08 nóvember, 2006

Innflytjendur

Innflytjendur

Mál málanna er að þessu sinni Innflytjendur og áhrif þeirra á íslenskt þjóðlíf. Er Ísland að kafna undan útlendingum, nennir þetta fólk ekki að læra tungumál okkar, eru þeir að ræna vinnunni af okkar vinnufólki?

Frjálslyndi flokkurinn sem er búin að missa mitt atkvæði gersamlega fyrir fordómafulla umræðu, eru búnir að vekja mál á þessu máli. Vandinn tengdan útlendingum. Þeir hafa ýjað að því að útlendingar séu að ræna vinnu af Íslendingum vegna þess að þeir eru tilbúnir að vinna fyrir lág laun. Það er ýjað að því að þessu fólk sé því að kenna að það eru lág laun í sumum stéttum.

Þetta er þarft umræðuefni, engin spurning en það er miður að umræðan skuli hafa farið á þessa leið. Hann Paul F. Nikolov hefur verið að fjalla um aðstæður innflytjenda í nokkurn tíma og segir að það sé vandi á ferðinni en því miður þá voru hans tillögur og hans orð ekki eins "heitar" og þær sem hann Magnús er með.

Atvinnuleysi er 1% á öllu Íslandi. Sem þýðir að það er ekkert atvinnuleysi. Það er skortur á vinnuafli. Fólk ræður sig ekki í vinnu sem kassadama í Bónus eða í Hagkaup, það stekkur ekki til þess að skeina gömlu fólki inná hjúkrunarheimilum. Útlendingar eru byrjaðir að afgreiða í Bónus, með tilheyrandi þjónustumissi (en ég verð að játa að það er svo sem engin nýlunda að þjónustan sé hræðileg í Bónus, ekki hef ég orðið var við mikla þjónustulund hjá þessum 17 ára unglingum sem hafa verið að afgreiða mig), útlendingar eru byrjaðir að vinna á hjúkrunarheimilum við að hugsa um okkar gamla fólk. Það eru lág laun borguð í þeim geira svo það er eiginlega mjög skiljanlegt þar sem þú getur fengið vaktavinnu í Select sem borgar tvöfalt meira, að fólkið flykkist ekki að í að vinna á hjúkrunarheimilum. Það ætti að borga starfsfólki betri laun. Já, það ætti að gera það en þetta eru ríkisbatterí og það eru bara ekki peningar til að borga þessu fólki betri laun.

Við heyrum sögur af Pólverjum sem búa 8 saman í 3 herberga íbúð og hneykslumst á því. Við sjáum myndir og heyrum af starfsmannaleigum sem fer með starfsfólk sitt eins og skít, dregur 40 þúsund króna leigu af launum þeirra fyrir að búa í einhverri kytru með 8 öðrum. Hvað gera verkalýðsfélögin, hvað gerir ríkisvaldið þegar það er augljóslega brotið helling af reglum?

Við Íslendingar berum ábyrgð á þessu! Við höfum flutt þetta fólk inn í bílförmum til þess að vinna vinnu sem fáir vilja vinna. Það eru ekki peningar til þess að borga almennileg laun og það er nóg af vinnu að fá svo hvers vegna ættum við, Íslendingar, að þurfa að vinna í einhverri skíta vinnu. Við höfum komið okkur upp þrælum, við flytjum þá inn, borgum þeim skítalaun, látum einhverja feita kalla sem stjórna starfamannaleigunum komast upp með það að fara illa með erlend vinnuafl, við skikkum útlendingana sem vilja setjast hér að í rándýrt íslenskunámskeið sem gagnast þeim illa, við tölum ensku við þá ef okkur finnst þeir tala slæma íslensku, við erum svo upptekin af gróðanum að gamalt fólk, öryrkjar, fólk með skerta vinnugetu verður eftir í lífsgæðakapphlaupinu.

Fólkið sem kemur til landsins er að koma til að vinna í flestum tilfellum, það er engin skylda á þeirra herðum að læra Íslenskt tungumál, hvers vegna, það er bara að koma og vinna. Ef það ætlar að setjast hér að þá þarf það að læra tungumálið. Það er fáránleg hugmynd að ætlast til þess að fólk sem kemur hér til að vinna þurfi að læra tungumál okkar.. eða ímyndið ykkur ef þið ákváðuð að fara vinna við að týna appelsínur í Ísrael og þyrftuð nauðsynlega að læra tungumálið í landi sem þið ætluðu kannski að vinna í 6 mánuði.

Hvað gætum við gert? Við gætum bætt íslenskunámskeiðin, látið allt erlent vinnufólk fá upplýsingar um réttindi sín á sínu eigin tungumáli þegar það kemur til landsins, við gætum tekið allsherjar úttekt á aðstæðum, launum erlends vinnufólks, við gætum grandskoðað þessar starfsmannaleigur og svipt þær starfmannaleigur réttindi sem eru að fara illa með erlent starfsfólk.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli