31 október, 2006

Skap

Lundin

Ótrúlegt hvað skap getur sveiflast. Hvað maður getur verið í hæstu hæðum, finnst manni geta gert allt, framtíðin lýsir björt framundan, verkefnin eru að klárast fyrir framan mann, maður er sjálfur fallegur, myndarlegur, yndislegur og gáfaður.

En síðan daginn eftir þá finnst manni allt vera í rúst, verkefnin ganga ekki upp, maður finnur fyrir öllum göllum líkamans, finnst manni vera úrhrak, skíthæll, engum til gagns, að maður er lifandi einhverju lífi sem maður á ekkert skilið.

(nei ég fer ekki að hugsa um sjálfsvíg eða eitthvað álíka! Bara til að undirstrika það, það er alltaf sagt í fræðunum að ef maður heldur að einhver sé að hugsa um að taka sitt eigið líf þá eigi maður að spyrja beint, nú er ég að svara þeirri spurningu).

Ég er að gera mig meðvitaðri um að hvernig skapsveiflurnar mínar eru. Maður þarf einhvern vegin að átta sig á því hvenær maður er í góðu skapi og nýta sér það og síðan þegar maður er í vondu þá að ganga með skilti um sig sem á stendur "er í vondu skapi" eða "er rosa þunglyndir.. nenni ekki að tala við fólk".

30 október, 2006

Helgin - leikrit, fyllerí og spilerí

Helgin

Helgin var viðburðarrík.

Fyrst fór ég á leikhús og sá sýninguna þjóðarsálin í reiðhöll Gusts í Kópavogi. Dró kærustuna með. Ég og hún höfðum gaman af og ég hugsa að ég hafi aldrei fengið eins mikið samviskubit og gæsahúð yfir einu atriði sýningarinnar.

Hann Árni Salomonsson var í sýningunni og mér fannst hann standa sig mjög vel, ég er kannski of nálægt til þess að vera góður dómari á frammistöðu hans. Hestarnir komu líka mjög skemmtilega á óvart.

Eftir sýninguna þá var farið heim og opnað eina flösku af rauðvíni. Hófst þar mikið spjall um heima og geima sem er eitt af sterku punktunum í, að mínu mati, okkar sambandi. Hún var glerþunn daginn eftir og kenndi rauðvíninu um. Ég mótmæli því hér með og segi að það hafi verið hinir drykkirnir sem hún var að drekka, eftir rauðvínið

Á laugardaginn fór ég og stjórnaði ákveðnu ævintýri sem ég hafði lagt töluverða vinnu í að undirbúa. Það gekk allt vel á yfirborðinu en ég sjálfur varð fyrir vonbrigðum. Fékk alls ekki það sem ég ætlaðist til með þessu spileríi. Finnst það hafa mistekist gjörsamlega og það er eitthvað sem ég bara get kennt sjálfum mér um. Hef líka óskað eftir því að við endurtökum leikinn.

Á sunnudaginn var bara þrif, afmæli hjá ömmu, vinna og Rölt. Var ágætur dagur.

27 október, 2006

úrdrátt úr fréttum

Fréttir

Í gær þá skrifaði ég upp 30 fréttir og gerði úrdrátt úr upp úr 4 fréttum. Gerði líka lítinn úrdrátt úr Kastljósi þar sem var talað við fyrrverandi fréttamann Rúv um ummæli forseta Íslands.

3 fréttir um kynferðisafbrot og nauðgarnir, 5 fréttir um hvalveiðar, 3 fréttir um banaslys í umferðinni, frétt um hundaþjóf, frétt um að FL group styrki BUGL o.fl.

Vitið þið hvað er að fréttum? Það stundum ekki fjallað um staðreyndir, bara teknir einhver álit karla og fjalla um það.

En síðasta fréttin sem ég skrifaði upp var um nýju reglurnar um handfarangur í flugvélar. Djöfull var ég pirraður. Getur einhver útskýrt fyrir mér hvað sést í röntgen vélum í vökvum? Hvort að nytroglyserín sést í röntgen vélum? Af hverju þurfa vökvarnir að vera í plastpokum? Af nhverju má ekki vera með stærri ílát en 100 ml?

Síðan hvalveiðar. Norðmenn eru eina landið sem veiðir hval í atvinnuskyni. Þeir gátu ekki selt hvalin til Japans en Íslendingar ætla að gera það. Hvers vegna getum við gert það en ekki þeir? Langreyður er í útrýmingarhættu. Jú nóg af honum í kringum Ísland segja vísindamenn, já það er örugglega nóg af fílum í kringum eitt þorp á Indlandi en þar með er ekki sagt að þeir þorpsbúar geti veitt fíl. Nóg er af hval, er það ófrávíkjandi staðreynd að þeir eru að höggva skarð í fiskinn í kringum landið? Er Ísland að græða á þessum hvalveiðum? Nú hefur sjávarútvegsráðherra sagt að allir sem hafi leyfi til að veiða hval geti veitt hann, en af hverju var það ekki tilkynnt með góðum fyrirvara og undirbúið vel svo fyrirtæki gæti lagt í þá fjárfestingu að veiða þennan andskotans hval? Hvers vegna fékk Kristján Loftsson símhringingu á undan öllum?

Símhleranir.. sjit.. ætla ekki að hætta mér í þann forapytt bullsins og ruglsins. Engin veit sannleikann, engin veit hvað er satt og rétt.

Nauðganir og kynferðisafbrot.. dómar þyngjast, umræða hefur breyst, maður hefur á tilfinningu að það er hlustað meira á vitnisburð núna en áður. Sem er flott! Eftir svona 20 ár þá ætti þetta að vera komið á þann stall sem ég get sætt mig við.

23 október, 2006

Brúðkaup

Netið er yndislegt. Um helgina þá fór ég í brúðkaup hjá Olgu og Alejandro. Hún er íslensk og hann er frá Argentínu. Kynntust í gegnum netið, myspace heyrðist mér, fyrir 8 mánuðum síðan. Ákváðu að gifta sig og gerðu það með stuttum fyrirvara. Héldu fallegt, lítið brúðkaup að Búðum í Snæfellsnesi.

Tók nokkrar myndir við tækifærið. Besta myndin var nú af Norðurljósunum sem voru einstaklega falleg.

17 október, 2006

Morgunverkin - frh

Morgunverkin - frh.

Já þetta var nokkuð skemmtileg viðbrögð sem ég fékk við pistlinum mínum, talað um kremsull, að það væri svolítið spes að leggja á minnið öll þessi nöfn, metrósexúal o.s.frv.

En það tók bara einn eftir því að þetta var tilvitnun í American psycho. Og það var eftir að ég var búin að minnast á þetta.

Annars ef við sleppum nöfnum þá nota ég sápu, sjampó og hárnæringu í sturtu (hver gerir það ekki?), nota raksápu við rakstur, rakakrem á líkaman, það ódýrara fer á líkaman og það dýrara í andlitið og rakspíra.

Nota einhverja hárnæringu sem á að fjarlægja flösu, tjörulyktandi vibbi sem ég má bara nota 3 vikur í senn. og síðan er ég með bakteríueyðandi munnskol sem er að vinna á tannholds bólgum (er að vonast eftir því að þetta hverfi og ég muni ekki þurfa að fara til tannlæknis).

Ég er nefnilega að gera tilraun með að setja rakakrem á líkaman, nú nota mjög margar stelpur það og það segir mér engin að húð kynjanna sé ótrúlega ólík. Síðan var einn vinur minn að hann notaði rakakrem. Þannig að ég ætlaði að gera test, prófa hvort að ég fyndi fyrir einhverjum mun.

Og já.. ég finn fyrir mun, sérstaklega í andliti. Auðveldara að raka sig og húðin er mýkri. Hvort að ég mun nenna þessu til langtíma er auðvitað allt annar handleggur, ekki alinn upp við það eins og stelpur!

15 október, 2006

Álver

Misskilningur

Fyrir nokkru þá minntist ég á Helguvík og sagði að það væri á Norðausturlandi. Ég er búin að komast að það er alvarlegur misskilningur hjá mér. Helguvík er á suðvesturhorninu nánar tiltekið í Reykjanesbæ.

Ég hélt að þetta álver hlyti að vera álverið sem er verið að tala um í sambandi við Húsavík. En svo er ekki.

Þetta álver í Helguvík á að vera 250 þúsund tonn (straumsvík er í dag 180 þúsund tonn).

Auðvitað er ég ótrúlegt fífl að hafa ekki gert mér grein fyrir þessu strax en það var nú engin hér að benda mér almennilega á þennan misskilning minn og hvað þá að leiðrétta það.

