28 júlí, 2006

madonna

Ferðalag

Klukkan 16:10 í dag mun ég og kærastan leggja upp í ferð til Englands. Icelandair var svo vinsamlegt að samþykkja að ferja okkur til breska heimsveldisins þar sem eytt verður einhverjum tíma í að eltast við bandaríska poppsöngkonu sem ætlar að dvelja einhverja stund í einum stærsta íþróttaleikvangi Wales. Það var mjög svo auðvelt að fá lánaðan bíl hjá easy car og vegna fjárhagsstöðu þá var ákveðið að rifja upp hvernig tjaldið mitt ágæta virkar. Dvalið verður í London hjá frændfólki og síðan verður félagsskapur sóttur á Stansted þar sem sá verður nýkomin frá Danaveldi. Með þessu fríða föruneyti verður dvalist í Bristol. Við ákváðum síðan að brjóta eitt boðorð guðs eins og sjá mikið sjónarspil hjá gyðju einni næstkomandi sunnudag. Farið verður á téðum bíl til Cardiff í Wales.

Ákveðið hefur verið að Icelandair mun ferja okkur til baka til hversdagsleikans næstkomandi mánudag.

27 júlí, 2006

Reykjadalur

Reykjadalur nálægt Hveragerði

Náði þessari ágætri mynd af Ragga hjá litlum fossi sem var við endann á dalnum.

Skemmtileg ganga með fínun félagsskap. Posted by Picasa

26 júlí, 2006

Óskir

Mig langar

.... að það verði gott veður um helgina í Wales
.... í helling af peningum.. ég myndi líka sætta mig við að skattaskýrslan væri ekki svona pirrandi
.... að vera í Ásbyrgi 4. ágúst
.... til að klára til ritgerðina mína
.... skrifa heilsteypta grein í morgunblaðið sem einhver stjórnmálamaður myndi svara pirraður
.... að kasta eggjum í stjórnarráðið
.... í lóð á þessum stað
.... að lesa fables sögurnar allar aftur
.... að vera ekki geðveikur

25 júlí, 2006

Metró

Metrosexualism

Fyrir nokkrum árum heyrði ég þetta hugtak fyrst. Las einhverja pistla um það í blöðum og fannst það snilld. Fannst eins og ég hafði gripið um eitthvað sem var nálægt því að vera sannleikur og fegurð. Ég skyldi hugtakið þannig að þarna væri að tala um karlmann sem væri í tengslum við kvenmannshugtakið en án þess að hætta að vera karlmaður, þ.e.a.s að þarna væri karlmaður sem væri meðvitaður um tilfinningar, þarna væri karlmaður sem talaði um þær, var óhræddur við að sýna þær, hann hugsaði um útlit sitt, hárgreiðslu og húðina sína, er meðvitaður um að til að líða vel þá þurfi maður að vinna í því. En hann væri ennþá karlmaður. Væri ekki mjúki maðurinn sem vældi yfir öllu heldur væri hann meðvitaður um að stundum þarf maður að bíta á jaxlinn og vera harður. Ég túlkaði líka metró-inn sem einstakling sem taldi að kvenmenn væru jafningar sínir.

Mér finnst ég vera metró. Mér finnst ég vera tengdur tilfinningum (kannski allt of mikið), ég tala um tilfinningar (allt of mikið) og ég slúðra um vini og kunningja. Ég vil líka horfa á kvenfólk sem jafninga. En ég er samt ekki of mjúkur (vona ekki), get skipt um perur í ljósum, get sett upp skrifborð og neglt nagla í spýtu. Spýtt í lófana og gleypt tárin ef svo þarf á að halda.

En svo komu Gilzinagger og Partí-Hans og allir hinir á kallarnir.is (blessuð sé minning hennar) og sögðu að þeir væru Metrósexúal. Og það eina sem þeir gátu talað um var tan, að sprengja í kellingar, massa sig upp, nota meik, o.frv. Og ég er ekki svoleiðis. Svo þá hlaut það að vera að ég væri ekki metró.. væri bara áfram Jens sem væri bara örlítið skrýtin.

En núna er ég komin með nóg. Ég ætla bara vera áfram ég og þrátt fyrir að þessi búbbar skemmdu ímynd metró-ins fyrir mér þá ætla ég að tileinka mér metrósexúalismann. Fara oftar í klippingu, klippa oftar á mér neglurnar, hugsa um að það að fara í fótsnyrtingu, kaupa mér rakakrem og rækta líkamann o.s.frv.

Ég fór líka um daginn og keypti mér andlitssápu. Einhverja refreshing sápu sem á að bera í andlit tvisvar á dag, kvölds og morgna og er búin að vera brúka hana í nokkra daga. Virkar bara ágætlega á mig. En nei.. ég ætla ekki að ná mér í tan eða vera hel massaður.

20 júlí, 2006

Strætó


Hafið þið fylgst með umræðunni um strætó upp á síðkastið? Ja ég hef alla vega neyðst til að gera það vegna vinnunnar. Hún fer hrikalega í taugarnar á mér.

Strætó er fyrirtæki, sem fær góðan slatta af peningum frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkur leggur til 70% af fjármunum í þetta fyrirtæki og hefur þar af leiðandi 70% atkvæðishlut. Nú stefnir í yfir 300 milljóna króna hallareksturs og þar sem sveitarfélögin vilja ekki setja meiri pening í fyrirtækið þá neyðist það til þess að skera niður. Ákveðið var að leggja niður stofnleið 5 og hætta með akstur á 10 mínútna fresti.

Það er síðan komið svo mikið fjölmiðlafár í kringum þetta að það nær engri átt. Gísli Marteinn byrjaði með því að nöldra yfir þessu og ýjaði að því að Reykjavík réði engu, Dagur B kom og nöldraði og sagði þetta vera sjálfstæðismönnum að kenna, fulltrúi sjálfstæðisflokks kom og sagði að þetta hefði þurft vegna hallarekstur út af R-listanum og sagði að sjálfstæðisflokkurinn (þ.á.m Gísli Marteinn) vissi af þessum breytingu, síðan hefur framkvæmdarstjóri Strætó komið og varið þessar breytingar (aðallega sagt, engir meiri peningar frá sveitarfélögunum - niðurstaða verður niðurskurður), formaður stúdentaráðs komið og sagt þetta vera hneyksli, o.s.frv.

Hvað gerist við þessar breytingar? Jú strætó á 10 mínútna fresti var eitthvað sem var þægilegt. Ég mundi samt aldrei hvenær á hvaða tíma það var. Og árbærinn þarf að skipta um strætó. Og það mun 3 mínútum á milli að fara frá árbæjarskóla í H.Í. (samkvæmt ráðgjafanum á bus.is.)

Og nú er verið að tala um að slíta samstarfinu. Björn Ingi segir það mögulegt og Vinstri grænir ætla leggja tillögu um það. BULL. Verður það eitthvað ódýrara að splitta þessu aftur? Nei. Hvað þarf? Meiri pening? Vill fólk setja meiri pening í þetta? Nei..

Hvað er þá málið? Það er djöfulsins pólitík. Strætó er þjónustufyrirtæki sem er í hatrammri baráttu við einkabílinn og hann er að tapa. Breytingarnar á leiðarkerfinu voru nokkuð góðar, það voru stórir gallar á því en í megindráttum þá var þetta breytingar til batnaðar. Ekki eins mikill asi á bílstjórum, auðveldara að komast í Háskólann og um alla höfuðborgina. Jú ég held að það hafi hallað smá á Reykvíkinga. En ekki svo mikið. Nú eru menn að nota þennan nauðsynlegan niðurskurð til þess að vekja athygli á sér.

Réttast væri að spyrja Gísla Martein um hvort hann hafi ekki spurt sinn tengilið inní strætó út þennan niðurskurð, rétt væri að spyrja Dag B. Eggertsson hvort hann hafi ekki vitað af þessum hallarekstri, rétt væri að spyrja alla borgarstjórnina hvort að þeir vilji ekki leggja meiri pening í þetta fyrirtæki, réttast væri að spyrja formann stúdentaráðs hvort hann noti yfirleitt strætó.

Síðan er Strætó bs. ekki beint fyrirtæki heldur byggðasamlag eða eitthvað álíka. Það er stjórn sem er valin af sveitarfélögum til þess að halda utan um þetta batterí og síðan er ráðin framkvæmdarstjóri. Ef sveitarfélögin treysta ekki sínum manni innan fyrirtækisins fyrir þessum verkum þá ættu þeir að skipt um mann. Ef þeir treysta ekki framkvæmdastjóranum þá ættu þeir að reka hann og ráða nýjan. Ekki fara með þessa umræðu í fjölmiðla, það eina sem þeir fá út úr því er að sverta nafn Strætó og það er eitthvað sem er ekki þörf á.

