29 október, 2007

Streptókokkar

Hvað er að????

Síðan ég byrjaði í leikskólanum er ég búinn að fá hita, hálsbólgu tvisvar og svo fáranlegt kvef að ég snýtti eflaust um 500 grömmum af hori á þremur dögum.

Og nú er ég með streptókokka. Hálsinn er ónýtur.. á erfitt með að kingja og líður bara illa.

En halló.. er ekki komið nóg af þessum skítapestum? Kominn með andskotans, djöfulsins nóg af þessu fjandans rugli.

Það hættir NÚNA!

28 október, 2007

Sunnudagur á Vallarheiði

Ég vaknaði í nótt um hálf fimm alveg í stress kasti vegna þess að ég hélt að ég væri að verða of seinn í vinnuna, hafði nefnilega ekki stillt vekjarann. Ég leit á klukkuna og stillti síðan vekjarann. Fór á klósettið og áttaði mig á því að það væri sunnudagur. Las aðeins og sofnaði síðan aftur.

Nú þegar ég vakna og lít út um gluggann þá er allt hvítt hérna á Vallarheiði. Snjórinn gerir heiðina mun fallegri, vefur hana í einhvern rómantíska blæ. Gerir líka allt miklu bjartara og satt að segja þá var heiðin nokkuð þung á að líta.

Nú sit ég við tölvuna sem er við gluggann og skrifa þessar línur, er að hlusta á Hjálma í nýju græjunum mínum og ætla að fara rita niður smá undirbúning varðandi hópatíma í vinnunni. Þarf að undirbúa tvo hópatíma á dag, og reyni að gera næstu tvær vikurnar, svo ég þurfi ekki að hugsa um þann hluta alveg strax.

Ég þarf líka að fara í gegnum dagsskipulagið og hreinsa það. Það er nefnilega nýr starfsmaður að byrja hjá mér á morgun. Ég auðvitað gleymdi dagsskipulaginu í vinnunni en ætla að hlaupa út eftir og ná í það.

24 október, 2007

Fréttir og spjall

Álagið í vinnunni er eitthvað að segja til sín. Ekki manneklu álag.. heldur álag vegna reynsluleysis. Ég er að fara í gegnum svo margt í fyrsta skiptið. Vera hópstjóri með 5 ára stráka, reyna átta mig á Hjallastefnunni, vera kjarnastjóri og sjá til þess að allt sé á réttum stað og vera að stjórna öðru starfsfólki. Og ég er í vinnunni 9 tíma á dag.

En það er allt að koma.. eins og sagt er.. þetta tekur tíma og orku.. en það er í fína lagi.

Hallur var að fá atvinnutilboð í leikskólanum mínum. Þannig að við munum búa saman og vinna saman.. rosalegt.

Annars er ég að spila tölvuleik á fullu. Glímuleikinn. Snilldar tímaþjófur. Mæli með honum.

Fór um helgina með R-inu og keypti mér græjur. Keypti mér Ipod og Go+Play græjur. Er núna að hlusta á Sufjan Stevens í góðum gæðum. Er afskaplega sáttur og var innan budget þegar ég keypti græjurnar.




22 október, 2007

Ekkert

Hef ekkert að segja. Er voða daufur... en er samt hress og lífsglaður... hef bara ekki frá neinu að segja.

16 október, 2007

Gene Simmons


Tók þátt í hæfileikakeppni leikskólanna í Reykjanesbæ. Þessi mynd birtist á vf.is og satt að segja þá finst mér hún bara nokkuð góð.

11 október, 2007

Vallarheiði

Útsýnið úr herberginu mínu er ekki skemmtilegt. Ég sé yfir til turnsins og sé nokkur hús. En það eru aðrir staðir sem eru stórkostlega fallegir. Þegar ég gekk heim til mín í morgun þá var samleikur ljóssins, daggarinnar á jörðinni og himinsins alveg stórkostlegur. Ég vildi óska að ég hefði getað notið þess meira.

En maður fær ekki allt sem maður óskar sér. Það er bara svoleiðis. Það eru svona um 4 lítrar af hori fastur í hausnum á mér og stífla allt sem stífla getur og síðan eru hálskirtlarnir svo bólgnir að þeir eru örugglega stærri en en aðrar kúlur á líkamanum.

En mér líður nokkuð bærilega núna. Búinn að hvíla mig og hef slappað af.

Ég hef nokkrar fréttir til að segja.. en það þurfa að vera myndir með þeim fréttum og ég hef ekki aðgang að þeim myndum.. strax. Þannig að það bíður bara.

Bið að heilsa.

06 október, 2007

Smá fréttir úr vinnunni

Ég er með 11 stráka á aldrinum 4 til 5 ára í mínum hóp (stóri hópur). Átti bara að vera með 10 en það bættist einn við í þessari viku og hann verður bara í mánuð. En þetta hefur auðvitað áhrif á starf mitt. Borðið sem við sitjum á er ætlað fyrir 8 krakka. En nú erum við 12. Ég hafði verulegar áhyggjur af þessu en málshátturinn "þröngt mega sáttir sitja" fær alveg nýja merkingu á mínu borði. Við sitjum 12 við borðið... ok.. ég sit nú frekar illa en ég get átt samskipti við drengina. Ég kalla tímann fyrir matmáls tímana púslið vegna þess að ég þarf að púsla öllum stólunum og plássunum saman.

En þetta gengur og drengirnir virðast ekki vera of pirraðir á þessari nálægð.

Annars er hópurinn minn alveg frábær. 11 mismunandi persónur og þetta eru ótrúlegir karakterar. Sumir hógværir, sumir frekir, sumir með endalaus trúðslæti, sumir tala skýrt, og kunnáttan er mismunandi á milli drengjanna og það sést best á teikningunum þeirra.

En ég verð að játa að mér þykir ofsalega vænt um þá alla.