En við erum þá að tala um að það á stefna á það að stækka straumsvík og Grundartanga, gangsetja álverið á Reyðar firði og byggja 2 ný álver....

Er einhver allsherjar truflun í gangi? Er einhver búin að missa vitið gjörsamlega? Hvað er í gangi?

13 október, 2006

Sturta

Morgunverkin

Þegar ég vaknaði þá gekk ég fram í baðherbergi, setti sturtuna í gang og tannburstaði mig. Ég notaði Colgate - whitening sensation, fór svo með tannþráð á þá staði sem ég er með bólgur. Ég fór síðan í sturtuna og fann að hún var mátuleg. Ég bleytti allan líkaman og þvoði hann með húðmjólk blandaða í ólívuolíu sem var extra rakagefandi. Sápan var síðan skoluð af og þá bar ég Safe formula sjampó, sem er framleidd hér á landi án þess að notaðar séu dýrarannsóknir, í hárið, sjampóið var með vanillu og sólblómavökva og ætlað fyrir fínt og/eða þunnt hár. Eftir að hafa skolað sjampóið úr þá setti ég samsvarandi hárnæringu í hárið og lét það standa þar í svona um það bil 2 mínútur.

Ég hætti að láta renna og steig úr sturtunni. Mældi 10 ml af Corsodyl, sem er bakteríueyðandi munnskol, og lét það renna um munninn á meðan ég þurrkaði mér. Ég bar á mig síðan L´oréal - anti-irritation skin caring shaving foam, fyrir viðkvæma húð, og rakaði mig með Mach 3+, með aloa vera geli, rakvélinni minni. Ég bar á líkamann Hydrofíl - rakakremi frá gamla apótekinu, lyktarlaust rakakrem sem skilur ekki eftir sig einhverja fitutilfinningu, og L´oréal Hydra Energetic anti stress Moisturising Lotin, með c-vítamíni, í andlitið. Ég setti síðan BIO+ active care hárnæringu í hárið, flösueyðandi hárnæring sem ég er að fara hvíla mig á. Í hárið fór svo L´oréal - Tec devitation Paste, og mótaði hárið síðan eftir vild. Að endanum sprautaði ég síðan Van Gils - Basic Instinct, rakspíra, yfir andlitið á mér.

Og þá var ég tilbúinn fyrir daginn.

11 október, 2006

Rokk og reykingar

Rokk og Reykingar

Ég sá auglýsingu um Rokktóbeerfest um daginn. Sá að Leaves, Ske og Telepathetics eru að spila á Gauknum á föstudaginn næstkomandi. 600 kall inn. Ég hugsaði með mér "hey, það væri gaman að skella sér á þetta".

Hef alltaf langað að sjá Leaves á almeninnilegum tónleikum (ekki sem upphitunarband fyrir einhverja aðra), hef aldrei séð Ske en hef alltaf langað að kynnast þeim og síðan hlustaði ég á Telephathetics mikið um daginn og fannst þeir frábærir.

Mig dagdreymdi um það að mér myndi takast að plata kærustuna með og jafnvel hafa samband við Ragga og drösla honum líka...

en svo kom raunveruleikinn... Gaukurinn er ekki reyklaus staður... reykingar fara ekkert í taugarnar á mér svona þegar einn, tveir eru að reykja... en þegar ég kem inní sal með lélegri loftræstingu þar sem tugir manna eru að reykja.. jafnvel núna þegar ég sit hér og skrifa þetta þá finn ég reykingarlyktina af mínum fötunum og fæ vott að hausverk bara við tilhugsunina.

Sko.. hávaði, dans, drykkja er ágætisblanda, getur stundum verið yfirþyrmandi en ágætisblanda.. en að blanda sígarettureyk inní þessa blöndu.. hún er bara ekki fyrir mig...

Ég verð að játa að ég hlakka GRÍÐARLEGA mikið til þegar það verður bannað að reykja á skemmtistöðum. Hafið þið einhvern tíman farið á svoleiðis stað? Ja, ég hef gert það! Og að vakna daginn eftir með vott að þynnku og geta farið í sömu fötin (ég gerði það nú ekki að mig minnir, en að hafa möguleikann á því), það er málið.

10 október, 2006

ljósmyndir

Ljósmyndirnar sem við tökum í dag eru horfnar á morgun

Þetta hef ég heyrt nokkrum sinnum og í dag þá uppgötvaði ég að það er rétt. Ég skrapp nefnilega til Brussel nóvember 2003 og tók helling af myndum á myndavél URKÍ-R og þar á meðal nokkrar hreyfimyndi (video mynd) af göngu minni í gegnum borgina og síðan þegar ég flaug yfir London um kvöld og það var heiðskýrt.

Ég á enn myndirnar sem voru teknar en hreyfimyndirnar eru farnar. Fóru þegar harði diskurinn fór 2005. Finnst hálf ferlegt að muna eftir einhverju sem er síðan ekki til. Nú er ég duglegri við að taka back up heldur en ég var þá. En þar sem ég á ekki neinn almennilegan framtíðar samastað þá er mjög líklegt að þeir diskar fari á eitthvað flakk og týnist.

Ég er líka í vandræðum með íslensku stafina í Haloscan komment kerfinu. Hann gúdderar ekki ð þó að hann sé með ISO 8859-1 sem á að duga íslenska stafi. Er afar óssáttur við þetta annars ágæta kerfi, sem hefur virkað óaðfinnanlega þangað til í dag.

Ég var að setja inn nýtt myndaalbúm. Kallað það vini og fjölskylda. Þarna hafa verið settar tækifærismyndir af vinum og fjölskyldu, sem hafa verið teknar í gegnum tíðina af því góða fólki. Ef einhver er ósáttur við myndirnar af sjálfum sér þá skal hin sami senda mér línu á simplyjens at gmail punktur com og ég mun taka við þeirri ábendingu til íhugunar.

Vinir og fjölskylda
Aug 30, 2006 - 23 Photos

09 október, 2006

Hugleiðingar um sjálfið

An Zhaning

Mitt kínverska nafn. Samkvæmt þessu

Ég var að velta því fyrir mér í gær hvort ég hafði eitthvað breyst í gegnum tíðina, hvort að það væru einhverjar grundvallarbreytingar á minni persónu síðan ég var lítill. Er ég bara ekki sami horaði bókaormurinn sem ég var þá. Þessi þrjóski, sem hafði ekki fyrir neinu í skólanum, sem oftast gat leikið sér einn og dúllaði sér í sínum eigin heimi?

Hefur það eitthvað breyst? Við þróumst aðeins, eldumst en persónuleikinn breytist ekkert. Við erum enn sömu einstaklingarnir sem við erum þegar við fæðumst. Þannig að það sem þú sérð í börnum munt þú mjög líklega sjá þegar þessir sömu einstaklingar eru orðnir stærri.

Eða er það rangt hjá mér? Er Tabula Rasa hugmyndin til staðar. Getum við breytt okkur, breytt grunninum okkar?

Síðan er ég komin með 6737 orð í söguna sem ég er að skrifa.

08 október, 2006

Fréttir

Í fréttum er þetta helst...

Í Skagafirði er verið að spá að virkja tvær ár.. tveir virkjanakostir verða settir á aðalskipulag og síðan verður athugað hvort að einhver vill fá þessa orku. Það á að nota hana til að byggja upp atvinnu í héraðinu segir meirihluti Skagafjarðar.

Í Norðurhluta landsins vilja menn henda upp 150 þúsund tonna álveri í Helguvík.. fyrir 2010.

Ríkisendurskoðun gagnrýndi stjórnvöld og stjórnsýslu alvarlega um daginn fyrir að eyða um efni fram. Benti sérstaklega á utanríkisráðuneytið. Sagði að aðhaldið ætti að vera meira.

Í yfirlýsingu sem Árni M. Mathiasen kom fram þegar hann kynnti fjárlagafrumvarpið þá sagði hann að aðhald í ríkisfjármálum hefði verið nokkuð gott og nú mætti fara draga úr því.

Fyrir nokkrum mánuðum síðan þá lýsti ríkisstjórnin yfir því að það ætti að draga úr framkvæmdum á vegum ríkisins til þess að draga úr þenslu. Fyrir stuttu þá sagði forsætisráðherra að merki væri á lofti að dregið hefði úr þenslu og það mætti fara og setja þessar framkvæmdir í gang aftur. Stýrivextir hækkuðu um 1,5% á meðan. Það kom yfirlýsing um að draga úr framkvæmdum frá einni sveitarstjórn, Reykjanesbæ. Á meðan fóru Reykjavík að brjóta niður faxaskála.