Vinnutörn

Vinnutörn og skipulagning

Fyrir mörgum árum síðan var sagt að ég væri skipulagslaus. Ég fann fyrir því að mér væri ekki treyst fyrir peningamálum og það var alltaf verið að minna mig á ýmsa hluti. Ég fann sjálfur fyrir því að ég átti nokkuð erfitt með að skipuleggja ýmis mál og þá sérstaklega peningamál. Sú skipulagning varð oftast í því formi að borga reikninga og svelta síðan.

En nú hefur einhver breyting orðið.

Tökum sem dæmi. Þessa dagana er ég að vinna geðveikt mikið. Að meðaltali 12 tíma á dag. Stundum er ég að vinna 14 tíma. Eins og það gefur að skilja þá er ekki mikill frítími. En næstu helgi er ég búin að skipuleggja alla helgina. Alveg út í hörgul.

Dagskráin er svona.
Föstudagur
07:30 - 16:00 - Vinna í hlöðunni
16:00 - 18:00 - Lesa og ferðast yfir í hina vinnuna.
18:00 - 20:00 - Mæta í FMV og gera meginhluta sex frétta.
20:00 - 24:00 - Horfa á Supernatural og vonandi drekka viskí (efast um að það gerist samt, vegna bílnotkunar.
00:30 - 09:00 - Svefn
Laugardagur
09:30 - 14:30 - Vinna í hlöðunni, ryksuga þjóðdeild (lestrarsal) og klára að rita kvöldfréttirnar sem voru daginn áður.
14:30 - 16:30 - Klára að rita kvöldfréttir. Eftir það er smá frí. Vonandi verður skellt sér í sund.
18:30 - 19:20 - Mæta á FMV og byrja á NFS fréttunum.
20:00 - ? - Spilað Hunter í umsjón Halla D. Ef hann klikkar þá mun ég reyna stjórna Mage.
Sunnudagur
Vaknað klukkan ??.
Frá 13:00 - X - klárað NFS fréttir frá deginum áður.
18:00 - 23:30 - FMV. Klárað kvöldfréttir sjónvarps og útvarps.

Peningamáli eru í góðum málum. Er búin að setja upp 3 mánaða fjárhagsáætlun sem ég var að prófa þennan mánuð til þess að sjá hvort að hún virkaði. Júlí mánuður gengur mjög vel og þrátt fyrir að hafa farið aðeins yfir áætlunina hafi ekki staðist (eytt talsvert meira í dót en ég ætlaði mér) en ég sé fram á það að ágúst mánuður verður mjög ljúfur (peningalega séð).

Ég veit að Hallur myndi kalla mig anal. Get ekki neitað því að ég skil hann svo sem, en satt að segja þá finnst mér ákveðið öryggi falið í því að vita peningastöðuna sína svona eitthvað fram í tímann. Og jafnvel með því þá ætti ég að geta borgað alla skuldir og verið með ágætan afgang í mars á næsta ári (einu ári eftir að ég var í sumarbústað að setja upp planið mikla).

webcomic

Minns finnst þetta fyndið

En ég vara viðkvæmu fólki við að lesa webcomicið í heild sinni.

Cyanide and Happiness, a daily webcomic
Cyanide & Happiness @ Explosm.net

17 júlí, 2006

Helgin

Helgin

Helgin var djamm, svefn, þynnka, vinna, þreyta, afslappafelsi, útskrift, video, svefn, vinna, matur, vinna.

Kláði að skrá niður fréttir helgarinnar klukkan 02:15 í nótt. Ástæðan fyrir því var sú að það var bara of mikið líf á mér um helgina.

Komst að því um helgina að stjórnmálamenn upp til hópa er leiðinlegt og þröngsýnt fólk. Það sér bara mótvægið við andstæðinginn sinn. Á þetta fólk ekki að vera komið í sumarfrí og hætt að trufla okkur með svona leiðindum?

Annars reiknast mér að ég hafi fengið 13 tíma svefn alla helgina. Er líka að deyja úr þreytu hérna á hlöðunni. Hlakka gríðarlega til að mæta í vinnuna klukkan sex og vera til ellefu. Þið getið rétt ímyndað ykkur.

