27 desember, 2006

Jólahátíðir

Á morgun mun dagur renna sem ég hef hálf beðið eftir síðan á Þorláksmessu. Á morgun klukkan 12:15 mun ég fara til tannlæknis og hann mun vinsamlega rífa burt endajaxl.

Já endajaxl. Það er einn búin að vera bólgin alla jólahátíðina, byrjaði að bólgna á Þorláks en ég var harður, þoli þetta, er bara með sýklaeyðandi munnskol og er karlmaður og karlmenn væla ekki.

En þetta fór versnandi og núna er ég vælandi kelling sem bryð íbúfen og paratabs í stað konfekts. Svefninn er ekki góður hjá mér og lít líka þannig út, og þegar áhrif verkjalyfja fer þá verkjar mig í allan vinstri hluta andlitsins.

Eins og gefur að skilja þá vorkenni ég mér líka alveg gríðarlega og óska þess að þið gerið það líka.

En annars voru jólin fín, fínt loot (gjafahrúgan) þótt allir hafi virt óskir mínar að vettugi (nema Eva Systir) en gjafirnar voru góðar þrátt fyrir það.

22 desember, 2006

Stress?

Þessi veikindi settu allt á annan enda hjá mér. Vann ekki neina aukavinnu eins og ég ætlaði mér, sólarhringurinn varð öfugur og ég vann ekki í ritgerðinni í 2 sólarhringa. Sem er ekki nógu gott.

Er ennþá með bullandi kvef sem hefur farið upp í vinstra augað og ég er með þungan haus, örugglega vegna þess að ennisholur mínar eru uppfullar af hori. En nezeril hefur reddað mér aðeins.

En ég er búin að skrifa upp öll viðtölin og búin að greina þau, það eru gleðifréttir. Nú þarf ég bara að skrifa andskotans ritgerðina sjálfa. Er búin með nokkra kafla en þarf að láta frú kennara lesa yfir þá.

En í dag þá ætla ég að reyna versla afganginn af jólagjöfunum, nenni nú eiginlega ekki að klára jólagjafainnkaupin á Þorláksmessu eða aðfangadag. Það væri nokkuð fúlt. Annars er ég að vinna á aðfangadag og annan í jólum. Rosa gaman en í staðin þá slepp ég við gamlársdag, sem er bara nokkuð fínt.

En fréttirnar síðustu daga hafa verið leiðinlegar, beinar útsendingar frá veðurofsanum. Ég er að segja ykkur að það eru verstu fréttir til að vinna með. Ótrúlegt hvað sumir fréttamenn tafsa mikið í svoleiðis aðstæðum.

19 desember, 2006

Veikindi

Ég er ekki með gott ónæmiskerfi. Verð oft slappur og veikur, þeir sem hafa unnið með mér og hafa þekkt mig lengi hafa eflaust tekið eftir því. En Það hefur samt verið þetta árið að ég hef verið mjög lítið veikur. Veiktist í mars og ástæðan fyrir því var bara svefnleysi, svaf ekki í sólarhringa og þá hrundi allt kerfið.

Og núna er ég veikur. Hef ekkert verið veikur, ekki einu sinni bara smá á þessu ári. Þegar ég er að tala um veikindi þá er ég meina svo litla hálsbólgu og kannski gott hor í nös.

Ég hugsa stundum um að ég ætti kannski að fara í hálskirtlatöku. Finnst eins og þessir hálskirtlar gera ekkert gagn nema bólgna. En ég nenni því ekki sem stendur.

Ástæðan fyrir því að ég hef ekkert veikst tel ég vera sú að ég tek mjög reglulega inn töflu af sólhatti og c-vítamíni og lýsi. Held að það hafi hjálpað mér í gegnum þetta ár og mun halda áfram að nýta mér þessi hjálpartæki (jú jú, gæti verið placebo.. en þar sem Placebo virkar þá er ég bara sáttur).

En ástæðan fyrir því að ég veikist er sú að ég fór eitthvað að hanga niðrí bæ á föstudaginn með Halli og Kristbirni, flakka á milli djammstaða o.s.frv. Og held að kuldin hafi sett strik í reikningin.

en er að jafna mig núna eða réttara sagt að ég nenni ekki lengur að vera veikur og hef tekið ákvörðun um að hangsa ekki meira.. hef líka ekkert efni á því.

En það var eitt gott sem kom út úr þessum veikindum. Children of men, horfði á hana og hef tekið ákvörðun um að skella mér á hana í bíó og mun draga með mér kærustuna mína. Tek hana með mér í taumi ef þess þarf. Hádramatísk framtíðarmynd, með raunverulegustu byssubardagaatriðum sem ég hef séð og það féll meira að segja eitt tár af vanga mínum eftir myndina.

Mikil fegurð.

15 desember, 2006

Föt og gjafir

Það eina sem mig vatnar eru sokkar.... jú.. og kannski önnur jakkaföt.. og kannski eitt stykki dökkt -litríkt bindi og hvíta skyrtu.

Annar er fataskápurinn minn fullur og fjölbreyttur. Ég fékk gefins 3 normal gallabuxur og þá vanhagar mig ekki um neitt. Á nóg af skyrtum (kemur á óvart), buxum, bolum, nærbuxum, skóm og jökkum.

Merkilegt ekki satt?

Annars er ég í stökustu vandræðum, hvað á maður að gefa börnum kærustu? Sko maður getur ekki gefið dýrari gjöf en kærastan gefur og það væri alveg hræðilegt ef ég myndi gefa dýrari og/eða flottari gjöf heldur en faðir þeirra en maður vill samt gefa gjöf sem er eitthvað spes.. svona áður en ég fer bara að gefa þeim kvittanir fyrir innlögnum á framtíðarreikning. Vill auðvitað gefa þeim eitthvað sérstakt..

og varla kemst ég upp með það að gefa þeim ekki neitt þar sem þau búast við gjöf frá mér. Þetta er flókið kerfi.. það get ég sagt ykkur.

13 desember, 2006

Prófun á nýju dóti

er bara að testa

er enn að testa

Fréttablogg

Fréttir

Ég veit að útlitið er ljótt. Mun kippa þessu í lag sem fyrst.. þegar ég hef tíma og nennu.

En langaði að bera undir ykkur eina litla frétt sem kom í útvarpfréttum klukkan 18 þann 12. desember 2006.

Mér finnst þetta afar spes og jafnvel svolítið súrt. Væri jafnvel hægt að velta fyrir sér hvað Framsóknarmenn eru tilbúnir að ganga langt fyrir peninginn.

10 desember, 2006

Blogger beta

Blogger beta

Jæja þá er ég komin í blogger beta og auðvitað byrjar þetta á að vera pirringur.. en það er í lagi þar sem það þrýstir bara á mig að breyta blogginu mínu. Allt í fína lagi... vonandi.

Það eina sem ég er ósáttur við við að það er ekkert template með þriggja dálka layout. Allt tveggja dálka.

08 desember, 2006

Jólagjafir

Jólagjafir

Jæja þá byrjar þetta árlega. Jólagjafirnar. Maður þarf að finna jólagjafir handa helstu ættingjum og maður þarf að svara því hvað maður vill fá í jólagjöf.

Fyrir mér er þetta að verða meiri pína á hverju ári. Er búin að átta mig á því að ég er mun hrifnari af afmælum vegna þess að maður getur einbeitt sér að einni gjöf í stað þess að fara hugsa um einhvern fjölda.

Ég þarf að gefa eftirfarandi aðilum jólagjöf
Pabbi, mamma, systir, brói, Hafdís, Hafþór, Elísa, Kærustunni
Ég vil gefa líka tvær aðrar gjafir í viðbót og það er til barna kærustunnar. Síðan væri gaman að gefa mávinu eitthvað.

Er búin að kaupa 4 jólagjafir og er búin að velja eina gjöf til viðbótar sem þarf bara að versla. Það þýðir að það eru að minnst 3 gjafir í viðbótar og jafnvel sex gjafir eftir. Þannig að ef ykkur langar í eitthvað og ég þarf að gefa ykkur gjafir.. látið mig vita.

Og hvað langar mig í?

Mig langar í U2 videos (dvd diskur með öllum myndböndum U2 frá upphafi).
Mig langar í bækur en satt að segja ætla ég að frábiðja mig allar bækur sem eru gefnar út á þessu ári. Ég býst við að foreldrar mínir fái Konungsbók frá Össa frænda og ég get bara lesið hana eftir þeim. Og satt að segja þá er rótleysið mitt svo mikið að ég vil ekki fá bækur sem myndu bara safna ryki og taka pláss frá herberginu mínu.

Ég verð eiginlega hálf sorgmæddur þegar ég hugsa um allar bækurnar mínar sem eru staddar í búslóðageymslu og gera ekkert annað nema safna ryki og hugsa til hryllings til til bókastaflans sem er undir rúminu mínu þessa dagana.

Þannig að engar bækur! Eða bækur sem eru kiljur sem voru gefnar út í fyrra.

Gjafabréf, peningur, út að borða, bíó, leikhúsmiða.. það eru gjafir sem mig langar í þessa dagana.

Milli jól og nýárs ætla ég að klára ritgerðina mína og ef það gefst tími þá mun ég spila leikin Guild 2 sem hann Óli keypti fyrir mig í USA og lesa bókina Judas Unleashed, hvort sem ég fæ hana lánaða hjá Gissur, bókasafninu eða kaupi hana í næstu bókabúð.

07 desember, 2006

Jón H. B. Snorrason

Ábyrgðarleysi

Það kom frétt í gær á Rúv þar sem talað var við Jón H. B Snorrason, yfirmann efnahagsbrotadeildar.

En í fréttinni var sagt

Jafnframt segir Jón það vera á ábyrgð fjölmiðlamanna hvernig þeir fjalli um tiltekin mál.

Síðan var viðtal við Jón H. B. Snorrason þar sem hann segir Þar af leiðandi er það ekki á ábyrgð þess sem að þeir tala við hvernig blaðamaðurinn kýs að, að fjalla um, um, um umræðuefnið og blaðamaðurinn stjórnar því líka með hvaða hætti hann setur það sem hann hefur eftir mönnum í sambandi við umfjöllunarefni sitt.

Blaðamenn og fréttamenn berir því einir ábyrgð á framsetningunni.

Þannig að ef það er tekið viðtal við mig þar sem ég úthúða einhverjum einstaklingi og segi hann skítaplebba að það er bara á ábyrgð blaðamannsins að birta það. Ég er algjörlega stikkfrí.

Eða ætli það hafi verið aftur að taka orð hans Jóns úr samhengi?

29 nóvember, 2006

Gissur

Gissur

Þessi ágæti vinur minn gerði mér stóran bjarnagreiða á sunnudaginn. Hann lánaði mér bók. Bókin heitir Pandora´s Star og er eftir Peter F. Hamilton.

Alveg frábær bók, ein af þeim betri vísindaskáldsögum sem ég hef lesið. Með fjöldann allan af persónum sem eru verða einhvern vegin raunverulegir og lifandi í meðförum höfundsins. Hann býr til heim sem virkar og söguþráð sem heldur manni í heljargreipum.

Ég kláraði bókina í gær. Byrjaði að lesa hana á mánudaginn. Sem er svo sem normal fyrir mér en þessi bók hafði þann ókost að vera eitt þúsund blaðsíður. Og það má ekki gleyma því að þetta er fyrri parturinn í tveggja bókaflokki og endar í algerlega í lausu lofti.

Þannig að ég las að meðaltali um 330 blaðsíður á dag. Þannig að ég gerði mest lítið annað en að lesa (samt tókst mér að klára að skrifa upp síðasta viðtalið og vinna tvær vaktir).

Gissur.. ég ætla ekki að fá lánaðar bækur frá þér í um það bil mánuð!

28 nóvember, 2006

Jarðafarir og brúðkaup

Jarðafarir og brúðkaup

2 brúðkaup og 2 jarðafarir á þessu ár. Ætli það sé ekki jafnt skipt.. hamingjudagur og síðan verði að kveðja einstakling.

Það hugsa ég, maður spyr sig samt stundum. Ég var ekki nátengdur neinum í brúðkaupunum.. þ.e.a.s þeim sem var að giftast.. en gróf afa minn en það var komin tími á hann. Í jarðaförinni sem ég fór í gær hugsa ég að flestir hafi hugsað að það væri ekki komin tími á þann einstakling sem fór snögglega.

Maður horfir svolítið bjargarlaus á nákomna ættingja og veit eiginlega hvort og þá hvað maður getur sagt. Var lítið sem ég get gert, nema bara vera.. og kannski er það nóg.. æji ég veit það ekki..

ég veit ekki einu sinni hvað ég er að segja hérna..

En ég er allavega búin að ákveða að breyta jarðarfaratilhögunni minni. Búin að segja kærustunni frá því.. svo ef ég dey í dag eða á morgun án þess að breyta því þá getið þið spurt hana.

