20 júlí, 2006

Strætó


Hafið þið fylgst með umræðunni um strætó upp á síðkastið? Ja ég hef alla vega neyðst til að gera það vegna vinnunnar. Hún fer hrikalega í taugarnar á mér.

Strætó er fyrirtæki, sem fær góðan slatta af peningum frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkur leggur til 70% af fjármunum í þetta fyrirtæki og hefur þar af leiðandi 70% atkvæðishlut. Nú stefnir í yfir 300 milljóna króna hallareksturs og þar sem sveitarfélögin vilja ekki setja meiri pening í fyrirtækið þá neyðist það til þess að skera niður. Ákveðið var að leggja niður stofnleið 5 og hætta með akstur á 10 mínútna fresti.

Það er síðan komið svo mikið fjölmiðlafár í kringum þetta að það nær engri átt. Gísli Marteinn byrjaði með því að nöldra yfir þessu og ýjaði að því að Reykjavík réði engu, Dagur B kom og nöldraði og sagði þetta vera sjálfstæðismönnum að kenna, fulltrúi sjálfstæðisflokks kom og sagði að þetta hefði þurft vegna hallarekstur út af R-listanum og sagði að sjálfstæðisflokkurinn (þ.á.m Gísli Marteinn) vissi af þessum breytingu, síðan hefur framkvæmdarstjóri Strætó komið og varið þessar breytingar (aðallega sagt, engir meiri peningar frá sveitarfélögunum - niðurstaða verður niðurskurður), formaður stúdentaráðs komið og sagt þetta vera hneyksli, o.s.frv.

Hvað gerist við þessar breytingar? Jú strætó á 10 mínútna fresti var eitthvað sem var þægilegt. Ég mundi samt aldrei hvenær á hvaða tíma það var. Og árbærinn þarf að skipta um strætó. Og það mun 3 mínútum á milli að fara frá árbæjarskóla í H.Í. (samkvæmt ráðgjafanum á bus.is.)

Og nú er verið að tala um að slíta samstarfinu. Björn Ingi segir það mögulegt og Vinstri grænir ætla leggja tillögu um það. BULL. Verður það eitthvað ódýrara að splitta þessu aftur? Nei. Hvað þarf? Meiri pening? Vill fólk setja meiri pening í þetta? Nei..

Hvað er þá málið? Það er djöfulsins pólitík. Strætó er þjónustufyrirtæki sem er í hatrammri baráttu við einkabílinn og hann er að tapa. Breytingarnar á leiðarkerfinu voru nokkuð góðar, það voru stórir gallar á því en í megindráttum þá var þetta breytingar til batnaðar. Ekki eins mikill asi á bílstjórum, auðveldara að komast í Háskólann og um alla höfuðborgina. Jú ég held að það hafi hallað smá á Reykvíkinga. En ekki svo mikið. Nú eru menn að nota þennan nauðsynlegan niðurskurð til þess að vekja athygli á sér.

Réttast væri að spyrja Gísla Martein um hvort hann hafi ekki spurt sinn tengilið inní strætó út þennan niðurskurð, rétt væri að spyrja Dag B. Eggertsson hvort hann hafi ekki vitað af þessum hallarekstri, rétt væri að spyrja alla borgarstjórnina hvort að þeir vilji ekki leggja meiri pening í þetta fyrirtæki, réttast væri að spyrja formann stúdentaráðs hvort hann noti yfirleitt strætó.

Síðan er Strætó bs. ekki beint fyrirtæki heldur byggðasamlag eða eitthvað álíka. Það er stjórn sem er valin af sveitarfélögum til þess að halda utan um þetta batterí og síðan er ráðin framkvæmdarstjóri. Ef sveitarfélögin treysta ekki sínum manni innan fyrirtækisins fyrir þessum verkum þá ættu þeir að skipt um mann. Ef þeir treysta ekki framkvæmdastjóranum þá ættu þeir að reka hann og ráða nýjan. Ekki fara með þessa umræðu í fjölmiðla, það eina sem þeir fá út úr því er að sverta nafn Strætó og það er eitthvað sem er ekki þörf á.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli