30 desember, 2003

Gamlárskvöld.

Ég hef oft sagt að þetta sé mitt uppáhaldskvöld ársins. Púðurreykurinn, hávaðin og ljósadýrðin hafa alltaf heillað mig.

Það myndast líka skemmtileg stemming alltaf í kringum þetta. Ég fæ alltaf einhverja gleðitilfinningu á þessum tíma.

En nú verð ég að játa að mig hlakkar ekkert til áramóta. Ég eiginlega veit ekki af hverju.

Þetta er einhvern vegin tómt í dag.

29 desember, 2003

Jólin

Ég tók upp á því að veikjast svona rétt fyrir jól. Var með einhverja drullu í hálsi og nefi. Er búin að snýta út úr mér svona 28 lítra af hori. Nennti auðvitað ekki að vera veikur svo að ég tók mig til og fékk mér sólhatt og c-vítamín, íbúfen og hálstöflur á fullu. Ég var svona lala starfshæfur um jólin og er núna orðin voða hress, en ekki alveg orðin heill þar sem ég snýtti mér í morgun hressilega og horið slettist upp á nef. Öruglega svona hálfur sentílítri. Eitt snýt og bréfið var gegnsósa af hori.

En anívei....

Ég fékk jólagjafir.

Peysu og vekjaraklukku frá Gamla settinu, Geisladisk og bók frá Vargnum, Dvd frá Bróa, nærbuxur, sokka og konfekt frá LSJ, handklæði frá Ömmy Jenný og afa Inga. Svona hefðbundið jól. Þakka auðvitað kærlega fyrir alla jólagjafirnar (þú líka Leifur... takk fyrir drekann).

Síðan er maður orðin feitu af öllu ketinu sem maður hefur borða, ef við tölum nú ekki um konfektið, nammið, gosið osfrv. Ég fékk þennan risastóra konfekt kassa frá vinnunni í jólagjöf og hann er nú í herberginu mínu óopnaður... og ég hræðist hann. Sé fyrir mér um hálft kíló af þessu eðal konfekti. Með mismunandi fyllingum, karamellu, jarðaberja, keim af banana, núggat.... mmm..... en ég er búin að klára einn konfekt kassa (þann sem ég fékk frá LSJ) og er að háma þetta í mig í vinnunni. Hef á tilfinningunni að þetta sé of mikið. En þetta er bara svo gott.... ætla ekki að opna kassann strax!

18 desember, 2003

Lífið

Það er ótrúlegt hvað það tekur á sig skrýtnar myndir.

Ég er ekki búin að gifta mig og eignast börn, eitthvað sem ég bjóst við að myndi gerast. Ekki það að ég hafi verið að leita að því eða neitt þannig. Ég ímyndaði aldrei mér að ég myndi giftast í kirkju eða neitt þannig. En ég sá alveg fyrir mér að ég væri búin að eignast mína eigin fjölskyldu áður en ég yrði 25 ára.

En ég er einn í dag. Síðan þegar ég lít til baka og þá sé ég að ég hafði einhvern draum um hjónaband. Hugsaði um hvernig þetta myndi verða þegar ég væri komin með fjölskyldu en ekki hvernig ég myndi ná henni.

Það er eins og með margt annað. Bíll og hús... hafði ekki leitt neina hugsun um hvernig ég myndi ná þeim.. en hafði hugsað mér að ég myndi eignast þetta.

En í dag þá er þetta ekkert kallandi, heillar mig ekkert. Ég væri alveg til í að eiga mína eigin íbúð, en mig langar ekkert í fjárhagsskuldbindingarnar.

Ég spyr mig oft hvort að ég sé fastur í einhverju Pétur Pan tímabili, að ég vilji ekki fullorðnast, og eflaust er það rétt.

En lífið hefur bara leitt mig á aðrar brautir, brautir sem ég sjálfur hef valið að ganga ;), ég er að vinna við eitthvað sem mér datt aldrei hug að ég myndi vinna við, er í stjórn félags þar sem ég var ekki að fíla klíkuna þegar ég var að byrja í þeim samtökum.

Er síðan komin með vinnu, verð að vinna í tilsjónarsambýli... heimili eða eitthvað, Þannig að það er margt að gerast í mínu lífi.

16 desember, 2003

Að bjarga lífi.

Var á rölti í vinnunni. Sá hvar hún barðist fyrir lífi sínu í vatninu. Stökk til, rennbleytti sjálfan mig og dró hana upp úr. Talaði huggunarorð við hana meðan hún var að þorna, var blaut og hrakin.