18 nóvember, 2006

Nefhár

Nefhár

Ég er með eitt pirrandi nefhár í vinstri nös. Það vex út. Á nokkurra mánaða fresti finn ég fyrir litlum pirringi í vinstri nös og eftir smá könnun finn ég að hárið illræmda er komið. Ég veit ekki hvað er við þetta eina hár en það fer alveg ótrúlega í mínar fínustu taugar. Ég gríp um það langar rosalega til að kippa en þegar það er komin smá þrýstingur á það þá er ég byrjaður að finna til mikils sársauka og finn að þetta myndi verða gríðarlega vont. Þá hefst leit að skærum til að klippa þetta. Auðvitað segir maður ekki, ef maður er í heimsókn og fattar að hárið er að pirra mann, "má ég fá lítil nett skæri til að klippa pirrandi nefhárið í burtu."

það var akkúrat svoleiðis í morgun. Hárið var búið að pirra mig gríðarlega allan morguninn og í gærkvöld. Þá lítur dóttir kærustunnar á mig og segir "Þú ert með hár í nefinu" segir þetta auðvitað gríðarlega hátt og snjallt þannig að það glymur í öllu húsinu. Ekki bætti það sálarástandið á mér.

Það var líka eitt af fyrstu verkefnum dagsins þegar ég kom í vinnuna að finna mér skæri og klippa þetta hár í burtu. Spurning um að taka vax-meðferðina á þetta?

Það er víst ekki sniðugt þar sem hárið í nösunum er nauðsynlegt samkvæmt Wikipedia.

14 nóvember, 2006

13 nóvember, 2006

Kærastan

Við



Þessi mynd var tekin við gott tækifæri, ein af þeim betri myndum sem ég á af okkur saman. Ég tók þessa mynd með því að halda myndavélinni frá mér. Þegar ég var að fara yfir þessar myndir fyrst með henni og þá var þessi mynd meðal mynda þá sagði hún ekkert við henni og ég varð svolítið skúffaður vegna þess að mér fannst hún frábær, jú ég var frekar líkur bróður mínum þarna en mér fannst hún ekki of ýkt og brosið sem hún sýnir er eðlilegt (hnuss.. verð að finna betra orð.. genuine). En síðan liðu nokkrir mánuðir og þá sá hún þessa mynd aftur og svór að hún hafði aldrei séð hana áður. Ég lét auðvitað hana fá eintak (frekar auðvelt í gegnum tölvuna líka). En þá mætti hún með hana á síðasta fimmtudag til mín svarthvíta og innrammaða. Nú er hún hliðiná rúminu mínu.

Ég hef ekki oft skrifað í gegnum tíðina um mín ástarsambönd. Fannst það einhvern vegin óviðeigandi og kjánalegt. Svona kjánahrollslegt... til hvers að láta fólk vita að maður er hrifin af einhverjum? Finnst það eiginlega miður að þrátt fyrir öll mín stóru orð og fyrirætlanir þá á ég erfitt með að hafa þetta opinbert.

09 nóvember, 2006

Ritgerð

Status á Ritgerð

50 heimildir hafa verið skoðaðar, flokkaðar og gerðar úrdrátt úr í exel skjali. Um 30 eru nothæfar. 3 mjög mikilvægar heimildir verða notaðar mikið í ritgerðinni.

3 viðtöl eru búin. Búin að skrifa upp tvö þeirra. Mun taka vonandi eitt viðtal á morgun, kannski tvö. Á eftir að taka svona 4-8 viðtöl í viðbót, mun gera þau eftir þörfum.

Er búin að skrifa tvö kafla "árangur kynfræðslu" og "ástand kynfræðslu í íslenskum skólum", á auðvitað eftir að betrumbæta þá tvo verulega. En þeir eru komnir.

Er búin að rita upp drög að inngangi og búin að setja upp efnisyfirlit.

Ég lærði það í sumar í Þjóðarbókhlöðunni að góð verkfæri geta aðstoða mann með verkefnin gríðarlega. Þess vegna hrósa ég þessum MP4 spilara sem ég keypti fyrir lítið fé og hélt að væri algjört dót, en hefur gagnast mér rosalega vel. Diktafóninn í honum er mun betri en ég bjóst við... mun betri... gæti eiginlega ekki verið betri.

Leiðbeinandi minn er Guðný Guðbjörnsdóttir og síðan hef ég fengið ómetanlega aðstoð hjá Sóley S. Bender. Þeir sem þekkja vel feril minn í Háskólanum ættu að vera mjög undrandi yfir þessum nöfnum þar sem ég hafði fyrir ritgerðarsmíðina ekki góða reynslu af þessum kvenmönnum.

En eins og staðan er í dag þá lítur þetta mjög vel út.

08 nóvember, 2006

Innflytjendur

Innflytjendur

Mál málanna er að þessu sinni Innflytjendur og áhrif þeirra á íslenskt þjóðlíf. Er Ísland að kafna undan útlendingum, nennir þetta fólk ekki að læra tungumál okkar, eru þeir að ræna vinnunni af okkar vinnufólki?

Frjálslyndi flokkurinn sem er búin að missa mitt atkvæði gersamlega fyrir fordómafulla umræðu, eru búnir að vekja mál á þessu máli. Vandinn tengdan útlendingum. Þeir hafa ýjað að því að útlendingar séu að ræna vinnu af Íslendingum vegna þess að þeir eru tilbúnir að vinna fyrir lág laun. Það er ýjað að því að þessu fólk sé því að kenna að það eru lág laun í sumum stéttum.

Þetta er þarft umræðuefni, engin spurning en það er miður að umræðan skuli hafa farið á þessa leið. Hann Paul F. Nikolov hefur verið að fjalla um aðstæður innflytjenda í nokkurn tíma og segir að það sé vandi á ferðinni en því miður þá voru hans tillögur og hans orð ekki eins "heitar" og þær sem hann Magnús er með.

Atvinnuleysi er 1% á öllu Íslandi. Sem þýðir að það er ekkert atvinnuleysi. Það er skortur á vinnuafli. Fólk ræður sig ekki í vinnu sem kassadama í Bónus eða í Hagkaup, það stekkur ekki til þess að skeina gömlu fólki inná hjúkrunarheimilum. Útlendingar eru byrjaðir að afgreiða í Bónus, með tilheyrandi þjónustumissi (en ég verð að játa að það er svo sem engin nýlunda að þjónustan sé hræðileg í Bónus, ekki hef ég orðið var við mikla þjónustulund hjá þessum 17 ára unglingum sem hafa verið að afgreiða mig), útlendingar eru byrjaðir að vinna á hjúkrunarheimilum við að hugsa um okkar gamla fólk. Það eru lág laun borguð í þeim geira svo það er eiginlega mjög skiljanlegt þar sem þú getur fengið vaktavinnu í Select sem borgar tvöfalt meira, að fólkið flykkist ekki að í að vinna á hjúkrunarheimilum. Það ætti að borga starfsfólki betri laun. Já, það ætti að gera það en þetta eru ríkisbatterí og það eru bara ekki peningar til að borga þessu fólki betri laun.

Við heyrum sögur af Pólverjum sem búa 8 saman í 3 herberga íbúð og hneykslumst á því. Við sjáum myndir og heyrum af starfsmannaleigum sem fer með starfsfólk sitt eins og skít, dregur 40 þúsund króna leigu af launum þeirra fyrir að búa í einhverri kytru með 8 öðrum. Hvað gera verkalýðsfélögin, hvað gerir ríkisvaldið þegar það er augljóslega brotið helling af reglum?

Við Íslendingar berum ábyrgð á þessu! Við höfum flutt þetta fólk inn í bílförmum til þess að vinna vinnu sem fáir vilja vinna. Það eru ekki peningar til þess að borga almennileg laun og það er nóg af vinnu að fá svo hvers vegna ættum við, Íslendingar, að þurfa að vinna í einhverri skíta vinnu. Við höfum komið okkur upp þrælum, við flytjum þá inn, borgum þeim skítalaun, látum einhverja feita kalla sem stjórna starfamannaleigunum komast upp með það að fara illa með erlend vinnuafl, við skikkum útlendingana sem vilja setjast hér að í rándýrt íslenskunámskeið sem gagnast þeim illa, við tölum ensku við þá ef okkur finnst þeir tala slæma íslensku, við erum svo upptekin af gróðanum að gamalt fólk, öryrkjar, fólk með skerta vinnugetu verður eftir í lífsgæðakapphlaupinu.

Fólkið sem kemur til landsins er að koma til að vinna í flestum tilfellum, það er engin skylda á þeirra herðum að læra Íslenskt tungumál, hvers vegna, það er bara að koma og vinna. Ef það ætlar að setjast hér að þá þarf það að læra tungumálið. Það er fáránleg hugmynd að ætlast til þess að fólk sem kemur hér til að vinna þurfi að læra tungumál okkar.. eða ímyndið ykkur ef þið ákváðuð að fara vinna við að týna appelsínur í Ísrael og þyrftuð nauðsynlega að læra tungumálið í landi sem þið ætluðu kannski að vinna í 6 mánuði.

Hvað gætum við gert? Við gætum bætt íslenskunámskeiðin, látið allt erlent vinnufólk fá upplýsingar um réttindi sín á sínu eigin tungumáli þegar það kemur til landsins, við gætum tekið allsherjar úttekt á aðstæðum, launum erlends vinnufólks, við gætum grandskoðað þessar starfsmannaleigur og svipt þær starfmannaleigur réttindi sem eru að fara illa með erlent starfsfólk.

04 nóvember, 2006

Breytingar

Breytingar að vænta

Ég hef stundum minnst á það að mig langar að breyta síðunni minni. Og nú er svo komið að google keypti bloggerinn og er komin með nýjan blogg editor. Sumir eru svo heppnir að geta bara fært gamla bloggið yfir í nýja en sumir eru ekki eins heppnir. Svo ég bjó til nýja vefsíðu til þess ða geta fiktað í þessu nýja dóti. Ég hef verið mjög hrifn af því hvað google er að gera, og sú hrifnig jókst þegar ég fór að fikta í þessu.

ég er samt ekki sáttur við nýja lookið. Ég vil hafa linka báðum megin eins og ég e rmeð hérna. En mig langar rosalega í archive dótið þeirra og þeir eru með label setting sem ég mun hiklaust nýta mér.

Það sem mig langar að setja á síðuna mína eru linkar yfir á vini - fjölskyldur - myndasíðan þarf að hafa góðan sess, síðan er ég að spá hvort að ég eigi að hafa svona "er að hlusta" og "er að lesa" Prófíllinn þarf að koma sterkariinn og ég er að spá að hafa head bannerinnn með myndum... mig langar jafnvel að hafa mynd af mér sem breytis þegar maður refreshar.... en það gæti verið of mikið ego.. ég veit ekki...

en allavega þá er einhverra breytinga að vænta á næstunni. Á eftir að íhuga hve róttækar þær eiga að vera. Er meira segja að spá að rifja upp dreamweaverinn og sjá hvort að ég geti bara ekki hannað mitt eigi template.

02 nóvember, 2006

Geggjun?

Í gær þá vaknaði ég klukkan 05:45, réttara væri sagt að ég stillti klukkuna mína þá og dröslaðistá fætur 20 mín seinna)

Ástæðan fyrir þessu var þetta rölt sem ég tók. Ég tók 25 mínútna rölt heiman frá mér til Egilshallar. Leiðin sem ég fór sést á meðfylgjandi korti.

Þar hófst nefnilega svokölluð herþjálfun klukkan 07:00. Ég persónulega myndi ekki kalla þetta herþjálfun, minnti mig frekar á gömlu góðu stöðvarþjálfunina sem maður stundaði í gamla daga í íþróttatímum.

En ég mætti á réttum tíma og tók þátt í þessari þjálfun, skemmti mér ágætlega og svitnaði talsvert.

Seinna um daginn fann ég fyrir mikill þreytu í líkamanum og síðan var farið í sund og hamast með 2 skemmtilegum krökkum, fann að ég var byrjaður að stirðna upp talsvart eftir þá skemmtun.

Þegar ég vaknaði í morgun þá leið mér ekkert sérstaklega vel og var nokkuð stirður. Sjit.. hvað ég er með miklar harðsperrur.

Á morgun ætla ég að endurtaka leikinn.

31 október, 2006

Skap

Lundin

Ótrúlegt hvað skap getur sveiflast. Hvað maður getur verið í hæstu hæðum, finnst manni geta gert allt, framtíðin lýsir björt framundan, verkefnin eru að klárast fyrir framan mann, maður er sjálfur fallegur, myndarlegur, yndislegur og gáfaður.

En síðan daginn eftir þá finnst manni allt vera í rúst, verkefnin ganga ekki upp, maður finnur fyrir öllum göllum líkamans, finnst manni vera úrhrak, skíthæll, engum til gagns, að maður er lifandi einhverju lífi sem maður á ekkert skilið.

(nei ég fer ekki að hugsa um sjálfsvíg eða eitthvað álíka! Bara til að undirstrika það, það er alltaf sagt í fræðunum að ef maður heldur að einhver sé að hugsa um að taka sitt eigið líf þá eigi maður að spyrja beint, nú er ég að svara þeirri spurningu).

