyma, leið bara enn verr og hugsaði enn meira um mína vanlíðan.
Síðan hef ég reynt að sökkva mér í kaffihúsaferðir með vinum, hitta þá sem mest.. en þá versna oftast málin, endalaust rætt um vanlíðanina og hvað maður getur gert. Það hefur aldrei virkað nema kannski hjá einum vini... en þar fer öll umræðan um spil..
Síðan hef ég reynt að sökkva mér inní kynlíf en það hefur oftast flækt málin.

Þannig að ég spila til að gleyma. Hefur virkað mjög vel hingað til.

08 janúar, 2006

Saga

Stóð á miðri götunni, horfði til himins, heyrði bílana flauta á mig og bílstjórana segja mér að drulla mér af veginum,

Ég öskraði af lífsins sálar kröftum, vildi öskra og tæma mig af öskrum. var komin með nóg. Vildi formæla heiminum, vildi láta vita að ég væri óánægður, blótaði guði og mönnum, vildi að sumir hlutir væir ekki svona,

Hver bauð upp á svona? Öskraði og blótaði á meðan riginingin skall á andlitinu. Fólkið sem hafði safnast saman fór að hörfa og ég sá að nokkrir voru að tala í símann, það skipti ekki máli. Ég þurfti að öskra, ég þurfti að láta vekja athygli á þessu. Ég var reiður, svo reiður...

langaði að fá útrás, langaði að berja einhvern, en reiðin mín fékk útrás með öskrinu. Þessu dýrindis öskri, heljar öskri, þessum formælingum, þessu blóti...

Mótmæli við örlögum.

05 janúar, 2006

Rafraus

Rafraus

Ég mun eflaust lítið rafrausast á næstu dögum. Það er helling að gera hjá mér og ég mun eflaust fá lítin tima til að röfla. Síðan er ég hættur í vinninnu og ég notaði dauðu tímana þar til að rausast.

Ég þarf að koma ýmsum hlutum í góðan farveg áður en maður fer til útlanda.

Um áramótin ritskoðaði ég pistil um síðasta ár. Nú af hverju? Það eru ýmsir hlutir sem maður skrifar ekki um á rafrausinu sínu. Hjá mér þá sleppi ég skrifum þar sem annar aðili kemur við sögu og skrifin gæti sært viðkomandi. Ég hef ekki áhuga á því að særa annað fólk. Ég geri það í sífellu en það er óþarfi að vera bæta þessu við.

En ástæðan fyrir því að ég segi frá því að þetta er ritskoðuð er einföld. Ég mun svara ef fólk spyr. Ef fólk spyr hvað þetta ritskoðað er þá mun ég svara fólki. Kannski ekki pabba og mömmu en eflaust flestum.

Annars líður mér mjög vel þessa dagana. Er sáttur við ákvörðunina um að flytja það koma upp bakþankar af og til en í flestum tilfellum þá er ég afskaplega sáttur.

Annars hef ég verið mikið að spá í ást síðastliðnu daga. Hvað þýðir að vera ástfangin, vera hrifin, elska, þykja vænt um o.s.frv. Er að ganga í gegnum sömu pælingar og fóru í gegnum hausinn á mér þegar ég var yngri. Hef verið að velta því mikið fyrir mér hvort að ég hafi einhvern tíman elskað einhvern og þá hvern, velti því fyrir mér hvern mér þykir vænt um, hverjum ég er hrifin af o.fl.

Merkilegur andskoti.. tilfinningar eru...

03 janúar, 2006

Nýtt ár

Nýja árið

Á þessu ári hef ég klárað eina bók, sungið mikið í singstar, farið yfir bókhald, reynt að kaupa fables nr. 6, sofið lítið og spilað mikið Battle field 2.

Bókin sem ég kláraði hét Z - ástarsaga e. Vigdísi Grímsdóttir. Ég verð að játa að þetta er ein af þeim betri ástarsögum sem ég hef lesið. Ég var þrisvar næstum því byrjaður að gráta yfir þessari bók. Fegurð ástarinnar í bókinni var rosaleg. Erfitt að lýsa henni.

Nýja árið lítur vel út. Það leggst mjög vel í mig.