Henni tókst vel til við að þurrka sig og eftir smá tíma fór hún aftur að fljúga um.

Ég bjargaði lífi í dag. Kannski finnst sumum ómerkilegt að bjarga lífi flugu. En þetta er einstök lífvera. Engin fluga í heiminum mun vera með nákvæmlegu sömu DNA. Líf hennar er kannski fábrotið en hvað er mitt að dæma það?

Er ekki allt líf stórkostlegt og jafnvel hægt að nota orðið "heilagt" um lífið? Auðvitað er erfitt að bjarga öllu lífi sem er í kringum okkur. En er ekki hægt að reyna? Gera það sem við getum til þess að halda lífinu lifandi? Í staðinn fyrir að berja í áttina að flugunni þá dáðst að henni og hennar hæfni?

15 desember, 2003

Bíó!
Cabin fever. Fór á hana á fimmtudaginn síðasta, hann Siggi hólm var svo yndislegur að bjóða mér á hana. Nokkuð skemmtileg mynd. Síðan var leikstjórinn með tölu um myndina og það var þræl gaman að hlusta á strákinn. Mæli hrikalega mikið með myndinni.

Ég held líka að þessi mynd mun hafa einhver áhrif á mig í framtíðinni.... hmm...

Örlög??

Undarlegar tilviljanir, margar saman. Er það tilviljun?

Ég lenti í svoleiðis um helgina.

Var í L-12 búðinni að láta mér leiðast þar sem það var gjörsamlega ekkert að gerast í búðinni. Það ganga síðan tveir menn inní búðina, annar heldur á jaka. Hann spyr (eins og margir aðrir) hvort að við tökum á móti notuðum fötum. Ég segi já og tek á móti þessum frekar ágæta jakka. Hann segir að hinn hafi keypt sér nýjan og vildi gefa þennan. Ég horfi á hinn einstaklingin og hann segir "I have got a new one" og strýkur yfir glænýjan 66° norður jakka. íslendingurinn segir síðan eitthvað sem á að vera fyndið en ég horfi á þennan útlending og spái hver þetta sé. Þeir kveðja síðan og labba út. Ég stend kyrr og held á jakkanum sem er talsvert rakur og velti fyrir hver þetta hafi verið....

Þetta var Eli Roth. Rísandi stjarna... og ég held á jakkanum hans... væri nú flott að versla hann sjálfur eða jafnvel hengja hann upp með eiginhandaráritun. En neeeeiiiii.... ég fattaði ekki hver þetta væri og nú stend ég uppi með jakka sem er ágætur.

Er síðan næstu klukkutímana að blóta sjálfum mér fyrir að hafa ekki fengið eiginhandaráritun. Loka búllunni snemma... og fer heim, mér var boðið að fara á Grease í borgarleikhúsinu. Fjölsmiðjan í Kópavogi var að fara og buðu einhverjum leiðbeinendum með... þar á meðal mér. Mér fannst hálf fáranlegt að hafa einhverja sjálfboðaliða með þessu fólki úr fjölsmiðjunni... en segir maður nei við Grease.. hmmm... oftast, já... ég veit eiginlega ekki af hverju ég sagði já.... En anívei.

Ég settist á aftasta bekk og beið eftir að leiksýningin byrjaði og sjá... Eli Roth gengur inn. Ég byrja strax að telja í mig kjark til þess að biðja um eiginhandaráritun. Er síðan hálfa sýninguna með hugann annars staðar. Er með fiðrildi í maganum og svitna eins og ég veit ekki hvað. Hléið kemur og ég er að læðst í kringum hann eins og geðbilaður stalker. Sé hvar hann er að spjalla við einhverja Íslendinga, eitthvað þotulið... þannig að ég beið, var næstum búin að hætta við... en sá þar sem kom aðsvífandi bjargvættur, ljóshærð og brjóstgóð. Fór að spjalla við hann á fullu. Ég stökk þá að með penna og blað og fékk áritun! Spjallaði við hann í smá stund og hlustaði á spjall hans við stúlkuna. Virtist vera mjög eðlilegur og fínn gaur.

Ég horfði síðan á afganginum á sýningunni í gleðivímu... uppgvötaði síðan að ég hafði ekkert til þess að tengja árituna við jakkann.... en ég var tiltörulega rólegur yfir því.... treysti almættinu.

Og hvað... í mogganum var mynd af Eli Roth í hinum ágæta jakka.

Tilviljun eða örlög?

12 desember, 2003

ARRRGGGHHHHHHH!!!

Ég held að ég viti núna hvernig gelgju líði. Mér líður eins og lítilli gelgju sem er verið að reyna útiloka frá vinahópnum. Verið að fara á bakvið hana til þess að sjá hvort menn velji mig eða hópinn. Einhver hópamyndun í gangi...

Verð hrikalega pirraður útaf því. Urrr....

Hvað gengur að fólki?

11 desember, 2003

I am going slightly mad!

Draumur í nótt.... ég var að fara leigja og fann mér flotta góða kjallaraíbúð. Þessi kjallara íbúð var falleg og góð og mig langaði í hana. Eini gallin á henni var að það hún var í stóru húsi og ég þurfti að fara í gegnum forstofuna hjá heimilisfólkinu til þess að komast að íbúðinni minni (eins og er í íbúðinni hjá Varginum).

En mér líkaði vel við fólkið sem átti húsið og það líkaði vel við mig. Þetta var fimm manna fjölskylda. Allir voru svona tiltörulega venjulegir en það var ein stúlka þarna.... daddarra...

Hún var 19 ára og var að klára menntaskólann. Var svona "late bloomer", hafði verið ógeðslega barnaleg en hafði blómstrað í þessa fallegu kvenveru. Ég tók strax eftir því að hún gaf mér auga ef hún hitti mig í forstofunni. Við fórum eitthvað að daðra... ekkert alvarlega (þar sem ég kann ekkert að daðra... ekki einu sinni í draumi).

Einn dag þá er ég eitthvað bjástra í íbúðinni minni þegar hún bankar upp á. Biður mig um að koma upp og hjálpa sér aðeins. Ég fer upp með henni og það eru engir foreldra heima. Við förum eitthvað að kela og erum komin í svaka aktjón, týna spjarirnar af og við að nudda og sleikja. Virkilega hot draumur... er kannski að fara í blautan!

En auðvitað koma foreldrarnir heim. Við erum í herberginu hennar. Hún stekkur fram, vefur handklæði um sig og fer eitthvað að stalla fyrir foreldrunum. Ég reyni að fela mig í einhverju skoti, nakin, heyri eitthvað rifrildi frami og heyri það að stelpan fer að gráta, inn koma foreldrarnir... ég er svona hálf falin. Þetta er svona atriði í bíómynd þar sem vondu kallarnir þurfa bara að taka eitt skref í viðbót og þá sést aðalsöguhetjan.. í bíómyndum þá stíga aldrei vondu kallarnir fram.. en hvað gerist hér....

Jú foreldrarnir stíga fram. Horfa á mig með reiði svip þar sem ég stend hálf bogin í felum... nakinn.... nú ég bregst við eins og allir hefðu gert

"fyrirgefið" stíg síðan fram og næ í nærbrækurnar mínar, klæði mig í þær og fer síðan í íbúðina mína. Stuttu seinna koma foreldrarnir og segja að ég er góður leigjandi og þau vilja ekki missa mig en ég má ekki sofa hjá dóttur þeirra.

What is wrong with this picture?????
Lofræða

Það er sjaldan sem maður les eitthvað sem hreyfir við manni. Oft þá les maður texta, sögur, ljóð án þess að einhverjar tilfinningar vakni upp hjá manni. Maður les textann með kannski skemmtanagildi í huga eða kíkja á boðskapinn hans. Hann er áhugaverður oft... en það vaknar ekkert upp.

En stundum gerist það að maður les texta og það vakna upp tilfinningar. Ef það gerist almennilega þá vaknar tilfinningasúpa sem maður á erfitt með að ná utan um. Grátur, hlátur skiptast á að koma, hugsanir þjóta fram og til baka og maður veltir fyrir sér textanum fram og til baka.

Það gerðist í sumar þegar ég las Life of Pi e. Yann Martel og í gær gerðist það líka þegar ég las bloggið hans Togga Pop. Hef lesið hann í smá tíma og hef alltaf gaman að þriðjudagssögunum hans. Sögur af honum sjálfum þar sem maður fær þvílíkan kjánahroll (eða bjánahroll) yfir öllum þessum kjánagangi hjá honum.

Í gær settist ég niður og byrjaði að lesa og þá koma allt annar hljóð upp úr honum. Þetta er skyldulesning á allan máta. Textinn er vel skrifaður, hann nær til mans, veitir manni innsýn inní tilfinningar og maður á auðvelt með að ímynda sér atburðina. Sér sjálfan sig inní þessu, textinn dregur mann inní þann hugarheim. Síðan er boðskapurinn eitthvað sem á erindi í umræðuna.

Textinn er hér.

Skyldulesning!

08 desember, 2003

Um val

Okkar líf snýst um val. Við erum alltaf að velja stefnu sem við viljum að lífið okkar á að taka.

Það er ósköp einfalt. Allt í okkar lífi er í kringum þetta val. Það er ekki hægt að fela sig bakvið "þetta er bara svona" eða "örlögin tóku í taumana". Heldur við völdum stefnu þessa.

Að keyra upp eða niður laugaveginn. Það er val. Ef við veljum það að keyra upp laugaveginn þá tökum við þeim afleiðingum. Þetta getur þú sett á allt. Spurning hvort að það sé hægt að setja fólk með geðsjúkdóma....hmm... en anívei.

Ef við veljum það að taka að okkur verkefni á vegum Rauða Krossins þá er það okkar val. Þótt að eina ástæðan fyrir því að við völdum það að taka að okkur þetta verkefni sé skyldurækni þá er þetta samt okkar val.

En stundum er erfitt að fást við þetta val. Stundum er það mjög erfitt að vera undir því. Við erum öll mannleg og höfum öll okkar veiku punkta og stundum tökum við of mikið að okkur. Þá veljum við það samt. Þá erum við að velja það. Veljum kannski að gera sumi hluti illa. Lítið við því að gera.

En auðvitað má maður kvarta yfir því :Þ

En síðan má ekki gleyma því að við höfum örlög og allt í kringum okkur er fyrirframákveðið. Jú við höfum ákvörðunarvald en það er samt fyrirfram ákveðið hvað við veljum. En það þýðir ekki neitt fyrir okkur þar sem við erum bara peð á stóru taflborði veruleikans.

Fór líka og horfði á Two Towers extended á laugardaginn og skrópaði á föstudeginum í hnefaleika. Valdi það alveg sjálfur.

04 desember, 2003

Þreyta

Ég er orðin langþreyttur.

Allir virkir dagar eru uppteknir. Á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum fer ég í hnefaleika og svitna eins og svín. Skrepp svo og fæ mér eitthvað að borða. Síðan heng ég oft með honum GEB eða fer að spila.

Á þriðjudögum og fimmtudögum fer ég svo að vinna mína aukavinnu. Já þessi ferð þarna í haust kostar víst eitthvað og maður þarf víst að borga sínar skuldir, svo maður verður ekki viðskiptavinur sjálfs síns. Þannig að ég fer og hringi í fólk og segi því frá tilboðum á vegum símans. Voðalega heilalaust eitthvað en ég fæ pening og kemst á MSN á meðan.

En ég nenni þessu ekki mikið lengur.

Mig dreymdi að ég væri veikur í nótt. Ég dreymdi að ég myndi lenda í slysi og væri á spítala. Það segir manni margt.

ég vil taka eina kvöldstund og slappa af. Fara í bíó.... taka því rólega.

Sé samt ekki hvenær ég á að hafa tíma fyrir það.

02 desember, 2003

Goðin mín

Hafa ekki allir einhverja til að líta upp til? Ég hef þrjá aðila sem ég lít upp til og dái. Ég hef mun fleiri sem ég lít upp til en þessir einstaklingar eru svona aðilar sem hafa haft áhrif á mig á annan máta. Þar sem hátíð sem er haldin til heiðurs eins þeirra verður haldin á næstunni þá ætla ég aðeins að fjalla um þessa þrjá aðila.

Þetta eru Jesús frá Nasaret, Ernesto "Che" Guevara og Mahatma Ghandi.

Það er tvennt sem sameinar þessa einstaklinga. Þeir voru allir byltingasinnar og voru tilbúnir að láta lífið fyrir málstaðinn. Málstaður þeirra var mjög ólíkur og allir notuðu þeir mismunandi aðferðir við að koma málstaðnum á framfæri.

En þeir trúðu á hann svo sterkt að það virtist enginn efi vera hjá þeim. Kannski kom efi einhvern tíman upp en þar sem þetta eru hálfgerðar goðsagnarverur þá er ekki fjallað mikið um það.

En það er það sem heillar. Þessi óbilandi trú á málstað sem fer yfir öll mörk. Að trúa á eitthvað svo sterkt að þú ert tilbúin að stíga niður af stalli lífsins fyrir hann.

Ég hef aldrei haft neinn svona málstað og það er mjög ólíklegt að í svona fyrtu samfélagi eins og ég lifi í að ég muni hafa hann. En ég get samt dáð aðra fyrir það.

Málstaðurinn er ekki það sem ég dái, heldur hegðun og hugsun þessara manna. Þeir voru allir stórkostlegir, hver á sinn hátt.