Varnarsamningur var gerður við Bandaríkjamenn. Einu aðilarnir sem fá að vita um innihald samningsins eru 2 ráðherrar, þeir hafi lýst því yfir að um mikilvægt trúnaðarmál væru um að ræða. Bandaríkjamenn drógu her sinn í burtu vegna þess að það var engin þörf á honum. Engar hættur stöfuðu að Íslandi. Á meðan hættur stöfuðu á Íslandi vegna kalda stríðsins, þá vissu allir innihald varnarsamningsins.

Undirritaður fór í óvissuferð með vinnu sinni og drakk helling af bjór, hans hópur rústaði "hópeflisleikjunum", fór í klettasig og hellaskoðun. Líkami hans er ekki góðu ástandi sem stendur vegna aumra vöðva í öxlum.

06 október, 2006

breytingar

Breytingar

Fyrir 3 dögum síðan þá breytist líf mitt talsvert. Margir myndu segja að lífið hafi ekkert breyst eða að breytingin sé ekkert merkilegt. En ég er þessu algerlega ósammála. Að mínu áliti þá er þetta grundvallarbreyting og eiginlega það merkilegt að ég get ekki staðist það að rita um hana smá pistil.

Þetta er lítil breyting en mun vafalaust hafa mikil áhrif. Kærastan á 2 börn og þó að ég hafi hitt þau nokkrum sinnum þá hef ég alltaf verið kynntur sem vinur aldrei sem kærasti eða neitt þannig. þangað til fyrir 3 dögum, þá sagði móður þeirra frá þessum ráðahag.

Þetta er auðvitað stórmerkilegt. Allt í einu eru 2 krakkar komnir inní mitt líf. Þeir voru auðvitað komnir inní það fyrir löngu en allt í einu er ég komin inní þeirra, með allt öðrum formerkjum. Börn kærustunnar fóru að hella yfir hana spurningar eins og hvenær ég myndi flytja inn eða hvort þau mundu nú flytja inn til mín, hvenær við mundum kyssast o.fl.

Ég efast um að ég fái sömu spurningar.. hugsa að ég fái frekar frekar fliss og hlátur svona í fyrstu og síðan fer nýjabrumið af mér og þá sjáum við hvort ég sé nógu góð fyrir þau.

En það gerist eins og allt annað.. hægt og rólega..

02 október, 2006

Sauðárkrókur

Sauðárkrókur


Á laugardaginn fékk ég að vita að við værum að fara á Laufskálaréttir. Eitthvað um hundrað hestar í réttum. Það var nokkuð gaman en gallin var að ég var ekki klæddur fyrir útiveru, hélt að þessi helgi ætti að vera afslöppun og hvíld, sem betur fer þá tók ég húfuna mína með mér, þrátt fyrir að ég fékk komment á hana.

Helgin var glæsileg, á laugardaginn var farið á réttarball þar sem drukkið var ótæpilega. Fengum far með rútu í úthverfi Sauðárkróks þar sem við gistum. Líkami minn var ekki sáttur við þetta magn af áfengi í mínum kroppi og neyddi mig til þess að skila eitthvað af því aftur. Auðvitað hlýddu ég skipunum líkamans og eyddi nokkrum mínútum í leiðindum.

Ég hafði farið í 3 partí um kvöldið og auðvitað sá fólk að ég og kærastan vorum voða hamingjusöm. Eina kona hafði orð á því og sagði að það gæti ekki verið að við værum búin að vera lengi saman. Það er svo sem rétt þar sem við erum bara búin að vera 9 mánuði saman. Hve lengi getur maður búist við því að það mun endast? þessi hamingja? Þessi þörf fyrir að vilja vera nálægt, að haldast í hendur, að kyssast við hvert tækifæri? Dofnar hún hægt og rólega? Eða verður þetta bara einn daginn horfið án þess að maður tók eftir því?

Síðan er önnur hugsun? Er hægt að halda þessu við meðvitað? Er hægt að hugsa sem svo að maður vilji láta þetta ganga svona áfram og maður gerir það bara? Hefur einhver gert það? Haldið þessu nýjabrumi við í mörg ár?

Mér er spurn.