Ég er að gera mig meðvitaðri um að hvernig skapsveiflurnar mínar eru. Maður þarf einhvern vegin að átta sig á því hvenær maður er í góðu skapi og nýta sér það og síðan þegar maður er í vondu þá að ganga með skilti um sig sem á stendur "er í vondu skapi" eða "er rosa þunglyndir.. nenni ekki að tala við fólk".

30 október, 2006

Helgin - leikrit, fyllerí og spilerí

Helgin

Helgin var viðburðarrík.

Fyrst fór ég á leikhús og sá sýninguna þjóðarsálin í reiðhöll Gusts í Kópavogi. Dró kærustuna með. Ég og hún höfðum gaman af og ég hugsa að ég hafi aldrei fengið eins mikið samviskubit og gæsahúð yfir einu atriði sýningarinnar.

Hann Árni Salomonsson var í sýningunni og mér fannst hann standa sig mjög vel, ég er kannski of nálægt til þess að vera góður dómari á frammistöðu hans. Hestarnir komu líka mjög skemmtilega á óvart.

Eftir sýninguna þá var farið heim og opnað eina flösku af rauðvíni. Hófst þar mikið spjall um heima og geima sem er eitt af sterku punktunum í, að mínu mati, okkar sambandi. Hún var glerþunn daginn eftir og kenndi rauðvíninu um. Ég mótmæli því hér með og segi að það hafi verið hinir drykkirnir sem hún var að drekka, eftir rauðvínið

Á laugardaginn fór ég og stjórnaði ákveðnu ævintýri sem ég hafði lagt töluverða vinnu í að undirbúa. Það gekk allt vel á yfirborðinu en ég sjálfur varð fyrir vonbrigðum. Fékk alls ekki það sem ég ætlaðist til með þessu spileríi. Finnst það hafa mistekist gjörsamlega og það er eitthvað sem ég bara get kennt sjálfum mér um. Hef líka óskað eftir því að við endurtökum leikinn.

Á sunnudaginn var bara þrif, afmæli hjá ömmu, vinna og Rölt. Var ágætur dagur.

27 október, 2006

úrdrátt úr fréttum

Fréttir

Í gær þá skrifaði ég upp 30 fréttir og gerði úrdrátt úr upp úr 4 fréttum. Gerði líka lítinn úrdrátt úr Kastljósi þar sem var talað við fyrrverandi fréttamann Rúv um ummæli forseta Íslands.

3 fréttir um kynferðisafbrot og nauðgarnir, 5 fréttir um hvalveiðar, 3 fréttir um banaslys í umferðinni, frétt um hundaþjóf, frétt um að FL group styrki BUGL o.fl.

Vitið þið hvað er að fréttum? Það stundum ekki fjallað um staðreyndir, bara teknir einhver álit karla og fjalla um það.

En síðasta fréttin sem ég skrifaði upp var um nýju reglurnar um handfarangur í flugvélar. Djöfull var ég pirraður. Getur einhver útskýrt fyrir mér hvað sést í röntgen vélum í vökvum? Hvort að nytroglyserín sést í röntgen vélum? Af hverju þurfa vökvarnir að vera í plastpokum? Af nhverju má ekki vera með stærri ílát en 100 ml?

Síðan hvalveiðar. Norðmenn eru eina landið sem veiðir hval í atvinnuskyni. Þeir gátu ekki selt hvalin til Japans en Íslendingar ætla að gera það. Hvers vegna getum við gert það en ekki þeir? Langreyður er í útrýmingarhættu. Jú nóg af honum í kringum Ísland segja vísindamenn, já það er örugglega nóg af fílum í kringum eitt þorp á Indlandi en þar með er ekki sagt að þeir þorpsbúar geti veitt fíl. Nóg er af hval, er það ófrávíkjandi staðreynd að þeir eru að höggva skarð í fiskinn í kringum landið? Er Ísland að græða á þessum hvalveiðum? Nú hefur sjávarútvegsráðherra sagt að allir sem hafi leyfi til að veiða hval geti veitt hann, en af hverju var það ekki tilkynnt með góðum fyrirvara og undirbúið vel svo fyrirtæki gæti lagt í þá fjárfestingu að veiða þennan andskotans hval? Hvers vegna fékk Kristján Loftsson símhringingu á undan öllum?

Símhleranir.. sjit.. ætla ekki að hætta mér í þann forapytt bullsins og ruglsins. Engin veit sannleikann, engin veit hvað er satt og rétt.

Nauðganir og kynferðisafbrot.. dómar þyngjast, umræða hefur breyst, maður hefur á tilfinningu að það er hlustað meira á vitnisburð núna en áður. Sem er flott! Eftir svona 20 ár þá ætti þetta að vera komið á þann stall sem ég get sætt mig við.

23 október, 2006

Brúðkaup

Netið er yndislegt. Um helgina þá fór ég í brúðkaup hjá Olgu og Alejandro. Hún er íslensk og hann er frá Argentínu. Kynntust í gegnum netið, myspace heyrðist mér, fyrir 8 mánuðum síðan. Ákváðu að gifta sig og gerðu það með stuttum fyrirvara. Héldu fallegt, lítið brúðkaup að Búðum í Snæfellsnesi.

Tók nokkrar myndir við tækifærið. Besta myndin var nú af Norðurljósunum sem voru einstaklega falleg.

17 október, 2006

Morgunverkin - frh

Morgunverkin - frh.

Já þetta var nokkuð skemmtileg viðbrögð sem ég fékk við pistlinum mínum, talað um kremsull, að það væri svolítið spes að leggja á minnið öll þessi nöfn, metrósexúal o.s.frv.

En það tók bara einn eftir því að þetta var tilvitnun í American psycho. Og það var eftir að ég var búin að minnast á þetta.

Annars ef við sleppum nöfnum þá nota ég sápu, sjampó og hárnæringu í sturtu (hver gerir það ekki?), nota raksápu við rakstur, rakakrem á líkaman, það ódýrara fer á líkaman og það dýrara í andlitið og rakspíra.

Nota einhverja hárnæringu sem á að fjarlægja flösu, tjörulyktandi vibbi sem ég má bara nota 3 vikur í senn. og síðan er ég með bakteríueyðandi munnskol sem er að vinna á tannholds bólgum (er að vonast eftir því að þetta hverfi og ég muni ekki þurfa að fara til tannlæknis).

Ég er nefnilega að gera tilraun með að setja rakakrem á líkaman, nú nota mjög margar stelpur það og það segir mér engin að húð kynjanna sé ótrúlega ólík. Síðan var einn vinur minn að hann notaði rakakrem. Þannig að ég ætlaði að gera test, prófa hvort að ég fyndi fyrir einhverjum mun.

Og já.. ég finn fyrir mun, sérstaklega í andliti. Auðveldara að raka sig og húðin er mýkri. Hvort að ég mun nenna þessu til langtíma er auðvitað allt annar handleggur, ekki alinn upp við það eins og stelpur!

15 október, 2006

Álver

Misskilningur

Fyrir nokkru þá minntist ég á Helguvík og sagði að það væri á Norðausturlandi. Ég er búin að komast að það er alvarlegur misskilningur hjá mér. Helguvík er á suðvesturhorninu nánar tiltekið í Reykjanesbæ.

Ég hélt að þetta álver hlyti að vera álverið sem er verið að tala um í sambandi við Húsavík. En svo er ekki.

Þetta álver í Helguvík á að vera 250 þúsund tonn (straumsvík er í dag 180 þúsund tonn).

Auðvitað er ég ótrúlegt fífl að hafa ekki gert mér grein fyrir þessu strax en það var nú engin hér að benda mér almennilega á þennan misskilning minn og hvað þá að leiðrétta það.

En við erum þá að tala um að það á stefna á það að stækka straumsvík og Grundartanga, gangsetja álverið á Reyðar firði og byggja 2 ný álver....

Er einhver allsherjar truflun í gangi? Er einhver búin að missa vitið gjörsamlega? Hvað er í gangi?

13 október, 2006

Sturta

Morgunverkin

Þegar ég vaknaði þá gekk ég fram í baðherbergi, setti sturtuna í gang og tannburstaði mig. Ég notaði Colgate - whitening sensation, fór svo með tannþráð á þá staði sem ég er með bólgur. Ég fór síðan í sturtuna og fann að hún var mátuleg. Ég bleytti allan líkaman og þvoði hann með húðmjólk blandaða í ólívuolíu sem var extra rakagefandi. Sápan var síðan skoluð af og þá bar ég Safe formula sjampó, sem er framleidd hér á landi án þess að notaðar séu dýrarannsóknir, í hárið, sjampóið var með vanillu og sólblómavökva og ætlað fyrir fínt og/eða þunnt hár. Eftir að hafa skolað sjampóið úr þá setti ég samsvarandi hárnæringu í hárið og lét það standa þar í svona um það bil 2 mínútur.

Ég hætti að láta renna og steig úr sturtunni. Mældi 10 ml af Corsodyl, sem er bakteríueyðandi munnskol, og lét það renna um munninn á meðan ég þurrkaði mér. Ég bar á mig síðan L´oréal - anti-irritation skin caring shaving foam, fyrir viðkvæma húð, og rakaði mig með Mach 3+, með aloa vera geli, rakvélinni minni. Ég bar á líkamann Hydrofíl - rakakremi frá gamla apótekinu, lyktarlaust rakakrem sem skilur ekki eftir sig einhverja fitutilfinningu, og L´oréal Hydra Energetic anti stress Moisturising Lotin, með c-vítamíni, í andlitið. Ég setti síðan BIO+ active care hárnæringu í hárið, flösueyðandi hárnæring sem ég er að fara hvíla mig á. Í hárið fór svo L´oréal - Tec devitation Paste, og mótaði hárið síðan eftir vild. Að endanum sprautaði ég síðan Van Gils - Basic Instinct, rakspíra, yfir andlitið á mér.

Og þá var ég tilbúinn fyrir daginn.

11 október, 2006

Rokk og reykingar

Rokk og Reykingar

Ég sá auglýsingu um Rokktóbeerfest um daginn. Sá að Leaves, Ske og Telepathetics eru að spila á Gauknum á föstudaginn næstkomandi. 600 kall inn. Ég hugsaði með mér "hey, það væri gaman að skella sér á þetta".

Hef alltaf langað að sjá Leaves á almeninnilegum tónleikum (ekki sem upphitunarband fyrir einhverja aðra), hef aldrei séð Ske en hef alltaf langað að kynnast þeim og síðan hlustaði ég á Telephathetics mikið um daginn og fannst þeir frábærir.

Mig dagdreymdi um það að mér myndi takast að plata kærustuna með og jafnvel hafa samband við Ragga og drösla honum líka...

en svo kom raunveruleikinn... Gaukurinn er ekki reyklaus staður... reykingar fara ekkert í taugarnar á mér svona þegar einn, tveir eru að reykja... en þegar ég kem inní sal með lélegri loftræstingu þar sem tugir manna eru að reykja.. jafnvel núna þegar ég sit hér og skrifa þetta þá finn ég reykingarlyktina af mínum fötunum og fæ vott að hausverk bara við tilhugsunina.

Sko.. hávaði, dans, drykkja er ágætisblanda, getur stundum verið yfirþyrmandi en ágætisblanda.. en að blanda sígarettureyk inní þessa blöndu.. hún er bara ekki fyrir mig...

Ég verð að játa að ég hlakka GRÍÐARLEGA mikið til þegar það verður bannað að reykja á skemmtistöðum. Hafið þið einhvern tíman farið á svoleiðis stað? Ja, ég hef gert það! Og að vakna daginn eftir með vott að þynnku og geta farið í sömu fötin (ég gerði það nú ekki að mig minnir, en að hafa möguleikann á því), það er málið.

10 október, 2006

ljósmyndir

Ljósmyndirnar sem við tökum í dag eru horfnar á morgun

Þetta hef ég heyrt nokkrum sinnum og í dag þá uppgötvaði ég að það er rétt. Ég skrapp nefnilega til Brussel nóvember 2003 og tók helling af myndum á myndavél URKÍ-R og þar á meðal nokkrar hreyfimyndi (video mynd) af göngu minni í gegnum borgina og síðan þegar ég flaug yfir London um kvöld og það var heiðskýrt.

Ég á enn myndirnar sem voru teknar en hreyfimyndirnar eru farnar. Fóru þegar harði diskurinn fór 2005. Finnst hálf ferlegt að muna eftir einhverju sem er síðan ekki til. Nú er ég duglegri við að taka back up heldur en ég var þá. En þar sem ég á ekki neinn almennilegan framtíðar samastað þá er mjög líklegt að þeir diskar fari á eitthvað flakk og týnist.

Ég er líka í vandræðum með íslensku stafina í Haloscan komment kerfinu. Hann gúdderar ekki ð þó að hann sé með ISO 8859-1 sem á að duga íslenska stafi. Er afar óssáttur við þetta annars ágæta kerfi, sem hefur virkað óaðfinnanlega þangað til í dag.

Ég var að setja inn nýtt myndaalbúm. Kallað það vini og fjölskylda. Þarna hafa verið settar tækifærismyndir af vinum og fjölskyldu, sem hafa verið teknar í gegnum tíðina af því góða fólki. Ef einhver er ósáttur við myndirnar af sjálfum sér þá skal hin sami senda mér línu á simplyjens at gmail punktur com og ég mun taka við þeirri ábendingu til íhugunar.

Vinir og fjölskylda
Aug 30, 2006 - 23 Photos

09 október, 2006

Hugleiðingar um sjálfið

An Zhaning

Mitt kínverska nafn. Samkvæmt þessu

Ég var að velta því fyrir mér í gær hvort ég hafði eitthvað breyst í gegnum tíðina, hvort að það væru einhverjar grundvallarbreytingar á minni persónu síðan ég var lítill. Er ég bara ekki sami horaði bókaormurinn sem ég var þá. Þessi þrjóski, sem hafði ekki fyrir neinu í skólanum, sem oftast gat leikið sér einn og dúllaði sér í sínum eigin heimi?

Hefur það eitthvað breyst? Við þróumst aðeins, eldumst en persónuleikinn breytist ekkert. Við erum enn sömu einstaklingarnir sem við erum þegar við fæðumst. Þannig að það sem þú sérð í börnum munt þú mjög líklega sjá þegar þessir sömu einstaklingar eru orðnir stærri.

Eða er það rangt hjá mér? Er Tabula Rasa hugmyndin til staðar. Getum við breytt okkur, breytt grunninum okkar?

Síðan er ég komin með 6737 orð í söguna sem ég er að skrifa.

08 október, 2006

Fréttir

Í fréttum er þetta helst...

Í Skagafirði er verið að spá að virkja tvær ár.. tveir virkjanakostir verða settir á aðalskipulag og síðan verður athugað hvort að einhver vill fá þessa orku. Það á að nota hana til að byggja upp atvinnu í héraðinu segir meirihluti Skagafjarðar.

Í Norðurhluta landsins vilja menn henda upp 150 þúsund tonna álveri í Helguvík.. fyrir 2010.

Ríkisendurskoðun gagnrýndi stjórnvöld og stjórnsýslu alvarlega um daginn fyrir að eyða um efni fram. Benti sérstaklega á utanríkisráðuneytið. Sagði að aðhaldið ætti að vera meira.

Í yfirlýsingu sem Árni M. Mathiasen kom fram þegar hann kynnti fjárlagafrumvarpið þá sagði hann að aðhald í ríkisfjármálum hefði verið nokkuð gott og nú mætti fara draga úr því.

Fyrir nokkrum mánuðum síðan þá lýsti ríkisstjórnin yfir því að það ætti að draga úr framkvæmdum á vegum ríkisins til þess að draga úr þenslu. Fyrir stuttu þá sagði forsætisráðherra að merki væri á lofti að dregið hefði úr þenslu og það mætti fara og setja þessar framkvæmdir í gang aftur. Stýrivextir hækkuðu um 1,5% á meðan. Það kom yfirlýsing um að draga úr framkvæmdum frá einni sveitarstjórn, Reykjanesbæ. Á meðan fóru Reykjavík að brjóta niður faxaskála.

Varnarsamningur var gerður við Bandaríkjamenn. Einu aðilarnir sem fá að vita um innihald samningsins eru 2 ráðherrar, þeir hafi lýst því yfir að um mikilvægt trúnaðarmál væru um að ræða. Bandaríkjamenn drógu her sinn í burtu vegna þess að það var engin þörf á honum. Engar hættur stöfuðu að Íslandi. Á meðan hættur stöfuðu á Íslandi vegna kalda stríðsins, þá vissu allir innihald varnarsamningsins.

Undirritaður fór í óvissuferð með vinnu sinni og drakk helling af bjór, hans hópur rústaði "hópeflisleikjunum", fór í klettasig og hellaskoðun. Líkami hans er ekki góðu ástandi sem stendur vegna aumra vöðva í öxlum.

06 október, 2006

breytingar

Breytingar

Fyrir 3 dögum síðan þá breytist líf mitt talsvert. Margir myndu segja að lífið hafi ekkert breyst eða að breytingin sé ekkert merkilegt. En ég er þessu algerlega ósammála. Að mínu áliti þá er þetta grundvallarbreyting og eiginlega það merkilegt að ég get ekki staðist það að rita um hana smá pistil.

Þetta er lítil breyting en mun vafalaust hafa mikil áhrif. Kærastan á 2 börn og þó að ég hafi hitt þau nokkrum sinnum þá hef ég alltaf verið kynntur sem vinur aldrei sem kærasti eða neitt þannig. þangað til fyrir 3 dögum, þá sagði móður þeirra frá þessum ráðahag.

Þetta er auðvitað stórmerkilegt. Allt í einu eru 2 krakkar komnir inní mitt líf. Þeir voru auðvitað komnir inní það fyrir löngu en allt í einu er ég komin inní þeirra, með allt öðrum formerkjum. Börn kærustunnar fóru að hella yfir hana spurningar eins og hvenær ég myndi flytja inn eða hvort þau mundu nú flytja inn til mín, hvenær við mundum kyssast o.fl.

Ég efast um að ég fái sömu spurningar.. hugsa að ég fái frekar frekar fliss og hlátur svona í fyrstu og síðan fer nýjabrumið af mér og þá sjáum við hvort ég sé nógu góð fyrir þau.

En það gerist eins og allt annað.. hægt og rólega..

02 október, 2006

Sauðárkrókur

Sauðárkrókur


Á laugardaginn fékk ég að vita að við værum að fara á Laufskálaréttir. Eitthvað um hundrað hestar í réttum. Það var nokkuð gaman en gallin var að ég var ekki klæddur fyrir útiveru, hélt að þessi helgi ætti að vera afslöppun og hvíld, sem betur fer þá tók ég húfuna mína með mér, þrátt fyrir að ég fékk komment á hana.

Helgin var glæsileg, á laugardaginn var farið á réttarball þar sem drukkið var ótæpilega. Fengum far með rútu í úthverfi Sauðárkróks þar sem við gistum. Líkami minn var ekki sáttur við þetta magn af áfengi í mínum kroppi og neyddi mig til þess að skila eitthvað af því aftur. Auðvitað hlýddu ég skipunum líkamans og eyddi nokkrum mínútum í leiðindum.

Ég hafði farið í 3 partí um kvöldið og auðvitað sá fólk að ég og kærastan vorum voða hamingjusöm. Eina kona hafði orð á því og sagði að það gæti ekki verið að við værum búin að vera lengi saman. Það er svo sem rétt þar sem við erum bara búin að vera 9 mánuði saman. Hve lengi getur maður búist við því að það mun endast? þessi hamingja? Þessi þörf fyrir að vilja vera nálægt, að haldast í hendur, að kyssast við hvert tækifæri? Dofnar hún hægt og rólega? Eða verður þetta bara einn daginn horfið án þess að maður tók eftir því?

Síðan er önnur hugsun? Er hægt að halda þessu við meðvitað? Er hægt að hugsa sem svo að maður vilji láta þetta ganga svona áfram og maður gerir það bara? Hefur einhver gert það? Haldið þessu nýjabrumi við í mörg ár?

Mér er spurn.

28 september, 2006

Hálslón

Hálslón er að verða til


Jæja þá er þetta að fara skella á. Tappinn var líklega settu í Jöklu í morgun klukkan níu og byrjað er að safna í Hálslón. Töfrafoss, Kringilsárrani og fleiri staðir eru að hverfa.

Það er smá tími ef þið nennið að skjótast þangað í vetur eða strax næsta vor. En eftir það er tækifærið búið.

Þeir sem lásu greinina mína vita að ég er ekki sammála honum Ómari Ragnarssyni. Að mínu áliti átti löngu búið að gera þetta að þjóðgarði og það er skömm af því að það hafi ekki verið gert. En að bjarga svæðinu sem er þegar skemmt og gefa Álverinu rafmagn frá öðrum stað? Það finnst mér ekki sniðugt. Frekar að sprengja þetta álver í tætlur og halda áfram að virkja.

En svona er lífið.

Það eru samt skemmtilegir tímar framundan. Ég segi að þetta eigi eftir að vera eitt mesta hitamál í kosningunum á næsta ári. Það er verði að stefna á það að byggja eitt álver í viðbót og stækka þau sem fyrir eru. Sem þýðir meira rafmagn og fleiri virkjanir.

Það ætti alls ekki að gerast fyrr en við fáum að vita alla hluti á bakvið. Verð sem álver fá fyrir rafmagn, hvað svona framkvæmdir kosta o.s.frv. Annað er bara rugl.

Mér flaug í hug fyrir stuttu að til þess að tefja fyrir fyllingu lónsins var að skella upp tjaldi á eitthvað svæði sem færi undir kaf fljótlega og bíða þar. Af hverju er engin að gera það?

Hef ég sagt ykkur að ég elska Google? Þeir hafa sett upp í tenglsum við Picasa mjög flott vef albúm sem ég hef strax nýtt mér. Sjá afrakstur hérna til hægri (frá þér séð, ekki síðunni.. þá segir maður til vinstri).

Kárahnjúkar
Aug 18, 2006 - 46 Photos


Posted by Picasa

26 september, 2006

Síðustu dagar lífs míns

Þann 21. október 2004 fékk ég tölvupóst frá kennara þar sem hann bað mig um að útlista helstu hugmyndir mínar varðandi B.A ritgerðina. Klukkan 12:32 í dag sendi ég svarið. Ég fór yfir u.þ.b 40 heimildir um kynfræðslu og árangur hennar og tókst að smiða eitthvað út úr því. Veit ekki hvort að ritgerðin sé raunhæf en það kemur bara í ljós.

Ég er byrjaður að rita sögu sem ég kalla "að handan" vísindaskáldsögu þar sem ég velti upp mínum hugmyndum um framtíðina. Dreymdi draum um daginn þar sem ég sá inní framtíðina og sagan er upp úr þeim draum. Er enn að móta söguna og hugmyndina bakvið hana.

Er nokkuð sáttur við vinnuna á fjölmiðlavaktinni. Þetta er allt að smella saman, launabullið sem var í gangi er komið í lag (mismunandi útreikningur á tímafjölda kom upp).

Næstu helgi er ég að fara á Sauðárkrók til að hitta vinkonu kærustunnar. Verð nú að segja að það er komin nokkur tilhlökkun í mig, fara út á land með henni og síðan er eitthvað djamm á laugardeginum en annars verður þetta bara hangs. Alltaf gaman að hangsi.

Dreymdi skemmtilegan draum í nótt þar sem ártúnhöfði var að fara gjósa og ég hafði fattað það og tók þá ákvörðun að koma mér hið snarasta í burtu og vara við kærustuna og ættingjana mína en ekki neinn annan þar sem ég vissi að allt mundi fara í fokk ef ég myndi gera það og líkurnar á því að ég myndi bjarga sjálfum mér myndu minnka töluvert.

22 september, 2006

Stúdentablaðsgreinin

Hefur þú lesið stúdentablaðið?

Eins og glöggir lesendur sjá þá minntist Kristinn á það að það sé grein eftir mig í Fréttablaðinu í dag. Það er nánartiltekið í stúdentablaðinu.

Nafnið á greininni er "hefur þú farið til kárahnjúka?" og þar er ferðasaga mín þegar ég dröslaði nokkrum upp að þessum stað. Og allar hugrenningar mínar í kringum þá ferð og þessa framkvæmd.

3 myndir flutu með þessari grein, Töfrafoss, Kárahnjúkastífla og Álverið. Þegar ég kíkti á ritstjórann þá sá ég að þeir voru búin að setja myndina þar sem ég sit við Töfrafoss í staðin fyrir myndina þar sem Töfrafoss var einn. Það var svo sem í lagi. Síðan þegar ég opnaði blaðið í morgun þá sá ég að það var búið að stækka hana þónokkuð. Hún nær yfir hálfa blaðsíðu. Sjit... nú hugsa allir að ég sé rosa hégómagjarn og hefði beðið um þetta... en svo var ekki.. þó að nokkur hugsunarskeyti hafi farið af stað.

3 hafa hrósað mér fyrir greinina og ég er sjálfur nokkuð sáttur við hana. Eflaust eru einhverjar staðreyndavillur og ég er nokkuð viss um að ég á eftir að fá aulahroll yfir lok greinarinnar eftir einhvern tímann en það verður bara að hafa það.

Ég fékk smá hnút í gær þegar ég opnaði blaðið og sá greinina. Fékk ekki beint áhyggjur.. var svona spenntur með hvort að ég myndi fá einhver viðbrögð og kveið smá fyrir hvaða viðbrögð ég myndi fá. Ég hugsa að þetta sé fyrsta sem birtist eftir mig á prenti (fyrir utan ljóðin sem ég setti í ljóðabók F.B. sem ég fékk aldrei að sjá!). Eins og allir vinir mínir vita þá hefur mér alltaf langað að gefa út eitthvað á prenti. Ég veit í dag að ég er alls ekki með neina ofurhæfileika á því sviði en þetta er ákveðin draumur sem hefur fylgt mér í gegnum tíðina og þótt að grein í stúdentablaðið sé kannski ekki stór hlutur fyrir suma þá fullnægði þessi opna ákveðna þörf sem ég hef oftast fengið útrás fyrir á þessari vefsíðu.

