15 september, 2006

Að drepa dýr

Að bjarga eða deyða

Þegar ég var að vinna upp í Sorpu þá lenti ég í atviki sem skildi eftir sig ákveðin ör. Ég fann fuglsunga, sem hafði augljóslega lent í hremmingum og hann var væng og fótbrotinn. Ég hlúði að honum en það var augljóst að hann var að deyja og var í miklum þjáningum. Eftir að hafa hlustað á að réttast væri að snúa honum úr hálsliðnum til þess að ljúka á þjáningar hans þá gerði ég það. Ég sneri hann úr hálsliðnum og hlustaði á beinin í hálsinum hans brotna. Fann fyrir titringnum í litla búknum hans og síðan tilfinningunni sem ég fékk þegar hann hætti að hreyfa sig og anda.

Allir nema einn sögðu að ég hafði gert það eina rétta í stöðunni. Þessi eini sagði við mig "þú lékst guð, kannski hefði hann lifað, kannski hefði hann dáið, það veit engin en þú tókst ákvörðun fyrir hann".

Það var rétt hjá honum, ég hafði engan rétt til þess að murka úr honum lífið. Ég hefði átt að hlúa að honum, setja hann í skókassa og sjá hvort að hann myndi lifa af. Nú ef ekki þá hefði það bara verið þannig.

Eftir þetta þá hef ég aldrei drepið nein dýr. Ég slæ ekki til flugna sem eru að pirra mig eða drep kóngulær sem eru að skríða á mér. Ég hendi þeim út og veiði þær flugur sem eiga ekki að vera inni í íbúðum manna.

Ég borða dýr, get ekki neitað því og skammast mín ekkert fyrir það. En ég drep þau ekki sjálfur og ég efast ekki um það að ég myndi hætta að borða kjöt ef ég þyrfti að drepa dýrin sjálfur.

En jæja, fyrir nokkrum viku síðan þá var ég að vinna í þjóðarbókhlöðunni þegar annar starfsmaður benti mér á fugl sem sat hreyfingarlaus og það væri hægt að snerta hann. Ég gekk að fuglinum og það var rétt, ég gat tekið hann upp og klappað honum. Hann virtist anda hratt, vera óbrotin en var alveg við varnarlaus gagnvart öllum sem komu að honum. Ég fór með hann inná vinnusvæði mitt og spjallaði gamalreynda menn. Einn sagði við mig að það væri örugglega vaxið yfir gotrauf hans og það þyrfti bara að hreinsa það. Ég fann eina fjöður sem var eitthvað skrýtin og tókst að losa hana eftir smá tog og snúning. Strax og ég losaði hana þá skeit fuglinn á mig og varð strax hress. Ég lét taka mynd af okkur saman og síðan flaug hann á brott.

Verð að játa að það var stórkostleg tilfinning þegar ég horfði á eftir fuglinum. Örugglega álíka góð og tilfinning sem ég fékk þegar ég tók líf hins fuglsins var slæm.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli