28 september, 2006

Hálslón

Hálslón er að verða til


Jæja þá er þetta að fara skella á. Tappinn var líklega settu í Jöklu í morgun klukkan níu og byrjað er að safna í Hálslón. Töfrafoss, Kringilsárrani og fleiri staðir eru að hverfa.

Það er smá tími ef þið nennið að skjótast þangað í vetur eða strax næsta vor. En eftir það er tækifærið búið.

Þeir sem lásu greinina mína vita að ég er ekki sammála honum Ómari Ragnarssyni. Að mínu áliti átti löngu búið að gera þetta að þjóðgarði og það er skömm af því að það hafi ekki verið gert. En að bjarga svæðinu sem er þegar skemmt og gefa Álverinu rafmagn frá öðrum stað? Það finnst mér ekki sniðugt. Frekar að sprengja þetta álver í tætlur og halda áfram að virkja.

En svona er lífið.

Það eru samt skemmtilegir tímar framundan. Ég segi að þetta eigi eftir að vera eitt mesta hitamál í kosningunum á næsta ári. Það er verði að stefna á það að byggja eitt álver í viðbót og stækka þau sem fyrir eru. Sem þýðir meira rafmagn og fleiri virkjanir.

Það ætti alls ekki að gerast fyrr en við fáum að vita alla hluti á bakvið. Verð sem álver fá fyrir rafmagn, hvað svona framkvæmdir kosta o.s.frv. Annað er bara rugl.

Mér flaug í hug fyrir stuttu að til þess að tefja fyrir fyllingu lónsins var að skella upp tjaldi á eitthvað svæði sem færi undir kaf fljótlega og bíða þar. Af hverju er engin að gera það?

Hef ég sagt ykkur að ég elska Google? Þeir hafa sett upp í tenglsum við Picasa mjög flott vef albúm sem ég hef strax nýtt mér. Sjá afrakstur hérna til hægri (frá þér séð, ekki síðunni.. þá segir maður til vinstri).

Kárahnjúkar
Aug 18, 2006 - 46 Photos


Posted by Picasa

26 september, 2006

Síðustu dagar lífs míns

Þann 21. október 2004 fékk ég tölvupóst frá kennara þar sem hann bað mig um að útlista helstu hugmyndir mínar varðandi B.A ritgerðina. Klukkan 12:32 í dag sendi ég svarið. Ég fór yfir u.þ.b 40 heimildir um kynfræðslu og árangur hennar og tókst að smiða eitthvað út úr því. Veit ekki hvort að ritgerðin sé raunhæf en það kemur bara í ljós.

Ég er byrjaður að rita sögu sem ég kalla "að handan" vísindaskáldsögu þar sem ég velti upp mínum hugmyndum um framtíðina. Dreymdi draum um daginn þar sem ég sá inní framtíðina og sagan er upp úr þeim draum. Er enn að móta söguna og hugmyndina bakvið hana.

Er nokkuð sáttur við vinnuna á fjölmiðlavaktinni. Þetta er allt að smella saman, launabullið sem var í gangi er komið í lag (mismunandi útreikningur á tímafjölda kom upp).

Næstu helgi er ég að fara á Sauðárkrók til að hitta vinkonu kærustunnar. Verð nú að segja að það er komin nokkur tilhlökkun í mig, fara út á land með henni og síðan er eitthvað djamm á laugardeginum en annars verður þetta bara hangs. Alltaf gaman að hangsi.

Dreymdi skemmtilegan draum í nótt þar sem ártúnhöfði var að fara gjósa og ég hafði fattað það og tók þá ákvörðun að koma mér hið snarasta í burtu og vara við kærustuna og ættingjana mína en ekki neinn annan þar sem ég vissi að allt mundi fara í fokk ef ég myndi gera það og líkurnar á því að ég myndi bjarga sjálfum mér myndu minnka töluvert.

22 september, 2006

Stúdentablaðsgreinin

Hefur þú lesið stúdentablaðið?

Eins og glöggir lesendur sjá þá minntist Kristinn á það að það sé grein eftir mig í Fréttablaðinu í dag. Það er nánartiltekið í stúdentablaðinu.