Ég er sáttur og ef þið hafið einhver jákvæð komment á greinina þá skuluð þið skella þeim bara hér í comment kerfið. Ef þið hafið ábendingar eða neikvæðar athugasemdir þá er netfangið mitt simplyjens at gmail punktur com.

19 september, 2006

Greys anatomy

Imbakassinn

Oftast þá er ég ekki mikið fyrir sjónvarp. Hef fundist að ég hef nóg annað við minn tíma að gera heldur en að hanga og glápa á kassann. Ég hef stundum dottið inní vissar sjónvarpseríur (24, lost, C.S.I, survivor, judging amy, ER, star trek o.fl.) en það er oftast vegna þess að maður fær ákveðin félagsskap með því að horfa á þetta, spjall um sjónvarpsþættina og maður horfir á þættina með einhverjum ákveðnum aðila. Gott dæmi um þetta er Supernatural sem ég horfi á með vini mínum, honum Gissuri og stundum kemur Halli L og glápir með okkur.

En það er einn sjónvarpsþáttur sem ég er orðin háður. Það er spítaladramað Grey´s Anatomy. Þessir þættir láta mig öskra á meira gláp, er verri vegna þessa þátta heldur en þegar ég horfi á 24.

En hvað er við þessa þætti sem gera mig háðan? Það er einfalt svar við því. Það er rosalegt drama í þáttunum, persónu drama. Þeir skapa trúverðugar persónur. Það er eitt það sterkasta við þættina. Þeir eru líka óhræddir við að láta þróun gerast í þáttunum. Fólk verður ástfangið, fólk ríður, lendir í rifrildum, slagsmálum, er skotið, verður reitt o.s.frv. Og það sem meira er.. að mínu áliti þá er þetta trúverðugt.

Þetta er ekki þáttur þar sem áherslan er á skurðaðgerðir og eitthvað tengt þeim, heldur um dramað sem verður í kringum aðgerðirnar og tilfinningarnar sem eru tengdar þeim. Það er engin persóna sem fer í taugarnar á mér í þessum þáttum. Það er lagt gríðarlega mikið í þessa þætti, samtölin, flækjurnar og aðstæðurnar eru yndislegar. Það má segja að í 18 þætti í seríu tvö þá er ein flottasta sprenging sem ég hef séð í sjónvarpi, tæknilega mjög vel unnin og ótrúlega spennandi aðstæður.

Mín uppáhalds persóna er Dr. Christina Yang sem Sandra Oh leikur. Metnaðargjörn, tilfinningalaus karakter, læknir sem á bara að vera bakvið skurðarborð en ekki fyrir framan fólk, sterk kvenpersóna, sem á sínar mjúku hliðar og er mannleg.

Mér finnst líka Georg O´Maley frábær, mjúki maðurinn í hópnum, tifinninganæmur, mannlegur en er samt svo sterkur þegar skíturinn lendir í viftunni að það hálfa væri nóg.

Dr. Alex Karev vinnur á rosalega í annarri seríu. Þessi breidd tilfinninga sem hann sýnir er frábær, djúpur karakter sem felur hafsjó tilfinninga á bakið stóra testósterón grímu.

Í heildina litið þá er þetta, að mínu áliti, einn sá besti sápuóperuþáttur sem búin hefur verið til.

15 september, 2006

Að drepa dýr

Að bjarga eða deyða

Þegar ég var að vinna upp í Sorpu þá lenti ég í atviki sem skildi eftir sig ákveðin ör. Ég fann fuglsunga, sem hafði augljóslega lent í hremmingum og hann var væng og fótbrotinn. Ég hlúði að honum en það var augljóst að hann var að deyja og var í miklum þjáningum. Eftir að hafa hlustað á að réttast væri að snúa honum úr hálsliðnum til þess að ljúka á þjáningar hans þá gerði ég það. Ég sneri hann úr hálsliðnum og hlustaði á beinin í hálsinum hans brotna. Fann fyrir titringnum í litla búknum hans og síðan tilfinningunni sem ég fékk þegar hann hætti að hreyfa sig og anda.

Allir nema einn sögðu að ég hafði gert það eina rétta í stöðunni. Þessi eini sagði við mig "þú lékst guð, kannski hefði hann lifað, kannski hefði hann dáið, það veit engin en þú tókst ákvörðun fyrir hann".

Það var rétt hjá honum, ég hafði engan rétt til þess að murka úr honum lífið. Ég hefði átt að hlúa að honum, setja hann í skókassa og sjá hvort að hann myndi lifa af. Nú ef ekki þá hefði það bara verið þannig.

Eftir þetta þá hef ég aldrei drepið nein dýr. Ég slæ ekki til flugna sem eru að pirra mig eða drep kóngulær sem eru að skríða á mér. Ég hendi þeim út og veiði þær flugur sem eiga ekki að vera inni í íbúðum manna.

Ég borða dýr, get ekki neitað því og skammast mín ekkert fyrir það. En ég drep þau ekki sjálfur og ég efast ekki um það að ég myndi hætta að borða kjöt ef ég þyrfti að drepa dýrin sjálfur.

En jæja, fyrir nokkrum viku síðan þá var ég að vinna í þjóðarbókhlöðunni þegar annar starfsmaður benti mér á fugl sem sat hreyfingarlaus og það væri hægt að snerta hann. Ég gekk að fuglinum og það var rétt, ég gat tekið hann upp og klappað honum. Hann virtist anda hratt, vera óbrotin en var alveg við varnarlaus gagnvart öllum sem komu að honum. Ég fór með hann inná vinnusvæði mitt og spjallaði gamalreynda menn. Einn sagði við mig að það væri örugglega vaxið yfir gotrauf hans og það þyrfti bara að hreinsa það. Ég fann eina fjöður sem var eitthvað skrýtin og tókst að losa hana eftir smá tog og snúning. Strax og ég losaði hana þá skeit fuglinn á mig og varð strax hress. Ég lét taka mynd af okkur saman og síðan flaug hann á brott.

Verð að játa að það var stórkostleg tilfinning þegar ég horfði á eftir fuglinum. Örugglega álíka góð og tilfinning sem ég fékk þegar ég tók líf hins fuglsins var slæm.

12 september, 2006

Sjálfsálit

Sjálfsálitið er gott

Mér líður yndislega þessa dagana. Mér finnst ég vera sterkur og snöggur, limafagur og fríður. Með mjúka og fallega húð, vel greitt og yndisfrítt hár. Vel klæddur og smekklegur.

Ég hef brennandi áhuga á því sem ég er að gera. Hef mikla orku sem hefur nýst í það að skrifa grein um Kárahnjúka (sem birtist í stúdentablaðinu), lesið 40 vísindagreinar um kynfræðslu og hef áhuga á því að sökkva mér enn meira í þau fræði.

Hvað hefur breyst? Jú ég er komin með kærustu, kvíðin er horfin, ég hef misst nokkur kíló og hef hreyft mig talsvert í sumar.

Kærastan er auðvitað stór hluti af þessari sterku og stóru sjálfsáliti, það er engin spurning og ég vona bara að ég geti borgað það til baka á einhvern hátt.

En það er meira. Maður á ekki að láta sér líða vel bara vegna þess að maður á góða konu. Það á að hjálpa til en ekki meira. Maður á að finna þetta innra með sér. Maður á sjálfur að vera á toppi leiksins (top of the game.. er einhver með betri lýsingu á þessu). Ef hjálpardekkið fer af hjólinu þá á maður samt að geta hjólað áfram.

Mér líður vel og ég vona að flestir sem eru í kringum mig sjái það og finni og ég vona að ég smiti sem flesta í kringum mig.

11 september, 2006

11.september

Hugleiðingar um 11. september

Er ekki gott að fjalla aðeins um 11. september á þessu 5 ára afmæli. Það vita auðvitað allir um hvað ég er að tala um er það ekki?

Ég var nefnilega að lesa um daginn bókina confederacy of Dunces eftir Garth Ennis. Þetta er 6 bókin í þessum flokki og mér hefur alltaf fundist hún síst. Svo sem áhugaverð hugmynd þar sem 3 miklar hetjur fara saman á eftir aðalsöguhetjunni, sem er mikil andhetja. Mér finnst þetta voðaleg klisja og það er svona auðveldar lausnin í henni.

En já, hann Garth Ennis byrjaði að rita þessar sögur árið 2000 og í enda fyrsta kafla fyrstu bókarinnar "welcome back Frank" þá stendur aðalstöguhetjan upp á Empire States byggingunni og kastar einhverjum mafíósa niður af byggingunni. Hann horfir síðan yfir New York og finnst eins og borgin sé að gleðjast yfir því að hann skuli vera komin aftur.

Garth Ennis skóp ekki þessa hetju heldur tók hann við henni eftir að hún var búin að veltast um í þessum sagnabálki. Hafði verið valin af englum til að hreinsa upp einhverja djöfla og farin að drepa fólk fyrir einhverja smáhluti. Hann Garth gerði mjög góða hluti með þessa persónu og byrjaði einfaldlega á því að fara aftur í grasrótina (to the basics). Og gerði það mjög vel.

En já, eins og ég var að segja þá var ég að lesa 6 bókina og í endanum á þeirri bókinni i þá stendur Frank upp á Empire States byggingunni og gerir sig tilbúin til að kasta einhverjum skítbuxa niður af byggingunni. Hann á við sig svona innbyrðis dialógíu sem mér fannst mjög skemmtileg og afskalega áhugaverð sérstaklega þar sem í dag er 11. september. Hann Garth skrifaði þennan texta árið 2005.

Four years ago Fjögur ár eru liðin
The view was diferent then sjóndeildarhringurinn var annar þá
I remember the day the Towers came down, not for all the sound and fury, not for the streets awash with smoke, but for the looks on the faces of the people I man daginn sem Turnarnir hrundu, ekki vegna hávaðans og reiðinnar, ekki vegna reyksins sem fyllti göturnar, heldur fyrir svip fólksins
The stricken horror of innocence killed stone dead hræðslusvipin af sakleysi sem var steindrepið
See? I thougt Sjáið? hugsaði ég
See now? Sjáið núna?
See what the world is really like sjáið hvernig heimurinn í raunni er?
The City now, it knew borgin, hún vissi
It had known all along hún hafði vitað allan tíman
For a moment I ssem to hear it talking í eitt augnablik þá virtist mér hún tala
Frank, It says, Don´t ever go away again Frank, segir hún , Þú skalt aldrei fara í burtu aftur
But I´m not going anywhere en ég er ekki að fara neitt
I need you, Frank ég þarfnast þín Frank
Says New York City Segir New York borg
Always did like this town (mér líkaði alltaf vel við þessa borg

Snilldar texti. Og mætti kannski segja að stjórn Bandaríkjanna hafi tekið söguhetjuna Frank Castle sér til fyrirmyndar í eftirleik 11. september 2001.

08 september, 2006

Kynfræðsla í USA

Vissuð þið það að til þess að fá styrk frá "federal" stjórnkerfinu í USA þá þarftu að uppfylla vissar kröfur. Þær eru:

Jæja ég verð að játa að mér finnst þetta algerlega út í hött. Svo fáranlegt að það hálfa væri nóg.

07 september, 2006

Að læra

Ég stillti klukkuna á níu í morgun. Hún hringdi og ég ýtti ekki á snooze heldur slökkti á henni og lá og hugsaði. Hafði dreymt eitthvað bull og var eitthvað down. ég ákvað að vera heima og lesa greinar sem ég hafði verið að sanka að mér um kynfræðslu. Ég las blogg, reyndi að skrifa eitt stykki rafraus en tókst illa, kláraði punisher bókina sem ég hafði verið að lesa í gær og lá lengi upp í rúmi.

Ákvað síðan að fara í sturtu og þá hringdi kærastan. Hitti hana í hádegismat og skrapp síðan niður í kringlu til að versla. Keypti einhverja hluti og fór síðan heim. Er núna búin að vera lesa greinar um kynfræðslu í einn og hálfan tíma.

Ég er með feitt samviskubit. Finnst ferlegt að ég sé búin að eyða deginum í það að hanga í stað þess að læra. En ég hef einhvern vegin ekki löngun til þess að gera það núna. Er að spá í það að hætta að þykjast og fara að lesa bókina sem ég fékk lánaða í gær frá Rósu, kærustu Gissurs.

Veit að þetta gengur ekki. Hef ákveðið að vakna fyrr á morgun og vera komin upp á þjóðarbókhlöðu eins snemma og ég treysti mér til (ætlaði að segja klukkan átta, en maður a ekki aðlofa einhverju sem er mjög ólíklegt að maður standi við). Get alveg sofið bara í hlöðunni ef ég verð eitthvað þreyttur.

Annars tókst mér að ná yfir 30 heimildum í gær og er búin að lesa 5 greinar og í gegnum þær þá hefur mér tekist að fá vísbendingar í góðar greinar.

06 september, 2006

S24

Ég ákvað fyrir nokkru að fá mér nýtt debetkort hjá S24 þar sem þeir eru með lægstu vextina á yfirdrætti, þar sem skattstofan tókst að týna skattaskýrslunni minni þá þarf ég að vera með yfirdráttin aðeins lengur.

Ekkert mál. Fylli út eyðiblöð á netinu og volla! Fæ svar tveimur dögum seinna um að nýtt og fallegt debetkort bíði eftir mér hjá aðalstöðvum þeirra. Ég hef ekki tíma til að sækja það strax svo það bíður þar í 2 vikur. Ég mæti svo í morgun til að þess að sækja það.

Debetkortið er þar tilbúið en... ég fæ það ekki afhent fyrr en ég sýni persónuskilríki sem gefið er út af opinberum aðila. Þ.e.a.s vegabréf, ökuskirteini eða nafnskirteini. Þar sem ég geng ekki með vegabréfið á mér og ökuskirteinið er í hinu kortaveskinu (og það er í bílnum hans Haralds Leifsföður) þá var ekki hægt að afhenta mér debetkort sem gefið var út handa mér, með mynd af mér, með mína undirskrift og minni kennitölu.. þrátt fyrir að ég hafði í höndunum alveg eins skirteini með sömu mynd og undirskrift.

"það eru nýjar reglur, sjá sbv.is"

Ekki tel ég mig vera lögfróðan mann, en hvernig í andskotanum mun það stoppa fjármögnun hryðjuverka og peningaþvott ef það er að spyrja mig um persónuskilríki sem gefin er út af opinberum aðila?

"Þetta er gert vegna öryggis þíns"

Arrrghh.. var orðin pirraður þegar litla, unga, sæta, saklausa afgreiðsludaman stamaði þetta út úr sér.. bað ég um það að það væri gert meira til öryggis.. sérstaklega bað ég ekki um að meiri óþægindi yrðu sköpuð handa mér. Hverju breytir það að ég haldi á debetkorti frá Íslandsbanka eða ökuskirteini? Hver er grundvallarmunur á milli þessara tveggja skirteina?

Ég varð djöfulli pirraður vegna þessa en ákvað að urra ekki á stelpuna þar sem hún var bara að fylgja reglum sem hún hafði engan skilning á og bað um að þeir myndu senda mér þetta í ábyrgðarpósti. Vegabréfið mitt er heima hjá mér.

04 september, 2006

Í gær þá spilaði ég

Ég mundaði riffilinn og hafði hann í sigtinu. Bílinn hægði á sér og maðurinn stóð gleiður, glannalegur með glott á vörum.

Hann hélt á skammbyssu, ekki stórri sýndist mér en eflaust væri hann alveg ágætur í því að nota hana. Bílinn stoppaði og ég heyrði Gus og Jonathan opna hurðirnar og stíga út. Sá útunda hjá mér að Jonathan hafði fyrir því að klæða sig í brynjuna.

Gus drap á bílnum og það eina sem lýsti upp svæðið voru bílljósin á bílnum okkar. Bíllinn sem hann stóð hjá var ljóslaus og það voru engin ljós í húsbílnum.

En húsbílinn hreyfðist... ruggaði svona til hliðar. Ég leit á glott mannsins, og hvernig hann hélt á skammbyssunni og það var ekki efi í mínum huga þegar ég tók í gikkinn á riflinum og skaut hann tveimur skotum.

Verst að hann hætti ekki að hreyfa sig fyrr en að ég hafði klárað skotin úr rifflinum á hann og Gus hafði höggið höfuðið af honum með sveðju.

óvissuhelgi

Óvissuhelgi

Ég vissi aldrei hvað var að gerast. Henni tókst alltaf að vera skrefi á undan og hún á hrós skilið fyrir það. Ég giskaði stundum á rétta hlutin en henni tókst alltaf að halda andlitinu.

Við fórum á skauta og síðan upp í bústað, rómtantískur kvöldverður við arineld (kamínueld). Hollur og góður morgunverður, göngutúr upp að Glym í Hvalfirði (sem ég var mjög sáttur við) og síðan í sund. Matur á Tapas og síðan heim upp í rúm.

Kíktum síðan í Brunch til Ástu frænku.

Þrælskemmtileg helgi sem verður erfitt að toppa... en ég mun reyna.

Þakka kærlega fyrir mig.

01 september, 2006

stefnumót

Stefnumót

Fyrir nokkrum vikum þá bauð ég kærustunni á stefnumót og það var mjög skemmtilegt kvöld. Hún sagðist ætla að taka að sér að skipuleggja næsta kvöld okkar.

Það er að fara í hönd þessa helgi. Ég hef verið nokkuð ómeðvitaður um hvað hún hefur verið að skipuleggja og veit ekkert hvað er í vændum.

En ég var kallaður í upplýsingaborðið fyrir nokkrum mínútum vegna "konu sem vill hitta þig". Þarna stóð kvennmaður sem ég kannaðist við en hafði aldrei séð áður. Hún rétti mér blóm sem á var fast á mynd og texti. Frá kærustunni.

Það er nú ekki oft sem ég roðna.....

Nú er maður bara að velta því fyrir sér hvað hún tekur sér næst fyrir hendur.

31 ágúst, 2006

Efnahagsástandið

Efnahagsástand þjóðfélagsins

Það er verið að tala um að það sé nauðsynlegt að hafa álver til þess að halda efnahaginum á réttum kili. Ég las blöðin í gær og ég var að rita niður fréttir sjónvarps og útvarps. Gerðu þið það? Í Blaðinu var grein um nýbygingar, þar var sagt að fólks sem er að kaupa nýbyggingar væru að lenda í milljóna tjóni vegna galla í frágangi, "Mikill hraði á byggingamarkaði sem og fjöldi erlendra verkamanna með misgóða fagþekkingu er talin vera helsta ástæða vandans."

Í útvarpsfréttum og sjónvarpsfréttum kom frétt þess efnis að meðalaldur starfsmanna í matvöruverslunum fari lækkandi. Það vantar fólk á hjúkrunarheimili, vantar fólk á kaffistaði (hafið þið komið nýlega í Cafe Paris?), alltaf auglýsingar í öllum sjoppum og búðum um að það vanti fólk.

Þegar ástandið er svona er þá eitthvað vit í því að stefna á stórar miklar framkvæmdir? Er það bara ekki tóm vitleysa?

2 fréttir á sama degi um sama málefnið.. skortur á vinnuafli. Ef það sé skortur þá eykst þrýstingur á að laun hækki.. sem þýðir að verð hækkar þar sem þjónustan er þá dýrari vegna þess að starfsfólk kostar meira.. sem þýðir verðbólga...

Erum við ekki að skjóta okkur svo í fótinn þessa dagana að það hálfa væri nóg?

29 ágúst, 2006

Meindýr

Rottur, dúfur, kakkalakkar og mávar hafa verið kölluð meindýr í gegnum tíðina. Hef oft heyrt fólk hallmæla þessum dýrum og segja þau vera skaðræðisskepnur.

En það er merkilegt við þessi dýr að þau hafa náð svo miklum fótfestum í heiminum vegna mannkynnis. Þetta eru fylgifiskar okkar. Þetta eru dýrin sem hafa aðlagað sig okkur. Ég gæti jafnvel sagt að þetta séu dýr sem líkist okkar lífsstílsmynstri sem mest.

Þau borða sama mat og við, þau geta búið eiginlega alls staðar en besta fer um þau í álíka vistarverum og við búum í (þ.e.a.s ekki fuglarnir). Þau lifa á okkur.

Það er mjög oft talað um það að útrýma þessum kvikindum en allir vita að það er næstum ómögulegt. Rotturnar hafa rosalega aðlögunarhæfni og þola rosalega vel öll eitur að það þurfti gríðarlegt átak til þess að eyða þeim, við höfum öll heyrt sögur hvað Kakkalakar þola mikið, og fjöldi dúfna og máva er svo gríðarlegur að það svarar ekki kostnaði að fara í að drepa þá.

Til þess að stemma stigu við þessi dýr þá þurfum við að breyta lífsmynstri okkar. Ekki henda matarleifum. Ekki láta neinar matarleifum fara ofan í vaskinn. Einfaldlega koma í veg fyrir að þessi dýr komist í matvæli sem við leyfum. Ef einhver myndi byrja að tala um það, þá myndi ég jafnvel hlusta.

26 ágúst, 2006

Djamm og Dans

Ég fór á lífið í gær. Leifur er á landinu og það var ákveðið að smala saman í smá skrall. Við vorum bara fjórir sem mættu til Ella en það var bara ágætur fjöldi. Áttum saman nokkur góða bonding stund, þar sem talað var um allt á milli himins og jarðar. Drukkið smá öl. Ég var orðin nokkuð syfjaður þegar leið á kvöldið og þegar ákveðið var að fara niður í bæ þá ætlaði ég að passa á það. En það vegna hópþrýstings þá ákvað ég að skella mér með. Hann Halli D henti í mig ripfuel töflum sem áttu víst að hressa mig við. Ég tók eina og síðan þegar við mættum niður í bæ þá skellti ég mig einum orkudrykk (blandaðan í áfengi..). Og varð bara nokkuð hress.

Ég elska að dansa. Alveg frá því að ég fór á fyrstu Prodigy tónleikana mína þá hef ég elskað að dansa. Láta allt flakka á dansgólfinu, sveifla hári, baða út öllum vöngum, syngja með tónlistinni, hoppa o.s.frv. Hef alltaf skemmt mér vel á dansgólfi. Í gær var engin breyting á. Við fórum á Pravda þar sem hann Raggi stóð að sumbli og hristum okkur smá þar og síðan var haldið á Glaumbar, ég reyndi að dansa sem mest þar en vegna plötusnúðarins þá var lagavalið alger hörmung.

Við vorum við barborðið að spjalla og drekka, og ég að dilla mér á ganginum þegar Elli segir mér að hann hafi alltaf fílað hvað ég hefði getað skemmt mér í öllum aðstæðum. Ég held allavega að hann hafi sagt það. En ég býst við því að hann hafi meint það að hann fílaði hvað ég læt allt flakka í dansinum. Þetta er nú ekki í fyrsta skiptið sem einhver kemur með athugasemd varðandi dansinn minn. Hef heyrt setningar eins og "þú dansar illa en það skiptir ekki máli þar sem þú ert að fíla þig svo vel", "ertu eitthvað snargeðveikur?", "er eitthvað að þér maður?", "Á hverju ertu?", "rosalega ertu flottur þegar þú dansar".

En vitið þið hvað? Þegar ég er á dansgólfinu og er að sleppa mér þá gleymi ég öllu, í nokkrar mínútur þá hætti ég að hugsa um fólkið í kringum mig, mínar aðstæður, hvort að ástandið í Ísraels mun leiða til meira ofbeldis, hvað á að gera við pólitíkusa o.s.frv. Allt hverfur og það eina sem skiptir máli er hreyfing líkama míns og taktur tónlistarinnar. Ég fíla þá tilfinningu í ræmur.

25 ágúst, 2006

Táneglur

Mínar táneglur eru FUBAR. Þetta er að verða bjánalegt hvernig þær líta út. Hvers vegna geta þessar neglur ekki verið eðlilegar? Þær eru hrikalega ljótar. Á litlu tánum þá er hálf nöglin horfin og það vex eitthvað þykkildi yfir þar sem nöglin var. Þykkildi sem ég þarf að klippa af jafnreglulega og neglurnar. Stóra táin er fín. Eina táin sem ég er sáttur við. Tá númer tvö (við hliðin á stóru er að vaxa niður, táin tekur strax °90 beygju niður á við. Ekki gaman, tá númer þrjú er í lagi en tánöglin á nr. 4 (talið frá stóru tá) er að reyna breytast í U. Báðir endarnir til hliðanna sveigjast upp og miðjan á tánöglinni er lægsti punktur naglarinnar.

Þetta er svona báðum megin. Er einhver með lausn? Ætti ég að fara í fótsnyrtingu? Ég mundi nú vorkenna þeirri stúlku/strák sem myndi fá það verk að snyrta á mér tærnar.

23 ágúst, 2006

Myndir

Myndir

Myndir komnar inn á myndasíðuna, hlekkur hér til vinstri.

Augljóslega ekki allar.

21 ágúst, 2006

Kárahnjúkar og umhverfi


Hér sat ég við svokallaðan Töfrafoss. Þetta var rosaleg ferð og svo margir hlutir sem gerðust á þessari ferð að það hálfa væri nóg.

Á þessari mynd sést Töfrafoss. Honum verður sökt undir Hálslón. Posted by Picasa

18 ágúst, 2006

Kárahnjúkar

Kárahnjúkar 18-21 ágúst.

Er á leiðinni...........................................

17 ágúst, 2006

mótmælendur

Að vera mótmælandi og aðrar hugrenningar

Jæja þá er allt að verða tilbúið. Eftir að pakka niður, sækja bílinn, kíkja í Landsvirkjun, tala við bróa og redda kort af svæðinu. En ég er búin að hugsa mikið.

Þegar ég hef verið að tala um þessa ferð þá hefur fólk oftast spurt mig hvort að ég sé að fara mótmæla. Nei ég er ekki að fara mótmæla og ef ég ætlaði að mótmæla þá myndi ég gera eitthvað betra, stærra, meira heldur en að hlekkja mig við vinnuvélar og kvarta síðan yfir harðræðir lögreglumanna.

Í gær var viðtal á NFS við mótmælenda sem var spurður hvort hann héldi að þetta hefði einhver áhrif. Hann svaraði því að hann vonaðist til þess að fólk myndi fræðast um einhver mál tengt Kárahnjúka sem það vissi ekki áður. Djöfulsins fífl eða að fréttastofan er svona skemmtileg að klippa niður það sem er merkilegt. Hver er þeirra málstaður? Hvar getur maður fengið upplýsingar um hann? Af hverju er ekki einn talsmaður þeirra, væri betra ef hann gæti talað íslensku? Og síðan minnast þeir af og til á það að þeir munu fara heim eftir nokkra daga. Arrrgghhh.. ef Ghandhi hefði nú minnst verið svona.. já ég mótmæli þangað til að það kemur kaffitími eða vinnudegi er lokið. Gera þetta almennilega, tilbúin að fórna lífinu sínu, tilbúin að limlestast, tilbúin að vera lamin fyrir skoðanir þínar, tilbúin til að sitja í fangelsi og þjást fyrir þær. Ekki kvarta og kveina, ekki segja að einhver sé með harðræði eða fúll. Ekki segja að þú farir heim þegar fríinu þínu er lokið..

Fífl.

Ómar Ragnarsson er flottur, hann gerir þetta vel. Hann vill ekki nota ofbeldi hann vill bara fræða fólk. Hann gerði mistök með bókinni sinni, með og á móti Kárahnjúkum, fín bók en var ekki með neina almennilega skoðun. Og síðan þegar á að veita í lónið þá ætti Íslendingar sem eru á móti þessu að fara bara ofan í lónssvæðið og vera þar og segja "ég vil deyja með landinu ef þið gerið þetta". Nú ef það er ekki tilbúið til þess þá bara sökkva þessu svæði og hætta að nöldra.

En það er gott að vera búin með þessa vinnutörn.. vinn hvernig andinn hellist yfir mig, hvað ég er ánægður með líf mitt þessa dagana og allt sem er í gangi.. ok flest allt.

15 ágúst, 2006

Vinnutörn

Vinnutörn lokið

Frá 13 júlí til 14 ágúst vann ég í tveimur vinnum. Alla daga vikunnar, öll kvöld og allar helgar. Ég fékk eina helgi til að fara til útlanda og síðan 3 daga frá fjölmiðlavaktinni.

Ég vann 116 tíma (plús, mínus 5 tímar) og borgaðir tímar voru 156 tímar í fmv. Í þjóðarbókhlöðunni vann ég 175 tíma. Samtals vann ég 291 tíma en fékk borgaða 331 tíma. Þetta þýðir að ég vann 180% vinnu en skilaðir vinnutímar voru 207%.

Þegar ég kláraði síðasta vinnudaginn minn í fmv þá fann ég þreytu hellast yfir mig. Ég rauk heim en þegar ég lagðist upp í rúm þá leið mér illa. Var lengi að átta mig hvenær mér hafði liðið svona illa. Áttaði mig síðan daginn eftir að ég mér hafi liðið svona illa þegar ég gekk Jökulsárgljúfrin, fyrri daginn. Líkaminn öskraði á hvíld en öskraði svo hátt að ég gat ekki hvílst. Maginn kvartaði og vanlíðanin var mikil.

Þegar ég vaknaði þá var líðanin mun verri og ég hringdi mig inn lasin. Svaf svo til hádegis og slappaði af síðan allan daginn.

Aldrei aftur, aldrei aftur.

10 ágúst, 2006

Madonna

Madonna og ég

Ég skrapp á tónleika með Madonnu um þar síðustu helgi og skemmti mér konunglega. Og auðvitað þá fór maður að rifja upp kynni sín af þessari tónlistarkonu. Ég fílaði aldrei Madonnu á mínum yngri árum. Fannst hún hundleiðinleg og fölsk (ekki söngfölsk heldur persónuleikin var falskur). Svona "égerrebeltilaðhneykslafólk" söngkona.

En síðan fyrir nokkrum árum þá sá ég lag í sjónvarpinu, Frozen með Madonnu og fannst það nokkuð gott. Fjárfesti síðan í geisladisknum Ray of Light og fannst hann drullu góður. Skemmtilegasta lagið var lag nr. 7 "sky fits heaven" lang best. Ég sé alltaf það sama fyrir mér þegar ég sé þetta lag. Ég sé fyrir mér sprengjuflugvélar vera fljúga yfir borg og síðan er sprengjunum sleppt og það er fylgst með einni sprengju vera falla til hægar, sýnt í slo mo á meðan hún snýst hægt á leiðinni niður. Ætli það sé ekki travelling down sem kveikir á þessari mynd minni.

En allavega. Eftir að ég tók hana í sátt þá hef ég aðeins fylgst með henni. Og verð að játa að hún er stórmerkilegur listamaður. Tónlist hennar er síbreytileg og með hverri nýrri plötu kemur nýtt look á hana sjálfa. Hún gjörbreytir útliti sínu og fatastíl. Hún gerir líka ágætar barnabækur (þessi eina bók sem ég hef lesið var nokkuð góð). Verst að hún er með einhverjar hugmyndir um það að hún geti verið kvikmyndastjarna, en það er önnur saga.

Nú sá ég þessa manneskju á sviði og get sagt að ég mundi ekki hika við að fara aftur á tónleika með henni.

09 ágúst, 2006

vinna

Vinna

Eftir 5 tíma svefn í gær þá vaknaði ég "eldhress", sérstaklega þar sem ég hafði sofið yfir mig og myndi nú fá háðsglósur frá yfirmanni mínum. Rauk niðrí vinnu (tók leigubíl - lenti á dagtaxta, ánægður með það). Og var að vinna frá 8 til 16:10. Ósköp rólegt að gera. Fyrir hádegi er maður fastur hjá símanum og er að gera smáverkefni og eftir hádegi var farið í snjóbræðslukerfið, loksins tókst okkur að komast að því hvað nákvæmlega var að (mér tókst að finna það út, með því að athuga allar forsendur og aðstæður sem lágu á bakvið hlutina). Síðan var dólað í miðbænum í 2 tíma og mætt upp á vaktina klukkan 18.

Fyrsta frétt kvöldsins var um Össur Skarphéðinsson, hann var að tala um eitthvað sem ég man ekkert eftir. Nema hvað að í miðri frétt fer sækja á svefn og ég dotta smá. Finnst þetta ekki ganga lengur og fer út og fæ mér ferskt loft.. kem síðan inn og aftur og les aðeins yfir það sem ég skrifaði og er bara WTF?.. einhverjar sjö, átta setningar sem ég hef ekki hugmynd hvaðan komu. En síðan hlusta ég aftur á fréttina og átta mig á því að þær voru í fréttinni. Þannig að ég var að skrifa á meðan ég svaf. En eftir þennan göngutúr þá leið mér betur og gat byrjað að vinna á fullu.

Ótrúlegar fréttir.

t.d fréttamaður spyr sýslumanninn á Seyðisfirði hvort honum finnist þessar aðgerðir ólöglegar. Sýslumaður svarar "ja, ég hefði nú ekki FYRIRSKIPAÐ þær ef mér hefði fundist svo". Var fréttamaður ekki búin að komast að því hver fyrirskipaði þessar aðgerðir? (sjónvarpsfréttir)

Danir eru að stefna gersamlega í einhverja aðskilnaðarstefnu, 5 ára krakkar skipt í bekk eftir þjóðerni (útvarpsfréttir) og Danskir þingmenn vilja takmarkanir á útlenska nemendur (sjónvarpsfréttir). Fylgja Austurríkismönnum í þessu!

Óskar Bjartmarz ýtir við fréttamanni og kemur illa út í fjölmiðlum.. hverjum datt að láta hann koma fram í fjölmiðlum þar sem hann er étin af fjölmiðlafólki. (sjónvarpsfréttir).

Ég veit að ég er mikið að tala um þetta, en þar sem líf mitt snýst í kringum fréttir, svefn, kærustu og mat, hef voða lítið til að tala um þessa dagana.

06 ágúst, 2006

Hugleiðing

Stundum er maður seinn

Sit fyrir framan imban og hlusta á Nýja diskin frá Muse. Læt hraða hugsunarinnar minnar jafnast á við hraða tónlistarinnar. Ný komin upp úr baði, finnst ég geta tekist á við heimin. Finnst ég vera myndarlegur og öflugur.

Hugur minn er komin á flug. En ég er seinn. Hugsa að ég sé of seinn.

Draumlandið, viðtalið við Jakob Björnsson í Silfri Egils þann 7. maí, Kárahnjúkar: með og á móti eftir Ómar Ragnarsson. landsvirkjunar heimasíðan. Fréttir að Kárahnjúkasvæðinu og þessum svokölluðu mótmælendum sem eru þar.

Hvar eru hugsjónirnar? Hvar er aflið?

Það á að byrja að safna í lónið fljótlega í haust. Og ég er fyrst að uppgötva þetta svæði og allt í kringum það núna. Hef bara verið ómerkilegur blaðrari hingað til.

Það er á svona stundum sem... sem... sem... ég veit ekkert hvað ég ætla að segja.. hugurinn er bara að springa og ég veit ekki hvað ég er að segja.

En ein spurning.. hvar er Sigríður Tómasdóttir Kárahnjúka? Hvers vegna er hún ekki komin á sjónarsviðið? Erum við hætt að öðlast hugsjónir? Blöðrum við bara?

04 ágúst, 2006

Kárahnjúkar

Kárahnjúkar

Eina fríhelgin mín í ágúst fer í að keyra á Kárahnjúka og kíkja á þennan umtalaða stað. Ég hef ekki mikin tíma, eiginlega bara einn dag (laugardaginn) og ég þarf að nýta hann vel. Er einhver hér sem hefur farið á staðinn og getur lóðsað mig til? Hvaða vegi ég á að aka og hvar maður getur farið í göngutúra um svæðið.

Ég þarf að skipuleggja þetta ferðalag mjög vel og vonandi er einhver þarna sem getur leiðbeint mér.

03 ágúst, 2006

Fréttir: Hveragerðisbær og Eykt

Hveragerðisbær og Eykt

Þar sem mitt líf snýst um fréttir þessa dagana þá er best að ég fjall um eina frétt sem hefur vakið nokkurn áhuga hjá mér.

Inngangur
Hveragerðisbær gerði samning við Eykt ehf um að Eykt myndi fá lóð frá Hveragerðisbæ og byggja þar upp íbúðahverfi. Þeir þurfa ekki að borga neitt fyrir lóðina en sjá algerlega um alla gatnagerð, brúarbyggð og byggja fyrsta áfanga leikskóla sem verður á svæðinu. Fyrrverandi meirihluti gerði þennan samning og minnihlutinn (sjálfstæðisflokkurinn) kallaði þetta mestu mistök sem meirihluti hefur gert í Hveragerði. Þeir kærðu þennan samning til félagsmálaráðuneytisins sem úrskurðaði að samningurinn væri réttur og ætti að standa. Engin stjórnsýslulög hefðu verði brotin. Núna er verið að spá hvort að frekari kærur eiga að eiga sér stað eður ei.

Það sem vakti áhuga hjá mér.
Mér er nefnilega alveg sama um kærurnar og allt það dót og hvort að meirihlutinn hefði mátt gera þennan samning eður ei. Það sem vakti áhugann hjá mér var sú staðreynd að þetta er í fyrsta skipti þar sem íbúðabyggð að öllu leyti er í einkaframtaki. Hveragerðisbær mun taka við hverfinu eftir að það er fullbyggt. Þeir sjá ekki um gatnagerð, holræsagerð, rafmagnslínur eða þvíumlíkt. Þeir láta fyrirtækið Eykt sjá um þessi mál. Það má alveg deila um það hvort að Hveragerðisbær fari með skertan hlut frá þessum samningi eður ei. Það er margir hlutir með og á móti, rök eru nefnd sem aldrei eru svöruð og stundum er maður samála báðum rökunum. En þetta finnst mér vera áhugaverð tilraun. Tilraun til að láta einkafyrirtæki byggja upp íbúðabyggð með öllu tilheyrandi. Ég verð að játa að ef ég hefði verið Hveragerðingur þá væri ég samþykkur þessum samningi.

Nánari lesning
Samstarfssamningurinn á milli Eykt og Hveragerðisbæ
Fréttabréf Eyktar þar sem fjallað er um þennan samning
Frétt um viðbrögð minnihlutans við samningnum
Bæklingur sem Sjálfstæðisflokkur gerði um samningin
Fyrri umræða í bæjarstjórn um fundinn
Seinni umræða í bæjarstjórn um fundinn

01 ágúst, 2006

Ferðalag um England


Madonna


Á sunnudaginn missti ég af Sigur Rósar tónleikunum vegna þess að ég var staddur á öðrum tónleikum. Madonna var á Confession túr sínum og ég hafði ákveðið fyrir löngu að skella mér á þá. Gjörsamlega mögnuð upplifun. Eitt flottasta show á tónleikum sem ég hef horft á. Ég fékk líka strax á tilfinninguna að ég þyrfti að fjárfesta í DVD disk með þessu tónleikaferðalagi vegna þess að það var svo mikið að gerast á sviðinu að maður hreinlega gat ekki fylgst með öllu.

