30 júlí, 2007

Bíó, pælingar og fréttir

Fór í bíó með þeirri heittelskuðu á myndina 1408, sem var bara hin ágætasta skemmtun. Náði að vekja hjá mér góða stemmingu og nokkurn hroll.

Ég gæti pirrast rosalega yfir hléinu sem var í þessari mynd og sleit myndina í tvennt.. en ég held að flestir viti alveg af þessu áliti mínu þannig að ég ætla ekki að eyða tíma í það.

Annars er spenningurinn að magnast. Ég á viku eftir í Þjóðarbókhlöðunni og vonandi fáum við íbúðina afhenta sem fyrst.

Ég ætla að reyna að búa mér til heimili þar. Setja þær myndir sem ég vil hafa upp á veggjum og hafa skipulagið eftir mínu höfði.. hvort að það takist er eitthvað sem kemur í ljós.

Síðan ætla ég að bæta við að þessi umfjöllun um Múlavirkjun er mjög merkileg. Einhverjir einkaaðilar fá leyfi til að virkja, þurfa ekki að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum, eigendurnir eru líka í sveitarstjórninni og síðan búa þeir til stífluna nokkrum metrum hærri heldur en hún var á teikningum og hefur gríðarleg áhrif á lífríki. Nú eru stjórnvöld að klóra sér í hausnum yfir því hvað skal gert. En ætli þetta hafi verið óvart? "Úpps.. hún var 2 metrum hærri alveg, alveg óvart. Það var bara svo gaman að byggja að einn daginn við föttuðum að hún var allt of stór."

24 júlí, 2007

Harry Potter

Ég er búinn með bókina, kláraði hana á aðfaranótt mánudags. Ég var ekki fyrstur með hana í kringum mig þar sem Guðmundur hafði samband við mig á laugardaginn og sagði mér að hann hefði lokið við hana þann sama morgun.

Þetta var Harry Potter bók og ég var nokkuð sáttur við hana, nema einn hlut, sem ég ætla ekki að útskýra hér þar sem eflaust eru hér einhverjir lesendur sem vilja lesa hana óspilta.

Ég held að J. K. Rowlings hætti ekki að skrifa, spurningin er bara hvað hún mun skrifa um. Hún mun ekki skrifa meira um Harry Potter en það gæti verið að hún haldi áfram að skrifa í sama heimi. Ég veit samt ekki.

En alla vega þá er þessum kafla lokið.

21 júlí, 2007

Harry Potter

Stóð í röð í klukkutíma í gær til þess að ná mér í þá nýjustu. Las hana samt ekki í nótt. Vildi nota nóttina í svefn.

En núna starir hún á mig og kvartar yfir því að ég sé að skrifa hérna í stað þess að lesa hana.

Ef einhver vill lesa um hvað ég er mikill fan þá getur sá hinn sami kíkt á þetta!

17 júlí, 2007

Vinna og fleira

Það mun margt breytast í ágúst. Ég er búinn að fá vinnu í leikskóla sem kjarnastjóri (deildarstjóri). Þessi leikskóli heitir Völlur og er staðsettur á Keflavíkurflugvelli þar sem amerískir sóldátar gengu um jarðir. Þetta er risastór leikskóli með yfirbyggðum garði og Hjallastefnan verður við lýði í þeim skóla, enn sem stendur er ekki vitað hvort ég verð með stráka- eða stelpudeild.

Eins og gefur að skilja þá er ekki hægt að taka strætó á milli svo að ég mun flytja þangað upp eftir í ágúst. Vonandi fljótlega eða í síðasta lagi um Verslunarmannahelgina. Eftir eitt og hálft ár af því að geyma allt dótið mitt hjá Ragga, í búslóðageymslu, hjá foreldrum og kærustu þá tekst mér að sameina allt undir einu þaki og get kallað það heimili.

Vinnutíminn minn verður þannig að ég mun opna húsið og vera til fjögur, fimm en á föstudögum mun ég sleppa um hádegisbilið og mun skella mér til Reykjavíkur þar sem ég mun dvelja hjá kærustunni.

En sagan er ekki enn lokið vegna þess að ég benti Halli á grunnskólann sem verður settur á laggirnar þar og hann fékk vinnu við kennslu og við munum vera herbergisfélagar í 3 herbergja íbúð.

Svo að í fyrsta skiptið í lífinu þá mun ég vera með lögheimili utan Reykjavíkur, mun ég stjórna einhverju fólki í vinnu og leigja með herbergisfélaga.

Miklar breytingar framundan.

14 júlí, 2007

Má þetta?

Það kom frétt í hádegisfréttum Útvarps í dag um mann sem fékk mikil brunasár í gassprengingu á Austurlandi en það leið mikill tími þangað til að hann komst undir læknishendur og það var mjög líklega til þess að sárin voru alvarlegi en hefðu getað orðið.

Ekkert voða merkilegt, einhverjir heimskingjar að sniffa gas og kveiktu í sígarettu strax á eftir. Ok.. voða fyndið.. eða þannig..

En hvað er læknir að kommenta í fjölmiðla um þetta mál. Er hann ekki enn í gjörgæslu, má segja svona mikið um ástand hans og hvers vegna hann lenti í þessu slysi? Má læknir koma í fjölmiðla og gaspra um þetta?

Ef ég væri ættingi þessa manns þá væri ég brjálaður út viðkomandi lækni.

12 júlí, 2007

Fréttir

Hverjir lásu Draumalandið eftir Andra Snæ? Ja, alla vega, þeir sem lásu þá bók muna eflaust eftir lýsingu Andra á Rio-Tinto - álfyrirtækinu hræðilega. En núna eru þeir búinir að kaupa Alcan og álverið í Straumsvík.

En gaman...

Blóðnasir

Ég fékk þá furðulegu flugu í hausinn í gær að mæta á útsöluopnun klukkan sjö í morgun í búðinni Next. Mér finnst sokkarnir sem fást þar vera mjög þægilegir og hef keypt eitt og annað í gegnum tíðina í þeirri búð. Hef reynt að fara á útsölur þarna en það hefur aldrei neitt verði í minni stærð.

Þannig að ég stillti vekjaraklukkuna á 0600 og sagði við sjálfan mig að ef ég vaknaði og nennti ekki á fætur þá myndi ég bara slökkva á símanum og snúa mér á hina hliðina (sem var eiginlega sú niðurstaða sem ég bjóst við að myndi verða ofan á).

Ég vaknaði við símann og slökkti og skellti mér á hina hliðina. En þá fékk ég blóðnasir. Og þessu þvílíku blóðnasir, stökk inná klósett en allur handleggurinn frá olnboga að hendi var blóðlitaður en það tókst næstum því alveg að bjarga rúminu. Blóðnasirnar stoppuðu eftir nokkrar mínútur og þá var ég rosa hress og fór að versla. Keypti helling af sokkum og nærbuxum, 3 skyrtur og buxur.

En er búinn að vera að fá blóðnasir af og til í dag.

11 júlí, 2007

Blót

SATAN!!!!! ANDSKOTANS, DJÖFULSINS, HELVÍTIS, RUGL....

rennilásinn á buxunum er ónýtur... urrrr.....

10 júlí, 2007

Sumarbústaður og atvinna

Kerfið er eitthvað að stríða mér og sýnir ekki póstinn sem ég skrifaði síðast. En jæja..

Síðustu dagar hafa verið frábærir. Ég fór í sumarbústað í viku, nánar tiltekið til Illugastaða þar sem eytt var dögunum í lestur (Atómstöðin eftir Halldór Laxnes, Stranger eftir Japanskan gaur, Wrong about Japan eftir Peter Carey og Gyllti Áttavitinn eftir Philip Pullman). Síðan var skroppið til Hellissands og á leiðinni þangað komst ég að því að norður-leiðin á Snæfellsnesi er seinfær en mun fallegri en suður-leiðin. Einu kvöldi var eytt í Catan, Jungle Speed og spjall.

Núna er ég kominn í bæinn og þurfti að aðskiljast við mína ekta-kvinnu þar sem ég er að passa íbúðina hana Ragga næstu 3 vikurnar.

Núna er haustið að koma í ljós og það verða miklar breytingar hjá mér. Kominn með atvinnu og mun fæ hæsta grunntaxta í launum, hingað til, og verð jafnvel með hærri laun en konan! En ekki víst.

Ætla segja betur frá atvinunni seinna.

Góðir tímar framundan.