30 október, 2008

Að dansa upp í rúmi getur haft slæmar afleiðingar

Ég reif málmdraslið undan rúminu og lét það standa upp við vegg. Hann Raggi sagði að það mynda örugglega vera þar forever, ekki gat ég látið þessi orð hans standa svo það fyrsta sem ég gerði í fyrra dag var að laga þessa málmgrind. Beyglaði hjólið til baka með handafli og hamar. Skelltu síðan rúminu á draslið og Volla! Í fína lagi með það.

Svaf um nóttina í því og allt gekk ljómandi vel. Síðan tyllti ég mér á endann á rúminu (Var EKKI að dansa) og rúmið tók dýfu. Sá að dekkið var aftur orðið skakkt. Var á leið í vinnu og nennti ekki að standa í þessu. Síðan þegar ég kom heim þá sá ég að það var ekki bara eitt dekk sem var skakkt, heldur 3 dekk af 6, þannig að þetta var ónýtt. Ég nennti samt ekki standa í þessu gær og svaf í skökku rúmi í alla nótt, en nú er ég búinn að rífa draslið í burtu.

En það er ákveðin kostur við þetta... núna get ég dansað í rúminu!

24 október, 2008

Að dansa í rúmi er góð skemmtun

Í gærmorgun vaknaði ég óvenju snemma. Ég stillti símann minn og lagði hann út í glugga svo ég neyddist til að fara fram úr til að slökkva á honum. Ýtti á blund takkann og fór síðan aftur í rúmið. En 10 mínútum síðar þá þurfti ég að leika sama leikinn. Svo að ég var vaknaður, heilum klukkutíma áður en ég átti að mæta í vinnu. Ég setti græjurnar í gang og skrapp í sturtu. Eftir sturtuna þá var ég kominn í ágætt stuð og það var komið gott lag í hljómtækin svo ég fór eitthvað að dilla mér. Hoppaði síðan upp í rúmið og tók nokkur dansspor á því við þetta lag.Það endaði með því að ég skekkt járngrindina undir rúminu mjög vel, svo nú er rúmið komið svona með 40 gráðu halla. Ég held að þetta rúm hafi ekki verið byggt með það í huga að 100 kílóa karlmaður fari að hoppa eins og vitleysingur á því.

22 október, 2008

Hvíld

Stelpurnar sem ég er með í hóp í leikskólanum fara í hvíld strax eftir hádegismat. Þetta er einn yndislegasti tíminn í skólanum. Það getur verið voða leiðinlegur og jafnvel erfiður tími og mjög þreytandi en það er eitt móment sem mér finnst yndislegt.

Þetta andartak þar sem þær sofna. Þetta móment, þegar þær lygna aftur augum og maður sér að andadrátturinn dýpkar aðeins. Að svefninn er að fara með þær. Ég finn fyrir vellíðan og verð eitthvað svo mjúkur þegar ég sé þetta andartak.

Merkilegt ekki satt?

18 október, 2008

Flutningur

Ég er fluttur í nýja íbúð.. ef íbúð skyldi kalla. Þetta eru tvö herbergi sem eru tengd saman með gangi og á þessum gangi er klósett og lítið eldhús. Þessi íbúð var svona "tveggja" einstaklinga herbergi. Þar sem tveir einstaklingar voru með herbergi og síðan sameiginlegt klósett og baðherbergi.

Held að það henti mér ágætlega. Útsýnið er ekki skemmtilegt. Sést bara næsta blokk, sem er mannlaus. Get ekki einu sinni reynt að gægjast á nágranna.

Margir hafa spurt mig hvers vegna ég er að flytja. Ég hef fá svör og þau svör sem ég hef eru svolítið asnaleg. En ætli kjarninn sé ekki sá að ég var hættur að hafa gaman að þessu. Fannst of mikill tími hjá mér fara í leiðindi og þá var kominn tími til að hætta.

Nú er ég liggjandi upp í rúmi og hlustandi á Nick Cave. Þetta gekk rosafljótt fyrir sér, þessir flutningar og það ætti að vera léttur leikur að koma íbúðinni í stand.