Tónleikarnir voru í Cardiff og það var ákveðið á síðustu stundu að leigja bíl og keyra á milli. Við gistum í Bristol, sem er fallegur háskólabær. Ég og kærastan vorum bílstjórar og mig minnti að ég hafði verið að keyra þarna um með honum Óla og Ella... en þegar ég er að hugsa betur um það þá held ég að ég hafi aldrei keyrt bílinn.. kannski tekið eitthvað smá í hann.. en það er ólíklegt þar sem það kostar sérstaklega að hafa fleiri en einn bílstjóra.. en ohhh well.. minnið er eitthvað fucked upp um þetta...

En anívei, við burruðumst um rúma 900 km (nánar tiltekið 578 mílur). Á leiðinni til Bristol var kíkt á Stonehenge og Bath. Gist var í tjaldi í tvær nætur og það gekk alveg ótrúlega vel. Bílaleigubíll og tjald.. góð blanda.

En hér er allavega mynd af leiðinni sem við fórum.

28 júlí, 2006

madonna

Ferðalag

Klukkan 16:10 í dag mun ég og kærastan leggja upp í ferð til Englands. Icelandair var svo vinsamlegt að samþykkja að ferja okkur til breska heimsveldisins þar sem eytt verður einhverjum tíma í að eltast við bandaríska poppsöngkonu sem ætlar að dvelja einhverja stund í einum stærsta íþróttaleikvangi Wales. Það var mjög svo auðvelt að fá lánaðan bíl hjá easy car og vegna fjárhagsstöðu þá var ákveðið að rifja upp hvernig tjaldið mitt ágæta virkar. Dvalið verður í London hjá frændfólki og síðan verður félagsskapur sóttur á Stansted þar sem sá verður nýkomin frá Danaveldi. Með þessu fríða föruneyti verður dvalist í Bristol. Við ákváðum síðan að brjóta eitt boðorð guðs eins og sjá mikið sjónarspil hjá gyðju einni næstkomandi sunnudag. Farið verður á téðum bíl til Cardiff í Wales.

Ákveðið hefur verið að Icelandair mun ferja okkur til baka til hversdagsleikans næstkomandi mánudag.

27 júlí, 2006

Reykjadalur

Reykjadalur nálægt Hveragerði

Náði þessari ágætri mynd af Ragga hjá litlum fossi sem var við endann á dalnum.

Skemmtileg ganga með fínun félagsskap. Posted by Picasa

26 júlí, 2006

Óskir

Mig langar

.... að það verði gott veður um helgina í Wales
.... í helling af peningum.. ég myndi líka sætta mig við að skattaskýrslan væri ekki svona pirrandi
.... að vera í Ásbyrgi 4. ágúst
.... til að klára til ritgerðina mína
.... skrifa heilsteypta grein í morgunblaðið sem einhver stjórnmálamaður myndi svara pirraður
.... að kasta eggjum í stjórnarráðið
.... í lóð á þessum stað
.... að lesa fables sögurnar allar aftur
.... að vera ekki geðveikur

25 júlí, 2006

Metró

Metrosexualism

Fyrir nokkrum árum heyrði ég þetta hugtak fyrst. Las einhverja pistla um það í blöðum og fannst það snilld. Fannst eins og ég hafði gripið um eitthvað sem var nálægt því að vera sannleikur og fegurð. Ég skyldi hugtakið þannig að þarna væri að tala um karlmann sem væri í tengslum við kvenmannshugtakið en án þess að hætta að vera karlmaður, þ.e.a.s að þarna væri karlmaður sem væri meðvitaður um tilfinningar, þarna væri karlmaður sem talaði um þær, var óhræddur við að sýna þær, hann hugsaði um útlit sitt, hárgreiðslu og húðina sína, er meðvitaður um að til að líða vel þá þurfi maður að vinna í því. En hann væri ennþá karlmaður. Væri ekki mjúki maðurinn sem vældi yfir öllu heldur væri hann meðvitaður um að stundum þarf maður að bíta á jaxlinn og vera harður. Ég túlkaði líka metró-inn sem einstakling sem taldi að kvenmenn væru jafningar sínir.

Mér finnst ég vera metró. Mér finnst ég vera tengdur tilfinningum (kannski allt of mikið), ég tala um tilfinningar (allt of mikið) og ég slúðra um vini og kunningja. Ég vil líka horfa á kvenfólk sem jafninga. En ég er samt ekki of mjúkur (vona ekki), get skipt um perur í ljósum, get sett upp skrifborð og neglt nagla í spýtu. Spýtt í lófana og gleypt tárin ef svo þarf á að halda.

En svo komu Gilzinagger og Partí-Hans og allir hinir á kallarnir.is (blessuð sé minning hennar) og sögðu að þeir væru Metrósexúal. Og það eina sem þeir gátu talað um var tan, að sprengja í kellingar, massa sig upp, nota meik, o.frv. Og ég er ekki svoleiðis. Svo þá hlaut það að vera að ég væri ekki metró.. væri bara áfram Jens sem væri bara örlítið skrýtin.

En núna er ég komin með nóg. Ég ætla bara vera áfram ég og þrátt fyrir að þessi búbbar skemmdu ímynd metró-ins fyrir mér þá ætla ég að tileinka mér metrósexúalismann. Fara oftar í klippingu, klippa oftar á mér neglurnar, hugsa um að það að fara í fótsnyrtingu, kaupa mér rakakrem og rækta líkamann o.s.frv.

Ég fór líka um daginn og keypti mér andlitssápu. Einhverja refreshing sápu sem á að bera í andlit tvisvar á dag, kvölds og morgna og er búin að vera brúka hana í nokkra daga. Virkar bara ágætlega á mig. En nei.. ég ætla ekki að ná mér í tan eða vera hel massaður.

20 júlí, 2006

Strætó


Hafið þið fylgst með umræðunni um strætó upp á síðkastið? Ja ég hef alla vega neyðst til að gera það vegna vinnunnar. Hún fer hrikalega í taugarnar á mér.

Strætó er fyrirtæki, sem fær góðan slatta af peningum frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkur leggur til 70% af fjármunum í þetta fyrirtæki og hefur þar af leiðandi 70% atkvæðishlut. Nú stefnir í yfir 300 milljóna króna hallareksturs og þar sem sveitarfélögin vilja ekki setja meiri pening í fyrirtækið þá neyðist það til þess að skera niður. Ákveðið var að leggja niður stofnleið 5 og hætta með akstur á 10 mínútna fresti.

Það er síðan komið svo mikið fjölmiðlafár í kringum þetta að það nær engri átt. Gísli Marteinn byrjaði með því að nöldra yfir þessu og ýjaði að því að Reykjavík réði engu, Dagur B kom og nöldraði og sagði þetta vera sjálfstæðismönnum að kenna, fulltrúi sjálfstæðisflokks kom og sagði að þetta hefði þurft vegna hallarekstur út af R-listanum og sagði að sjálfstæðisflokkurinn (þ.á.m Gísli Marteinn) vissi af þessum breytingu, síðan hefur framkvæmdarstjóri Strætó komið og varið þessar breytingar (aðallega sagt, engir meiri peningar frá sveitarfélögunum - niðurstaða verður niðurskurður), formaður stúdentaráðs komið og sagt þetta vera hneyksli, o.s.frv.

Hvað gerist við þessar breytingar? Jú strætó á 10 mínútna fresti var eitthvað sem var þægilegt. Ég mundi samt aldrei hvenær á hvaða tíma það var. Og árbærinn þarf að skipta um strætó. Og það mun 3 mínútum á milli að fara frá árbæjarskóla í H.Í. (samkvæmt ráðgjafanum á bus.is.)

Og nú er verið að tala um að slíta samstarfinu. Björn Ingi segir það mögulegt og Vinstri grænir ætla leggja tillögu um það. BULL. Verður það eitthvað ódýrara að splitta þessu aftur? Nei. Hvað þarf? Meiri pening? Vill fólk setja meiri pening í þetta? Nei..

Hvað er þá málið? Það er djöfulsins pólitík. Strætó er þjónustufyrirtæki sem er í hatrammri baráttu við einkabílinn og hann er að tapa. Breytingarnar á leiðarkerfinu voru nokkuð góðar, það voru stórir gallar á því en í megindráttum þá var þetta breytingar til batnaðar. Ekki eins mikill asi á bílstjórum, auðveldara að komast í Háskólann og um alla höfuðborgina. Jú ég held að það hafi hallað smá á Reykvíkinga. En ekki svo mikið. Nú eru menn að nota þennan nauðsynlegan niðurskurð til þess að vekja athygli á sér.

Réttast væri að spyrja Gísla Martein um hvort hann hafi ekki spurt sinn tengilið inní strætó út þennan niðurskurð, rétt væri að spyrja Dag B. Eggertsson hvort hann hafi ekki vitað af þessum hallarekstri, rétt væri að spyrja alla borgarstjórnina hvort að þeir vilji ekki leggja meiri pening í þetta fyrirtæki, réttast væri að spyrja formann stúdentaráðs hvort hann noti yfirleitt strætó.

Síðan er Strætó bs. ekki beint fyrirtæki heldur byggðasamlag eða eitthvað álíka. Það er stjórn sem er valin af sveitarfélögum til þess að halda utan um þetta batterí og síðan er ráðin framkvæmdarstjóri. Ef sveitarfélögin treysta ekki sínum manni innan fyrirtækisins fyrir þessum verkum þá ættu þeir að skipt um mann. Ef þeir treysta ekki framkvæmdastjóranum þá ættu þeir að reka hann og ráða nýjan. Ekki fara með þessa umræðu í fjölmiðla, það eina sem þeir fá út úr því er að sverta nafn Strætó og það er eitthvað sem er ekki þörf á.

Vinnutörn

Vinnutörn og skipulagning

Fyrir mörgum árum síðan var sagt að ég væri skipulagslaus. Ég fann fyrir því að mér væri ekki treyst fyrir peningamálum og það var alltaf verið að minna mig á ýmsa hluti. Ég fann sjálfur fyrir því að ég átti nokkuð erfitt með að skipuleggja ýmis mál og þá sérstaklega peningamál. Sú skipulagning varð oftast í því formi að borga reikninga og svelta síðan.

En nú hefur einhver breyting orðið.

Tökum sem dæmi. Þessa dagana er ég að vinna geðveikt mikið. Að meðaltali 12 tíma á dag. Stundum er ég að vinna 14 tíma. Eins og það gefur að skilja þá er ekki mikill frítími. En næstu helgi er ég búin að skipuleggja alla helgina. Alveg út í hörgul.

Dagskráin er svona.
Föstudagur
07:30 - 16:00 - Vinna í hlöðunni
16:00 - 18:00 - Lesa og ferðast yfir í hina vinnuna.
18:00 - 20:00 - Mæta í FMV og gera meginhluta sex frétta.
20:00 - 24:00 - Horfa á Supernatural og vonandi drekka viskí (efast um að það gerist samt, vegna bílnotkunar.
00:30 - 09:00 - Svefn
Laugardagur
09:30 - 14:30 - Vinna í hlöðunni, ryksuga þjóðdeild (lestrarsal) og klára að rita kvöldfréttirnar sem voru daginn áður.
14:30 - 16:30 - Klára að rita kvöldfréttir. Eftir það er smá frí. Vonandi verður skellt sér í sund.
18:30 - 19:20 - Mæta á FMV og byrja á NFS fréttunum.
20:00 - ? - Spilað Hunter í umsjón Halla D. Ef hann klikkar þá mun ég reyna stjórna Mage.
Sunnudagur
Vaknað klukkan ??.
Frá 13:00 - X - klárað NFS fréttir frá deginum áður.
18:00 - 23:30 - FMV. Klárað kvöldfréttir sjónvarps og útvarps.

Peningamáli eru í góðum málum. Er búin að setja upp 3 mánaða fjárhagsáætlun sem ég var að prófa þennan mánuð til þess að sjá hvort að hún virkaði. Júlí mánuður gengur mjög vel og þrátt fyrir að hafa farið aðeins yfir áætlunina hafi ekki staðist (eytt talsvert meira í dót en ég ætlaði mér) en ég sé fram á það að ágúst mánuður verður mjög ljúfur (peningalega séð).

Ég veit að Hallur myndi kalla mig anal. Get ekki neitað því að ég skil hann svo sem, en satt að segja þá finnst mér ákveðið öryggi falið í því að vita peningastöðuna sína svona eitthvað fram í tímann. Og jafnvel með því þá ætti ég að geta borgað alla skuldir og verið með ágætan afgang í mars á næsta ári (einu ári eftir að ég var í sumarbústað að setja upp planið mikla).