14 júlí, 2006

Ástandið í dag

Styttri póstur

Ég hef tekið eftir því að ef ég skrifa langan póst þá svarar fólk lítið eða barasta ekki.

Þannig að ég ætla hafa styttri pósta, bara einn á dag, næstu daga. Sjá viðbrögðin.

Annars hef ég lítið að segja.. er svona andlega daufur og lúin. Er að fara í 14 daga törn í fjölmiðlavaktinni, þaðan til Englands og síðan 13 daga törn eftir þá ferð. Sakna Halls gríðarlega, og mundi vilja detta í það með Leif og Marky. Hefði viljað ná einu sessíóni með Óla áður en hann færi út. Er oftast mjög hamingjusamur þessa dagana og sáttur við lífið og tilveruna. Ég vona að það sé sama upp á teningnum hjá ykkur.

13 júlí, 2006

Súperman

Súperman
Ef þú ert ekki búin að horfa á myndina þá gæti þessi pistill skemmt fyrir þér áhorfið
(spoilers!!!)

Fór á súperman í gær. Nördinn í mér var alls ekki sáttur. Finnst eins og handritshöfundarnir hafi ekkert verið að fylgjast með þróun teiknimyndasagna í gegnum tíðina. Vantaði alla exitensíalisma í myndina.

En best að byrja á byrjun. Hún var flott myndin og ég var bara nokkuð sáttur við leikarana. Þeir skiluðu allir sínu. Aksjón atriðin (þessi örfáu) voru vel gerð og barðsmíðarnar sem superman lenti í fannst mér vel heppnaðar og náðu tilgangi sínum.

En handritið var slappt. Súperman kemur aftur, hann bjargar gellunni sinni, hann spjallar við gelluna, er í nokkrum token Clark Kent atriðum, Lex er vondur, Lex gerir vonda hluti, Súperman bjargar kellu sinni aftur, Lex notar kriptonite á súperman, lex lemur súperman, súperman er bjargað, súperman bjargar heiminum frá vonda Lex, væmin endir.

Það vantaði allan nútíma í þessari mynd. Hvar voru atriðin þar sem Súpermaninum mistókst að bjarga fólki? Hvar voru atriðin þar sem fólk mótmælti Súperman? Hvar voru atriðin þar sem aðstandendur spurðu "hvar varst þú þegar sonur minn dó?". Vantaði líka allan Lex Luthor inní þessa mynd. Hann var bara vondi kallin, engin karakter á bakvið hann. Og plottið? Búa til nýtt meginland til að selja lönd? Og hvað er þetta með búningin hans Súperman? Rosa flottur búningur en halló.. já það er skotið á þig með þessari þvílíkri vélbyssu og búningurinn skaddast ekki, en síðan er superman stungin með kristalsbroti.. já það fer auðvitað í gegnum búninginn hans og síðan er honum kippt af líkama supermans af einhverju hjúkrunarfólki. Alls ekkert raunverulegt við hann á nokkurn máta.

Súperman er nefnilega erfið persóna. Hann er margslungin en samt svo einfaldur. Hann er hinn fullkomni gulldrengur "golden boy". Hann er svo góður að flestir fá æluna upp í háls, hann getur allt, fer allt, og engin getur sigrað hann, nema með einhverjum geislavirkum steini. Hvernig er hægt að gera sögu um svoleiðis mann? Jú það er hægt að fjalla meira um Clark, gervi supermans, það er hægt að fjalla um það að Súperman er ekki fullkomin, hann brýtur öll lög um persónuvernd, friðhelgi einkalífsins o.s.frv. Og Lex.. guð minn góður.. það er eiginlega það besta sem maður getur gert í sambandi við við Súperman er að hafa Lex Luther sterkan. Hann er alltaf á bakvið tjöldin, mundi aldrei standa með byssu í hönd eða vera nálægt vopni. Hann er maður sem öfundar Súperman af sínum kröftum og vill gera allt í sínu valdi til að knésetja hann. Hann kemur eiginlega bestur fram í Superman:The Red Son og annari bók sem ég á (man ekki hvað hún hét), og síðan í Smallville.

Í þessari mynd var bara tekið þemað frá 1980 og því fylgt. Þessi mynd gaf mér ekkert. Fékk litla sem enga útrás af henni. Jæja.. þá verður maður bara að bíða eftir Spiderman 3, Watchmen, Batman 6, og sjá hvort að þær gefa nördinn í mér eitthvað til að kjamsa á.

p.s. Síðan var eitt sem fór rosa í taugarnar á mér. Richard, gaurin sem er trúlofaður Lois. He is getting so screwed að það hálfa væri nóg. Elskar konu sem elskar hann ekki, er alandi upp barn sem er ekki hans eigið. Súperman er hjónadjöfull. En hvað er hægt að gera.. hann lýgur nefnilega aldrei, bara hristir upp í konunni sem hann yfirgaf og er síðan að ræna henni aftur. Þarna gæti verið komið góður vísir að mótherja.. hmm.. góð hugmynd.

12 júlí, 2006

Stéttarfélög

Fréttir og stéttarfélög

Ég hef aldrei verið hrifin af fréttum. Hef alltaf fundist þær vera leiðinlegt efni. Velta sér upp úr efni sem skipta kannski litlu máli. En nú er svo komið að ég er neyddur nokkra daga vikunnar að horfa og hlusta á fréttir, bæði í sjónvarpi og í útvarpi. Í vinnunni sit ég og rita niður það sem er sagt í fréttum. Gengur bara þokkalega ef ég segi sjálfur frá.

En það er margt sem er eitthvað skrýtið við fréttir, efnistök, uppsetning og annað. Er enn að mynda mér skoðun á þeim.

En ég er ósáttur við eitt. Starfsmenn IGS eru í kjarabaráttu við félagið, en að mínu áliti er mjög sérstakt hvernig er fjallað um það mál. Það hefur verið minnst á það að starfsmenn séu óánægðir með laun, álag og starfsaðstöðu. En ég hef bara heyrt eitt viðtal við starfsmann. Sá var pólskur og talaði brotna íslensku og var ekki góður talsmaður. En það er nóg af viðtölum við framkvæmdarstjórann, verkalýðsforystuna og yfirmenn fyrirtækisins. En samkvæmt því sem ég hef heyrt þá hafa launa þessa fólk staðið í stað í nokkurn tíma. Álagið hefur margfaldast, starfsmannafjöldin staðið í stað þrátt fyrir að álagið hafi þokast upp á við. Það var setuverkfall starfsmanna um daginn og flest allir hafa sagt upp. Fyrirtækið er búið að bjóða starfsmönnum launauppbót... 15 þús krónur ef 99% fluga stenst áætlun og ef 98% flugs stenst áætlun þá lækkar þessi bónus um 5 þúsund og ef það er lægra þá fá starfsmenn ekkert. Þetta á bara við fastráðinna starfsmanna. Þetta eru starfsmenn ekkert sáttir við.. skil það svo sem.

Formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja kom í útvarpsviðtal í gær og sagði að sitt félag gæti ekki gert neitt því kjarasamningar væru ekki lausir. En sagði að ef fyrirtækið gerði ekki neitt þá myndi það hlaupa illu blóði í kjarasamningsviðræður.

Djöfulsins rugl er þetta. Starfsmenn eru óánægðir með kjör sín og stéttarfélagið þeirra segir "Við beitum okkur ekki þegar ekki er um kjarasamningsgerð að ræða. Við höfum engar heimildir til slíks". Ha??? Heimildir? Bíddu félagsmenn eru óánægðir með kjör sín og eru að leggja niður vinnu! Og félagið þeirra segist ekki hafa neinar heimildir?

Stéttarfélög eru orðin hluti af bákninu. Þeir eru orðnir hluti af vandamálinu. Kerfiskarlar sem vilja halda í sína vinnu og vilja ekki rugga bátnum. Stéttarfélagið ætti að mæta á svæðið til þess að hafa milligöngu í þessu máli. Vanir samningsgerðarmenn sem hafa tengsl. En neeeiii.. þeir hafa ekki heimild til þess. Þeir sjá bara um kjarasamninga þegar þeir eru lausir.... RUGL! Til hvers eru stéttarfélög? Til þess að sjá um kjarasamninga sem engin fylgir og allir vita að eru bara fyrir þá lægst launuðustu? Eða til þess að sjá um orlofshús? Nei.. þau eiga að gæta að réttindum starfsmanna, félaga sinna. Launaseðlarnir þeirra byggjast á því!

08 júlí, 2006

Jarðaförin mín

Jarðaförin mín

Eftir að hafa farið í jarðafarir og kistulagningu þá hlýtur maður að hugsa um sína síðustu för. Hann afi var trúaður og fór með bænir sínar á hverju kvöldi. Hann fékk kristilega greftrun, með sálmum, trúarlegu spjalli og öllu því.

Ég vil ekki fá kistulagningu. Ég vil að þegar ég dey (sem verður vonandi eftir um 80 ár) að það verði látið ganga skilaboð á milli mína nánustu að þeir geti kvatt mig á staðnum þar sem ég dó (elliheimilið, sjúkrahúsið, mitti eigið heimili) á næstu klukkustundum. Síðan verð ég sóttur af líkbílnum og settur í kælinn en eftir það þá verður valin kista og ég settur beint í hana. Og síðan jarðaför. Engin kistulagning með presti og seremóníu og ég kaldur í kistu.

Ef það er möguleiki þá vil ég að líffærin mín verði notuð, ég er með líffæragjafaspjald. Ég vil vera grafin, ég vil að jarðneskar leifarnar skili sér aftur til jarðarinnar.

Ég er ekki trúaður og er ekki í þjóðkirkjunni. Fyrirgefið ég er trúaður.. bara ekki á biblíuna og kirkjustefnuna. Ég veit ekkert hvað verður gert við líkama minn. Ég mundi nú samt búast við því að ég verði grafin í kirkjugarði og athöfnin verður haldin í kirkju (efast um að Sorpa taki við mönnum eins og mér). En vegna þess að ég er nú ekkert voðalega trúaður þá óska ég eftir því að guðum verði haldið sem mest fyrir utan fyrir þessa athöfn. Ég býst við því að prestar séu hæfastir til þess að halda utan um þá athöfn sem jarðaför er, og ég hef svo sem ekkert á móti prestum sem slíkum. Þannig að ég mundi vilja fá einhvern prest sem myndi skilja og virða óskir mínar. Hann má auðvitað tala um guð sinn en það á ekki að vera áherslan.. sérstaklega þar sem ég er trúleysingi og ætti að örugglega brenna í helvíti í hans augum. Eða væri það kannski gaman að fá strangtrúaðan prest sem myndi segja "já hann Jens, hann var trúleysingi og Mun hann brenna í Helvíti að eilífu". Yrði svolítið sérstakt.

En já.. athöfnin sjálf. Fáir sálmar. Ég þekki ekki neinn sálm svo ég er eiginlega á því að segja engir sálmar, en mér finnst söngvar fallegir og það getur verið hjartnæmt að hlusta á sálma. En í dag þá vil ég að listin minn verði What a Wonderful world með Louis Armstrong, Come what may úr kvikmyndinni Moulin Rougue, The Wanderer með U2/Johnny Cash, Sól að morgni með Bubba Morteins, og síðast verði spilað Hope There is someone með Anthony and the Johnsons. En þetta bara það sem ég hugsa í dag, gæti vel verið að ég geri uppdate seinna meir. Hugsa að þetta komi ekkert voðalega vel út í jarðaför.. en ohh well...

EF ég dey ungur vil ég að það sé grátið mikið við jarðaförina og við greftrunina. Síðan þegar það sameinast í erfidrykkju þá vil ég að það verði almennileg erfidrykkja. Ég vil að það það verði kökur og kruðerí og síðan þegar fólk byrjar að týnast út og aðeins eftir verða þeir nánustu að það verði dregið fram bjórkassar og vínflöskur (og kók handa Gumma). Síðan verði eytt kvöldstund í að tala um mig, rifja upp heimskupör, hlegið að þeim, talað um minninguna um mig. Að þarna verði minningunni um mig haldið hátt á lofti.
EF ég dey sem gamall maður þá vil ég að athöfnin verði látlaus og veislan eftir á verði í þeim anda að fólk gleðjist yfir því að þarna var maður að fara sem átti gott líf. Ég vil að öll myndaalbúmin mín verði sett upp og fólk geti skoðað þær, ef myndirnar verða í tölvu þá með myndvarpa eða með tölvu á áberandi stað. Allar bækur sem ég hef skrifað verði þarna svo fólk geti gluggað í. Ég vil ekki sjá mörg tár. Frekar tregablandin bros yfir minningum.

P.s Hér getið þið á Playlistan sem ég vil hafa í jarðaförinni minni.

07 júlí, 2006

Minningargrein

Minningargrein

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1091601;minningar=1

Besta að halda áfram þessum rafrausardegi.

Hugrenningar

Dagurinn í dag

Þriðji pósturinn í dag. Sjaldan sem ég set svona mikið á netið á einum degi, en ég er svo með hrikalega tjáningarþörf í dag að ég er að farast.

Hugurinn er þjótandi áfram, varla að ég nái tökum á honum. Er að hugsa um afa, og rifja upp minnigarnar um hann, sem satt að segja eru ekkert voða margar og frekar óljósar. En það mér finnst það einhvern vegin mikilvægt að rifja upp allt um hann. Jarðaförin er í dag og ég er svona óviss hvernig mér á að líða. Er ég sorgmæddur? Nei ekki get ég sagt það, þetta var góður tími fyrir af að fara, veikin hans var ekki búin að gleypa hann en hann var orðin það slæmur, en samt er eitthvað.. kannski sú tilfinning að hann er farin, dáin og verður síðan grafin. Þessi endir sem hann er að ?upplifa?, kannski byrjun á einhverju nýju, maður veit aldrei.

Var að læra að gera bindishnút í gær og í dag. Er komin með ágæt tök á honum og búin að læra tvennskonar hnút. Windsor hnútinn og síðan annan til sem pabbi kenndi mér. Ég keypti mér jakkaföt um daginn, önnur tilraun á ævi minni. Sú fyrri endaði hræðilega "sælla" minninga, stundum getur maður verið svo vitlaus.

Mér finnst ég var einhvern vegin hálfgrátandi alltaf.. eins og tárin séu rétt handan við hornin. Ég er ekkert hræddur við þau. Það er gott að gráta, ekki það að ég hafi gert mikið af því. Síðast grét ég þegar ég var að lesa bókina "sunday at the pool in Cigali". Þá var ég ekki búin að gráta í um 10 ár. En samt kemur ekkert.. það sest stundum mikill þungi á brjóstkassann en ég brotna ekki, kannski geri ég það í kirkjunni.. kannski ekki.

Ég hugsa of mikið.. það hafa margir sagt og stundum er ég samála þeim, og stundum fara hugsanirnar með mig í gönur. Hugsa of lengi um eitthvað. En stundum verð ég bara að hugsa um hlutina til enda.. vegna þess að ég veit að ef ég geri það ekki þá læðast hlutirnir upp að mér.

Ég er með þá tilfinningu að ég sé að springa, langar til að dansa eins og brjálaður, hlaupa um og öskra, finn fyrir einhverjum krafti sem er ekki að losna úr læðingi, orkan mín er rosaleg,

Andskotinn sjálfur...

Er að hlusta á James Blunt í gegnum radioblogclub.com. Hann er ágætur söngvari en lögin hans eru svona voða eitthvað.. nema eitt.. goodbye my lover... ég býst við því að það hafi verið nauðgað í útvarpinu. Ég vona að ég þurfi aldrei að tengja textann við sjálfan við mig.

Er í hlöðunni, þar sem ég hef gert hluti sem mér datt aldrei í hug að ég myndi nokkurn tíman gera. Ég vissi ekki að það væri hægt að læra svona mikið á stuttum tíma, hellulagnir, málningarvinna, á svona þingí sem maður notar til að færa til bretti, hvað arkitektar eru óþolandi mannverur, hvað réttu verkfærin geta hjálpað manni í störfum, á ljósritunarvélar o.s.frv. Ég hef aldrei litið á mig sem svona iðnaðarmann, verkamann já en ekki svona handíman. En allt í einu er ég farin að gera það.

Árið 2006 verður annað hvort besta árið sem ég hef upplifað á ævi minni, þar sem ég komst í tengslum við sanna hamingju, þar sem ég upplifði hægðir og lægðir en endaði á toppnnum. Eða þetta verður versta árið sem ég mun upplifa.. allt eða ekkert, svart eða hvítt, upp eða niður. Það hef ég aldrei upplifað áður. Að annað hvort verður þetta magnað eða ekki. Sem auðvitað þýðir að þetta verður magnað. Það er sko ekki verið að brúka meðalmennskuna núna.

ástin

Já...


Sólin stakk mig í augun, vindurinn strauk mér um vanga, lyktin af vorinu og nýslegnu grasi kitlaði mig i nefið, það var svalt en samt notalegt.

Hugsunin um hana lyfti mér upp, fannst ég sjá fegurðina í ljósinu og skugganum, fegurðin í öllum leyfði mér að standa óhræddur, fann fyrir því að hnén urður veikburða, tilfinningin dreifist um allan líkamann, tærnar krepptust saman,

fiðrildin í maganum fóru af stað, stundum vegna gleðinnar, stundum vegna hugsuninnar um að mögulegan endi, fann hvernig hitin breiðist út frá maganum, vellíðan um gleðina og orkuna, hræðslan við mögulegt fall.

Hæstu hæðir og lægstu lægðir...

Tónlist

Tónlist


Er að fikta.. virkar þetta hjá einhverju?

05 júlí, 2006

Peningar

Peningar


Eins og þið öll vitið þá er ég búin að vera taka saman eyðsluna mína síðustu mánuði. Komið hefur í ljós að ég er ágæt eyðslukló. En samtals eyðslan mín hefur farið hækkandi. Fyrst var í í um 100 þúsundum, síðan í 115 þús og svo í 150 þús. En það hefur verið skiljanlegar ástæður fyrir þessu, ákveðnir reikningar sem ég hef þurft að borga, H.Í innritun og síðan keypti ég mér jakkaföt um daginn.

En ég eyði að meðaltali um 26 þúsund krónum í mat á mánuði, um 25 þúsund í Transport, 6000 þúsund krónum í gos og nammi, 15 þúsund í skemmtanir, og um 25 þús kr í dót. Síðan er fastur kostnaður um 10-15 þúsund kall (síminn og tryggingar ofl.) Samtals gera þetta um 110 þúsund krónur.

Þá er upplagt að gera greiðsluáætlun fyrir árið. Reyna sjá fyrir hvort ég geti farið fjórum sinnum til útlanda eða bara tvisvar. Ég er búin að setja hana upp og ég sé að ég þarf að skera einhverstaðar niður. Augljós kostur er Transport. Er að eyða allt of miklu þar. En þar sem ég er komin með Rauða Kortið þá ætti það líklega að fara niður. Ég held að það sé ekki raunsætt að reyna að ná matnum niður. Gos og nammi... einhverstaðar verð ég að ná þessum kílóum sem ég missti í mars, apríl.

Hugsa að ég minnki um 10 kall í dóti og haldi 15 þús krónum í skemmtunum. Lækka mánaðarlegri eyðslu um 20 þús. Hafa hana um 80 þús á mánuði. Er það ekki raunsætt?

03 júlí, 2006

að ljúga

Að ljúga

Ég var fengin til þess að taka þátt í gæsun, á laugardaginn síðasta, á stúlku sem er að fara gifta sig næsta sunnudag. Það eina sem ég átti að gera var að sækja stúlkuna heim til sín og fara með hana niður í bæ og gefa henni pulsu og kók á bæjarins bestu. Ég og hún þekkjumst ekki neitt og það átti bara að vera þannig. Hún var eitthvað búin að frétta af mér svo að ég ákvað að ljúga einhverju að henni. Bjó til sögu um Dóra.

Síðan mæti ég á svæðið og segi að ég sé bílstjórinn hennar og segi nafn mitt. Ekkert mál. En síðan komu foreldrar hennar og þá fór ég í algert kerfi. Ég laug að þeim en leið hryllilega á meðan ég gerði það og eftir á. Sagan mín fór út um þúfur vegna þess að ég var með svo mikinn móral að ég gat ekki hugsað mér að ljúga einhverju fleiru. Tókst samt að komast frá þessu næstum því skammlaust.

En vá... ég spáði í því eftir á.. var lengi að jafna mig á þessu. Var lengi að ná samviskubitinu út úr huganum. Hvað getur maður verið mikill bjáni, stundum. Ég hef nefnilega logið að mörgum, alveg blákalt og ekkert fengið samviskubit en þarna voru það einhverjir ókunnugir sem ég laug að og fór alveg í kerfi. Gat alveg logið að stelpunni en fór í kerfi vegna foreldrana, hafði ekki reiknað með þeim. En er það eitthvað sem maður ætti að breyta, reyna að vera kaldari og samviskulausari? Ala sig sjálfan þig þannig að maður ekkert samviskubit þegar maður lýgur að ókunnugum en kannski þegar maður gerir það við þá sem maður þekkir?

En jæja... ég þarf líka að skila bílnum sem ég er búin að vera á síðustu viku. Maður á helst ekki að fá lánaðan bíl. Maður verður svo háður þeim á stuttum tíma.