15 október, 2008

Uppfærsla á fréttum um mig

Ég pakkaði meirihlutann af bókunum mínum í gær. Tókst að fá nokkra kassa og nýtti það. Er búinn að kíkja á nýju íbúðina og líst ágætlega á. Það hefði verið betra að fá íbúð hinum megin við ganginn þar sem útsýnið er mun betra. En maður fær ekki allt sem maður biður um, ekki það að ég hafi beðið um það.. en það er allt annað mál.

Það er enn allt á bið varðandi atvinnutilboðið, ég er búinn að biðja um nákvæmar upplýsingar varðandi laun og annað. Hafði hugsað mér að segja af eða á í þessari viku en það er ólíklegt að svo verði.

Hef ekki enn fundið fyrir kreppunni.. fyrir utan umræðu og fréttaflutning. Er kominn með mjög ákveðnar skoðanir á því hverjir bera ábyrgð á þessari stöðu og það er ekki hann Dabbi kóngur, þótt að ég sé nú ekki mikill aðdáandi hans. Aðrir aðilar bera mun meiri ábyrgð (og það er ekki útrásarkóngar). Kannski ég fjalli nánar um það síðar.

Jú.. ég er með einhvern pening í peningamarkaðssjóð í SPRON og sá sjóður er frosinn. Ekki miklar fjárhæðir þar samt, svo ég sef rólega. Ef allt hrinur og ég tapa þeim peningi þá mun ég lítið taka eftir því.

Í vinnunni gengur allt vel, ég finn samt að ég er annars hugar. Atvinnutilboðið og kreppan tekur mikla orku frá mér og ég á erfitt með að einbeita mér. Verð einhvern veginn að komast úr þeim sporum.

Er nú að skrifa þennan póst á Imac í tölvuveri Háskóla Íslands. Þurfti að komast í Microsoft project. Leiðinlegt forrit sem virkar ekki fyrir Mac Os. En það er window inná þessari Imac. Nennti ekki að vesenast með þetta forrit og þurfa að kaupa eitthvað viðbótarforrit svo það virkaði.

En nú er komið nóg af bulli.. Ætla halda áfram með verkefnið.

10 október, 2008

Hugrenningar varðandi kreppu

Var í baði áðan og hugsaði um síðustu daga. Ég finn að þessi bankaáfölll hafa snert mínar taugar. Hugsa of mikið um þetta og er ekki að einbeita mér af því sem máli skiptir (nám og framtíðin).

Ég fór að pæla, nú er svo komið að 3 bankar eru gjaldþrota, helling af peningum vegna hlutabréfa eru tapaðir og það lítur út fyrir að mörg fjárfestingafélög eru að verða gjaldþrota.

Þetta mun hafa slæm áhrif á efnahagslífið. Verðbólga rýkur upp, krónan er að falla gangvart öðrum gjaldmiðlum og það munu margir einstaklingar lenda í vandræðum með að borga sín lán.

Þetta er að gerast á flestum stöðum á hinum Vestræna heimi. Ég hef nú trú á því að flest lönd munu takast að rífa sig úr þessu og Ísland verði ekki gjaldþrota og skaðinn verði lágmarkaður.

En ef það gerist ekki? Ef þetta er bara byrjunin á storminum? Hvað gerum við þá?

Ég er með plan!

Þarf að þróa hana betur og íhuga hana vel. En ég er með áætlun.

Ætli ég hætti þá að hugsa um þetta?

09 október, 2008

Deiglann

Þetta er búin að vera rosa hasar vika. Fékk atvinnutilboð sem ég er enn að spá í, hugsa stöðugt um það. Síðan er bankarnir að fara á hausinn og það eru mjög sérstakar tilfinningar sem vakna upp vegna þess.

Ég er síðan að fara flytja. Búinn að fá nýja íbúð en það hefur einhvern veginn alveg setið á hakanum. Ætti að vera pakka og undirbúa flutningar.

Eða ég ætti að vera lesa námsbækur. En hvorugt af því er að gerast. Frekar ligg ég hér í rúminu mínu og hugsa og velti vöngum.

En koma dagar, koma ráð.