17 júlí, 2007

Vinna og fleira

Það mun margt breytast í ágúst. Ég er búinn að fá vinnu í leikskóla sem kjarnastjóri (deildarstjóri). Þessi leikskóli heitir Völlur og er staðsettur á Keflavíkurflugvelli þar sem amerískir sóldátar gengu um jarðir. Þetta er risastór leikskóli með yfirbyggðum garði og Hjallastefnan verður við lýði í þeim skóla, enn sem stendur er ekki vitað hvort ég verð með stráka- eða stelpudeild.

Eins og gefur að skilja þá er ekki hægt að taka strætó á milli svo að ég mun flytja þangað upp eftir í ágúst. Vonandi fljótlega eða í síðasta lagi um Verslunarmannahelgina. Eftir eitt og hálft ár af því að geyma allt dótið mitt hjá Ragga, í búslóðageymslu, hjá foreldrum og kærustu þá tekst mér að sameina allt undir einu þaki og get kallað það heimili.

Vinnutíminn minn verður þannig að ég mun opna húsið og vera til fjögur, fimm en á föstudögum mun ég sleppa um hádegisbilið og mun skella mér til Reykjavíkur þar sem ég mun dvelja hjá kærustunni.

En sagan er ekki enn lokið vegna þess að ég benti Halli á grunnskólann sem verður settur á laggirnar þar og hann fékk vinnu við kennslu og við munum vera herbergisfélagar í 3 herbergja íbúð.

Svo að í fyrsta skiptið í lífinu þá mun ég vera með lögheimili utan Reykjavíkur, mun ég stjórna einhverju fólki í vinnu og leigja með herbergisfélaga.

Miklar breytingar framundan.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli