Ég á eftir að vera hrikalegt gamalmenni. Ég fékk endanlega staðfestingu á því í þessari viku. Ég fékk streptókokkasýkingu í síðustu viku og fékk auðvitað sýklalyf við þeim andskota. Ég var rosa duglegur að taka það inn. Um helgina þá byrjaði ég að finna fyrir miklum kviðverk. Ég talaði við lækni á sunnudaginn sem hlustaði og þuklaði á mallakútnum á mér. Niðurstaða hans var sú að ristilinn væri bara ekkert starfandi. Hann sagði að það stafaði eflaust vegna sýklalyfjanna og iðraólgunni sem er fylgifiskur minn. Hann tjáði mér að eta al-bran og vona að hann hrykki í gang.
Mánudagurinn var helvíti, kaldsviti og fáránlegur rembingur í hvert skipti sem ég prumpaði. Aðfaranótt þriðjudags var líka helvíti þar sem sársaukinn var kominn yfir öll velsæmismörk, þá hefur maturinn safnast of mikið saman í iðrunum og allt var orðið uppþembt og rosa vesen á öllu. Ég gerði jógaæfingar, át verkjalyf og bjó mér til hitapoka úr samkaup-plastpoka og handklæði og þannig tókst mér að sofna. Vaknaði í morgun verkjalaus og tókst síðan að losa stífluna um klukkan þrjú í dag. Er síðan búinn að fara á klósettið um þrisvar sinnum og losa vind eins og mér sé borgað fyrir það.
Ég er nú að nálgast 31. aldursár mitt og hægðirnar mínar valda mér miklu hugarangri. Hvernig ætli þetta verði þegar ég er að nálgast sextugsaldurinn?