28 febrúar, 2007

Ritgerðin

Er komin með fyrstu drögin af fræðilega kaflanum af ritgerðinni minni. Loksins. 2 blaðsíður af heimildaskrá... en það er merkilegt með svona hluti að ég er í einhverju tómi.. veit ekki hvort að það vanti eitthvað eða ekki...

Næst er það rannsóknin mín.. þarf eiginlega að fara niður á þjóðarbókhlöðu og hanga þar í einhvern tíma.. gera kafla um hvernig eigindlegar rannsóknir eru gerðar o.s.frv. Er með þetta allt í hausnum en þarf að finna heimildir. Er búin að finna efnisyfirlit sem ég þarf að kíkja yfir og nota til viðmiðunar.

Er komin með alla rannsóknina, búin að skrifa upp viðtölin og greina þau.

Hún er að fæðast.. hún er að vaxa.

Fegurð og hamingja.

26 febrúar, 2007

Pétur Blöndal

Það er sjaldan sem pólitíkus segir nákvæmlega það sem hann er að hugsa þótt það sé óvinsælt. Ég er nú ekki oft sammála honum, en ég varð að gefa honum plús fyrir þetta viðtal.

Frekar óvinsæl skoðun hugsa ég en á alveg rétt á sér og örugglega með stórt sannleikskorn á bakvið sig.

22 febrúar, 2007

Fréttir og minningar

Jæja í tilefni af því að þetta er 666. pósturinn sem ég skrifa á þetta blogg þá ætla ég að rita um æskuminningar sem rifjuðust upp fyrir nokkrum dögum og síðan eina frétt.

Byrjum á fréttinni. Nú er það útvarpsfrétt, sem fjallar um þetta víðfræga Heiðmerkur mál. Enn einn aðilinn er komin í málið. Skógrækt ríkisins er komin í málið og hefur kært. Skógræktarfélag Reykjavíkur byrjaði á þessu máli og þeir hafa hótað að kæra en virðist nú hafa talað við Kópavogsbæ og allir virðast hafa sest á sáttastól.

En nú kemur skógræktarstjóri og kærir og hann ætlar að gera Kópavogsbæ að fordæmi. Að mínu áliti þá hittir Jón Loftsson algjörlega naglan á höfuðið. Það var vaðið áfram í þessu máli án þess að tala við kóng né prest og virt allt að vettugi.

Við vorum að ræða um daginn, ég, pabbi, mamma og brói um húsnæðismál og þá staðreynd að hugsanlega eru mamma og pabbi að minnka við sig húsnæði (innskot: ég verð þá heimilislaus.. ætti ég kannski að gera eins og þessi?). Mamma sagði þá eins og hún hefur nokkuð oft sagt áður "já, þegar ég verð orðin 67 ára þá ætla ég að flytja á milli barnanna minna og búa hjá þeim 4 mánuði á ári". Þegar hún sagði þetta þá rifjaði hún líka fyrstu viðbrögð mín við þessu, ég var víst eitthvað í kringum 6 ára og ég sagði:
Þú getur ekki verið hjá mér!
Nú?
Ég verð landkönnuður og verð að fara út um allan heim.
Ég get alveg komið með.
Þú á hjólastólnum að ferðast í gegnum frumskóga (síðan tók ég víst bakföll af hlátri við að ímynda mér aldraða móður mína í hjólastól að reyna ferðast í gegnum mikinn frumskóg).

Málið er að ég man eftir þessu. Um leið og hún fór að tala um þetta þá man ég eftir þessu spjalli og hvað mér fannst fáránlegt að mamma mín skyldi vilja koma með mér í frumskóginn á hjólastólnum.

En þá fór ég að rifja upp hvað ég var að hugsa um lífið þá og uppgötvaði það að ég hafði aldrei ímyndað mér mig í einhverju hús, með girðingu í kringum, búandi á einhverjum einum stað og með eina vinnu. Ég var annað hvort í einhverjum gríðarlegum fantasíu heimi (nota bene áður en ég fór að spila RGP) þar sem ég var að eltast við fjarsjóði eða klifra fjöll og berjast við bófa. En aldrei sá ég mig einhver staðar með rætur.. alltaf rótlaus. Eins og ég er í dag. Í dag get ég alveg ímyndað mig með rætur, börn, hús og bíl.. en það er einhvern veginn fjarlægt.. og ég vil helst að það sé svolítið rótlaust. Að ég geti farið með fjölskylduna til útlanda og gert eitthvað þar. En hvað með ykkur? Þegar þið hugsið til baka, voruð þið svona rótlaus í hugmyndum ykkar um framtíðina?

20 febrúar, 2007

Heiðmerkurmálið

Jæja, er þetta nú ekki gaman, að fá svona beina innspýtingu úr fréttaheimi Íslands frá mér?

Það kom enn ein fréttin sem var áhugaverð. Það var talað við Gunnar Birgisson, bæjarstjóra Kópavogsbæjar, um Heiðmerkurmálið. Algerlega mátlaust viðtal þar sem hann fær að kenna Reykjavíkurborg um allt málið.

Það sem er merkilegt við þessa frétt er ekki hvað hann segir heldur hvað hann er ekki spurður um. Hvar er vangaveltan um að Kópavogsbær var ekki komin með framkvæmdaleyfi fyrir þessu, kannski voru þeir ekki komnir með framkvæmdaleyfi vegna þess að Reykjavíkurborg átti eftir að fara betur yfir málið með skógræktarfélaginu, setja málið í almennilegan farveg o.s.frv. Jú það er kannski rétt það sem Gunnar segir að það er mál eigandanna að láta hluteiganda vita af málavöxtum en það er líka þeirra hlutur að samþykkja þessa framkvæmd áður en hún er hafin.

En dæmigert fyrir fréttir í dag.. hann færi að slá ryki eða þyrla upp reyk og tafsa á umræðunni þannig að fólk fær leið á þessu og fer að hugsa um eitthvað annað.

19 febrúar, 2007

Fréttir

Það voru mjög skemmtilegar fréttir í kvöld.

Önnur kom tvisvar, í 10 fréttum rúv og 18:30 á stöð 2 og fjallað um þetta rosalega Heiðmerkur-greftrar mál. Ekki nóg með það að Kópavogsbær hafði ekki leyfi fyrir framkvæmdunum, grófu nokkra trjálundi upp án allra samráðs við þá sem höfðu eytt tíma og peningum í að rækta upp lundina, þá fóru framkvæmdaaðilarnir með tré í burtu frá staðnum. Og það var ekki fyrr en eftir að lögregla hafði fundið trén að þeir koma með þær upplýsingar um að þau voru í geymslu. Maður hefði nú haldið að það hefði verði mjög sniðugt trix að segja frá því að þeir hefðu sett tré í geymslu þegar fréttir komu um það að öll trén hafi farið á haugana. Nei best að sitja á þeim upplýsingum þangað til að löggan er búin að finna þau og ásakanir eru komnar um að þau séu seld. Þetta er magnað mál

Síðan kom Halldór Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og skeit duglega á Sturlu Böðvarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, fyrir að stefna ekki að klára hringveginn í næstu samgönguáætlun. Ég hef nú sjaldan verði hrifin og hvað þá sammála Halldóri Blöndal en hann fær nokkra stóra punkta fyrir þessa gagnrýni.

16 febrúar, 2007

Ráðleggingar

Öryggi þess sem veitir aðstoðina er nauðsynleg forsenda þess að geta veitt hjálp. Nú ef að þessi forsenda er ekki til staðar þá má alltaf leita annað en vegna aðstæðna gæti það í mörgum tilfellum verið erfitt. Því er nauðsynlengt að allir leggist á það eitt að koma þessari forsendu í lag. Það geta allir aðstoð í þessu, smáir sem stórir, og það er eiginlega bara gunguskapur að geta ekki reitt fram hjálparhönd í svona tilfellum. En þar sem gunguskapur er eðlilegur hluti okkar lífs þá verður að vera hægt að gera ráð fyrir því. Best er þá að hafa samband við aðstoðarviðskiptaráðherra Svíþjóðar eða jafnvel leita lengur eins og til dæmis til Sigurðar Jónassonar sem á heima á Kaplaskjólsvegi 31, hann hefur alltaf þótt góður að veita ráð í svona tilfellum og aðstæðum. En auðvitað verður einstaklingur sem leitar eftir aðstoð að vera tilbúin að borga uppsett verð eða verða fyrir þeirri bón sem einstaklingurinn sem veitir aðstoðina biður um. Hvort verðið sé gefið upp fyrir eða eftir aðstoðina er val hvers og eins og oftast hefur það reynst betra að bíða með að heyra verðið þangað til eftir aðstoð, en auðvitað er það persónubundið. Verðið getur reynst flókið og erfitt og það fer eftir því vilja þess sem hefur veitt aðstoðina. Hvort sem hann vill að það sé sótt lótusblómið á toppi Kilimanjaro eða 500 krónur í reiðufé er hans val.

Vonandi megi þessi ráð verða öllum þeim sem lesa til aðstoðar.

13 febrúar, 2007

Kynfræðsla

Ég hef verði að rannsaka kynfræðslu í langan tíma. Reyna að átta mig á því hvernig staða hennar er á Íslandi.

Eftir ágæta skoðun og heimildaleit þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það er ekkert verði að gera í kynfræðslu. Ekkert spáð í henni.

Jú það voru gefnar út tvær bækur í fyrra sem satt að segja var margt líkt með þeim í efnistökum.

En er kynfræðsla vandamál? Hvers vegna ætti samfélagið að fjárfesta í kynfræðslu? Er kynhegðun unglinga á Íslandi vandamál? Það er ekkert einfalt svar í því, og mörg svör eru á þá leið að við erum að sjúkdómsvæða þunganir unglingsstúlkna.. sem er ekki víst hvort að sé rétt. Er ekki vandamálið frekar í samfélaginu heldur hjá einstökum stúlkum sem verða þungaðar?

Eftir langa daufa mánuði er ég loksins að komast aftur í gír.. jú bara 1. gír og þetta fer allt hægt af stað.. en svona er ég víst bara.

09 febrúar, 2007

Peningar

Kreditkortið farið. Yfirdrátturinn farin. Sparnaður hafin.

Jæja eftir að hafa farið aðeins yfir fjármálin mín þá er ég búin að taka nokkrar stórar ákvarðanir.

1. Ekkert verður fengið að láni. Ef ég á ekki pening fyrir því, þá kaupi ég það ekki.
2. 10% af launum, til að byrja með, verður sett í sparnað. Alveg sama hvernig ástandið er.
3. Eltist ekki við útsölur eða tilboð, nema ef það sé eitthvað sem ég hafði ákveðið að kaupa.
4. Fjárhagsbókhald verður haldið.
5. Ég mun fara í gegnum bókasafnið mitt þegar ég kemst í það og fer yfir það.

Já svona er ástandið í dag.

06 febrúar, 2007

Hún á afmæli

Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag, hún á afmæli hún kæró, hún á afmæli í dag

Frá Myndunun mínum


Til hamingju