Nafnið á greininni er "hefur þú farið til kárahnjúka?" og þar er ferðasaga mín þegar ég dröslaði nokkrum upp að þessum stað. Og allar hugrenningar mínar í kringum þá ferð og þessa framkvæmd.

3 myndir flutu með þessari grein, Töfrafoss, Kárahnjúkastífla og Álverið. Þegar ég kíkti á ritstjórann þá sá ég að þeir voru búin að setja myndina þar sem ég sit við Töfrafoss í staðin fyrir myndina þar sem Töfrafoss var einn. Það var svo sem í lagi. Síðan þegar ég opnaði blaðið í morgun þá sá ég að það var búið að stækka hana þónokkuð. Hún nær yfir hálfa blaðsíðu. Sjit... nú hugsa allir að ég sé rosa hégómagjarn og hefði beðið um þetta... en svo var ekki.. þó að nokkur hugsunarskeyti hafi farið af stað.

3 hafa hrósað mér fyrir greinina og ég er sjálfur nokkuð sáttur við hana. Eflaust eru einhverjar staðreyndavillur og ég er nokkuð viss um að ég á eftir að fá aulahroll yfir lok greinarinnar eftir einhvern tímann en það verður bara að hafa það.

Ég fékk smá hnút í gær þegar ég opnaði blaðið og sá greinina. Fékk ekki beint áhyggjur.. var svona spenntur með hvort að ég myndi fá einhver viðbrögð og kveið smá fyrir hvaða viðbrögð ég myndi fá. Ég hugsa að þetta sé fyrsta sem birtist eftir mig á prenti (fyrir utan ljóðin sem ég setti í ljóðabók F.B. sem ég fékk aldrei að sjá!). Eins og allir vinir mínir vita þá hefur mér alltaf langað að gefa út eitthvað á prenti. Ég veit í dag að ég er alls ekki með neina ofurhæfileika á því sviði en þetta er ákveðin draumur sem hefur fylgt mér í gegnum tíðina og þótt að grein í stúdentablaðið sé kannski ekki stór hlutur fyrir suma þá fullnægði þessi opna ákveðna þörf sem ég hef oftast fengið útrás fyrir á þessari vefsíðu.

Ég er sáttur og ef þið hafið einhver jákvæð komment á greinina þá skuluð þið skella þeim bara hér í comment kerfið. Ef þið hafið ábendingar eða neikvæðar athugasemdir þá er netfangið mitt simplyjens at gmail punktur com.

19 september, 2006

Greys anatomy

Imbakassinn

Oftast þá er ég ekki mikið fyrir sjónvarp. Hef fundist að ég hef nóg annað við minn tíma að gera heldur en að hanga og glápa á kassann. Ég hef stundum dottið inní vissar sjónvarpseríur (24, lost, C.S.I, survivor, judging amy, ER, star trek o.fl.) en það er oftast vegna þess að maður fær ákveðin félagsskap með því að horfa á þetta, spjall um sjónvarpsþættina og maður horfir á þættina með einhverjum ákveðnum aðila. Gott dæmi um þetta er Supernatural sem ég horfi á með vini mínum, honum Gissuri og stundum kemur Halli L og glápir með okkur.

En það er einn sjónvarpsþáttur sem ég er orðin háður. Það er spítaladramað Grey´s Anatomy. Þessir þættir láta mig öskra á meira gláp, er verri vegna þessa þátta heldur en þegar ég horfi á 24.

En hvað er við þessa þætti sem gera mig háðan? Það er einfalt svar við því. Það er rosalegt drama í þáttunum, persónu drama. Þeir skapa trúverðugar persónur. Það er eitt það sterkasta við þættina. Þeir eru líka óhræddir við að láta þróun gerast í þáttunum. Fólk verður ástfangið, fólk ríður, lendir í rifrildum, slagsmálum, er skotið, verður reitt o.s.frv. Og það sem meira er.. að mínu áliti þá er þetta trúverðugt.

Þetta er ekki þáttur þar sem áherslan er á skurðaðgerðir og eitthvað tengt þeim, heldur um dramað sem verður í kringum aðgerðirnar og tilfinningarnar sem eru tengdar þeim. Það er engin persóna sem fer í taugarnar á mér í þessum þáttum. Það er lagt gríðarlega mikið í þessa þætti, samtölin, flækjurnar og aðstæðurnar eru yndislegar. Það má segja að í 18 þætti í seríu tvö þá er ein flottasta sprenging sem ég hef séð í sjónvarpi, tæknilega mjög vel unnin og ótrúlega spennandi aðstæður.

Mín uppáhalds persóna er Dr. Christina Yang sem Sandra Oh leikur. Metnaðargjörn, tilfinningalaus karakter, læknir sem á bara að vera bakvið skurðarborð en ekki fyrir framan fólk, sterk kvenpersóna, sem á sínar mjúku hliðar og er mannleg.

Mér finnst líka Georg O´Maley frábær, mjúki maðurinn í hópnum, tifinninganæmur, mannlegur en er samt svo sterkur þegar skíturinn lendir í viftunni að það hálfa væri nóg.

Dr. Alex Karev vinnur á rosalega í annarri seríu. Þessi breidd tilfinninga sem hann sýnir er frábær, djúpur karakter sem felur hafsjó tilfinninga á bakið stóra testósterón grímu.

Í heildina litið þá er þetta, að mínu áliti, einn sá besti sápuóperuþáttur sem búin hefur verið til.

15 september, 2006

Að drepa dýr

Að bjarga eða deyða

Þegar ég var að vinna upp í Sorpu þá lenti ég í atviki sem skildi eftir sig ákveðin ör. Ég fann fuglsunga, sem hafði augljóslega lent í hremmingum og hann var væng og fótbrotinn. Ég hlúði að honum en það var augljóst að hann var að deyja og var í miklum þjáningum. Eftir að hafa hlustað á að réttast væri að snúa honum úr hálsliðnum til þess að ljúka á þjáningar hans þá gerði ég það. Ég sneri hann úr hálsliðnum og hlustaði á beinin í hálsinum hans brotna. Fann fyrir titringnum í litla búknum hans og síðan tilfinningunni sem ég fékk þegar hann hætti að hreyfa sig og anda.

Allir nema einn sögðu að ég hafði gert það eina rétta í stöðunni. Þessi eini sagði við mig "þú lékst guð, kannski hefði hann lifað, kannski hefði hann dáið, það veit engin en þú tókst ákvörðun fyrir hann".

Það var rétt hjá honum, ég hafði engan rétt til þess að murka úr honum lífið. Ég hefði átt að hlúa að honum, setja hann í skókassa og sjá hvort að hann myndi lifa af. Nú ef ekki þá hefði það bara verið þannig.

Eftir þetta þá hef ég aldrei drepið nein dýr. Ég slæ ekki til flugna sem eru að pirra mig eða drep kóngulær sem eru að skríða á mér. Ég hendi þeim út og veiði þær flugur sem eiga ekki að vera inni í íbúðum manna.

Ég borða dýr, get ekki neitað því og skammast mín ekkert fyrir það. En ég drep þau ekki sjálfur og ég efast ekki um það að ég myndi hætta að borða kjöt ef ég þyrfti að drepa dýrin sjálfur.

En jæja, fyrir nokkrum viku síðan þá var ég að vinna í þjóðarbókhlöðunni þegar annar starfsmaður benti mér á fugl sem sat hreyfingarlaus og það væri hægt að snerta hann. Ég gekk að fuglinum og það var rétt, ég gat tekið hann upp og klappað honum. Hann virtist anda hratt, vera óbrotin en var alveg við varnarlaus gagnvart öllum sem komu að honum. Ég fór með hann inná vinnusvæði mitt og spjallaði gamalreynda menn. Einn sagði við mig að það væri örugglega vaxið yfir gotrauf hans og það þyrfti bara að hreinsa það. Ég fann eina fjöður sem var eitthvað skrýtin og tókst að losa hana eftir smá tog og snúning. Strax og ég losaði hana þá skeit fuglinn á mig og varð strax hress. Ég lét taka mynd af okkur saman og síðan flaug hann á brott.

Verð að játa að það var stórkostleg tilfinning þegar ég horfði á eftir fuglinum. Örugglega álíka góð og tilfinning sem ég fékk þegar ég tók líf hins fuglsins var slæm.

12 september, 2006

Sjálfsálit

Sjálfsálitið er gott

Mér líður yndislega þessa dagana. Mér finnst ég vera sterkur og snöggur, limafagur og fríður. Með mjúka og fallega húð, vel greitt og yndisfrítt hár. Vel klæddur og smekklegur.

Ég hef brennandi áhuga á því sem ég er að gera. Hef mikla orku sem hefur nýst í það að skrifa grein um Kárahnjúka (sem birtist í stúdentablaðinu), lesið 40 vísindagreinar um kynfræðslu og hef áhuga á því að sökkva mér enn meira í þau fræði.

Hvað hefur breyst? Jú ég er komin með kærustu, kvíðin er horfin, ég hef misst nokkur kíló og hef hreyft mig talsvert í sumar.

Kærastan er auðvitað stór hluti af þessari sterku og stóru sjálfsáliti, það er engin spurning og ég vona bara að ég geti borgað það til baka á einhvern hátt.

En það er meira. Maður á ekki að láta sér líða vel bara vegna þess að maður á góða konu. Það á að hjálpa til en ekki meira. Maður á að finna þetta innra með sér. Maður á sjálfur að vera á toppi leiksins (top of the game.. er einhver með betri lýsingu á þessu). Ef hjálpardekkið fer af hjólinu þá á maður samt að geta hjólað áfram.

Mér líður vel og ég vona að flestir sem eru í kringum mig sjái það og finni og ég vona að ég smiti sem flesta í kringum mig.

11 september, 2006

11.september

Hugleiðingar um 11. september

Er ekki gott að fjalla aðeins um 11. september á þessu 5 ára afmæli. Það vita auðvitað allir um hvað ég er að tala um er það ekki?

Ég var nefnilega að lesa um daginn bókina confederacy of Dunces eftir Garth Ennis. Þetta er 6 bókin í þessum flokki og mér hefur alltaf fundist hún síst. Svo sem áhugaverð hugmynd þar sem 3 miklar hetjur fara saman á eftir aðalsöguhetjunni, sem er mikil andhetja. Mér finnst þetta voðaleg klisja og það er svona auðveldar lausnin í henni.

En já, hann Garth Ennis byrjaði að rita þessar sögur árið 2000 og í enda fyrsta kafla fyrstu bókarinnar "welcome back Frank" þá stendur aðalstöguhetjan upp á Empire States byggingunni og kastar einhverjum mafíósa niður af byggingunni. Hann horfir síðan yfir New York og finnst eins og borgin sé að gleðjast yfir því að hann skuli vera komin aftur.

Garth Ennis skóp ekki þessa hetju heldur tók hann við henni eftir að hún var búin að veltast um í þessum sagnabálki. Hafði verið valin af englum til að hreinsa upp einhverja djöfla og farin að drepa fólk fyrir einhverja smáhluti. Hann Garth gerði mjög góða hluti með þessa persónu og byrjaði einfaldlega á því að fara aftur í grasrótina (to the basics). Og gerði það mjög vel.

En já, eins og ég var að segja þá var ég að lesa 6 bókina og í endanum á þeirri bókinni i þá stendur Frank upp á Empire States byggingunni og gerir sig tilbúin til að kasta einhverjum skítbuxa niður af byggingunni. Hann á við sig svona innbyrðis dialógíu sem mér fannst mjög skemmtileg og afskalega áhugaverð sérstaklega þar sem í dag er 11. september. Hann Garth skrifaði þennan texta árið 2005.

Four years ago Fjögur ár eru liðin
The view was diferent then sjóndeildarhringurinn var annar þá
I remember the day the Towers came down, not for all the sound and fury, not for the streets awash with smoke, but for the looks on the faces of the people I man daginn sem Turnarnir hrundu, ekki vegna hávaðans og reiðinnar, ekki vegna reyksins sem fyllti göturnar, heldur fyrir svip fólksins
The stricken horror of innocence killed stone dead hræðslusvipin af sakleysi sem var steindrepið
See? I thougt Sjáið? hugsaði ég
See now? Sjáið núna?
See what the world is really like sjáið hvernig heimurinn í raunni er?
The City now, it knew borgin, hún vissi
It had known all along hún hafði vitað allan tíman
For a moment I ssem to hear it talking í eitt augnablik þá virtist mér hún tala
Frank, It says, Don´t ever go away again Frank, segir hún , Þú skalt aldrei fara í burtu aftur
But I´m not going anywhere en ég er ekki að fara neitt
I need you, Frank ég þarfnast þín Frank
Says New York City Segir New York borg
Always did like this town (mér líkaði alltaf vel við þessa borg

Snilldar texti. Og mætti kannski segja að stjórn Bandaríkjanna hafi tekið söguhetjuna Frank Castle sér til fyrirmyndar í eftirleik 11. september 2001.

08 september, 2006

Kynfræðsla í USA

Vissuð þið það að til þess að fá styrk frá "federal" stjórnkerfinu í USA þá þarftu að uppfylla vissar kröfur. Þær eru:

Jæja ég verð að játa að mér finnst þetta algerlega út í hött. Svo fáranlegt að það hálfa væri nóg.

07 september, 2006

Að læra

Ég stillti klukkuna á níu í morgun. Hún hringdi og ég ýtti ekki á snooze heldur slökkti á henni og lá og hugsaði. Hafði dreymt eitthvað bull og var eitthvað down. ég ákvað að vera heima og lesa greinar sem ég hafði verið að sanka að mér um kynfræðslu. Ég las blogg, reyndi að skrifa eitt stykki rafraus en tókst illa, kláraði punisher bókina sem ég hafði verið að lesa í gær og lá lengi upp í rúmi.

Ákvað síðan að fara í sturtu og þá hringdi kærastan. Hitti hana í hádegismat og skrapp síðan niður í kringlu til að versla. Keypti einhverja hluti og fór síðan heim. Er núna búin að vera lesa greinar um kynfræðslu í einn og hálfan tíma.

Ég er með feitt samviskubit. Finnst ferlegt að ég sé búin að eyða deginum í það að hanga í stað þess að læra. En ég hef einhvern vegin ekki löngun til þess að gera það núna. Er að spá í það að hætta að þykjast og fara að lesa bókina sem ég fékk lánaða í gær frá Rósu, kærustu Gissurs.

Veit að þetta gengur ekki. Hef ákveðið að vakna fyrr á morgun og vera komin upp á þjóðarbókhlöðu eins snemma og ég treysti mér til (ætlaði að segja klukkan átta, en maður a ekki aðlofa einhverju sem er mjög ólíklegt að maður standi við). Get alveg sofið bara í hlöðunni ef ég verð eitthvað þreyttur.

Annars tókst mér að ná yfir 30 heimildum í gær og er búin að lesa 5 greinar og í gegnum þær þá hefur mér tekist að fá vísbendingar í góðar greinar.

06 september, 2006

S24

Ég ákvað fyrir nokkru að fá mér nýtt debetkort hjá S24 þar sem þeir eru með lægstu vextina á yfirdrætti, þar sem skattstofan tókst að týna skattaskýrslunni minni þá þarf ég að vera með yfirdráttin aðeins lengur.

Ekkert mál. Fylli út eyðiblöð á netinu og volla! Fæ svar tveimur dögum seinna um að nýtt og fallegt debetkort bíði eftir mér hjá aðalstöðvum þeirra. Ég hef ekki tíma til að sækja það strax svo það bíður þar í 2 vikur. Ég mæti svo í morgun til að þess að sækja það.

Debetkortið er þar tilbúið en... ég fæ það ekki afhent fyrr en ég sýni persónuskilríki sem gefið er út af opinberum aðila. Þ.e.a.s vegabréf, ökuskirteini eða nafnskirteini. Þar sem ég geng ekki með vegabréfið á mér og ökuskirteinið er í hinu kortaveskinu (og það er í bílnum hans Haralds Leifsföður) þá var ekki hægt að afhenta mér debetkort sem gefið var út handa mér, með mynd af mér, með mína undirskrift og minni kennitölu.. þrátt fyrir að ég hafði í höndunum alveg eins skirteini með sömu mynd og undirskrift.

"það eru nýjar reglur, sjá sbv.is"

Ekki tel ég mig vera lögfróðan mann, en hvernig í andskotanum mun það stoppa fjármögnun hryðjuverka og peningaþvott ef það er að spyrja mig um persónuskilríki sem gefin er út af opinberum aðila?

"Þetta er gert vegna öryggis þíns"

Arrrghh.. var orðin pirraður þegar litla, unga, sæta, saklausa afgreiðsludaman stamaði þetta út úr sér.. bað ég um það að það væri gert meira til öryggis.. sérstaklega bað ég ekki um að meiri óþægindi yrðu sköpuð handa mér. Hverju breytir það að ég haldi á debetkorti frá Íslandsbanka eða ökuskirteini? Hver er grundvallarmunur á milli þessara tveggja skirteina?

Ég varð djöfulli pirraður vegna þessa en ákvað að urra ekki á stelpuna þar sem hún var bara að fylgja reglum sem hún hafði engan skilning á og bað um að þeir myndu senda mér þetta í ábyrgðarpósti. Vegabréfið mitt er heima hjá mér.

04 september, 2006

Í gær þá spilaði ég

Ég mundaði riffilinn og hafði hann í sigtinu. Bílinn hægði á sér og maðurinn stóð gleiður, glannalegur með glott á vörum.

Hann hélt á skammbyssu, ekki stórri sýndist mér en eflaust væri hann alveg ágætur í því að nota hana. Bílinn stoppaði og ég heyrði Gus og Jonathan opna hurðirnar og stíga út. Sá útunda hjá mér að Jonathan hafði fyrir því að klæða sig í brynjuna.

Gus drap á bílnum og það eina sem lýsti upp svæðið voru bílljósin á bílnum okkar. Bíllinn sem hann stóð hjá var ljóslaus og það voru engin ljós í húsbílnum.

En húsbílinn hreyfðist... ruggaði svona til hliðar. Ég leit á glott mannsins, og hvernig hann hélt á skammbyssunni og það var ekki efi í mínum huga þegar ég tók í gikkinn á riflinum og skaut hann tveimur skotum.

Verst að hann hætti ekki að hreyfa sig fyrr en að ég hafði klárað skotin úr rifflinum á hann og Gus hafði höggið höfuðið af honum með sveðju.

óvissuhelgi

Óvissuhelgi

Ég vissi aldrei hvað var að gerast. Henni tókst alltaf að vera skrefi á undan og hún á hrós skilið fyrir það. Ég giskaði stundum á rétta hlutin en henni tókst alltaf að halda andlitinu.

Við fórum á skauta og síðan upp í bústað, rómtantískur kvöldverður við arineld (kamínueld). Hollur og góður morgunverður, göngutúr upp að Glym í Hvalfirði (sem ég var mjög sáttur við) og síðan í sund. Matur á Tapas og síðan heim upp í rúm.

Kíktum síðan í Brunch til Ástu frænku.

Þrælskemmtileg helgi sem verður erfitt að toppa... en ég mun reyna.

Þakka kærlega fyrir mig.

01 september, 2006

stefnumót

Stefnumót

Fyrir nokkrum vikum þá bauð ég kærustunni á stefnumót og það var mjög skemmtilegt kvöld. Hún sagðist ætla að taka að sér að skipuleggja næsta kvöld okkar.

Það er að fara í hönd þessa helgi. Ég hef verið nokkuð ómeðvitaður um hvað hún hefur verið að skipuleggja og veit ekkert hvað er í vændum.

En ég var kallaður í upplýsingaborðið fyrir nokkrum mínútum vegna "konu sem vill hitta þig". Þarna stóð kvennmaður sem ég kannaðist við en hafði aldrei séð áður. Hún rétti mér blóm sem á var fast á mynd og texti. Frá kærustunni.

Það er nú ekki oft sem ég roðna.....

Nú er maður bara að velta því fyrir sér hvað hún tekur sér næst fyrir hendur.