Hann Kristinn er einn af þessum strákum sem ég þekki sem ég hlakka alltaf til að hitta. Hann er líka einn af þeim sem ég vona að ég hafi alltaf meira samband við, en veit ekki hvernig ég ætti að biðja um meiri samskipti. En ástæðan fyrir því að ég er að skrifa um hann er að hann hefur verið að skrifa marga pistla á rafrausinu sínu um feminista og nauðganir.
Hann byrjaði að skrifa pistil sem heitir “bloggæsingur femistans” (http://www.andmenning.com/?p=8541). Ástæðan fyrir honum voru skrif Hildi Lilliendahl (http://kaninka.net/snilldur/?p=1716) um frétt sem Heimir Már Pétursson skrifaði. Síðan hefur þetta vafið upp á sig og eru pistlarnir hans Kristins um þetta mál orðnir 10 talsins og hefur umræðan farið um víðan völl, á bland.is, á menn.is o.fl. Það hafa líka komnir ófáir pistlar á facebook.
En já fyrsti pósturinn sem hann Kristinn sendi frá sér var fjallaði um í stuttu máli að honum fannst Hildur hafa farið óvarlega í yfirlýsingum (hún sagði að Heimir Már væri nauðgaravinur) og að þessar yfirlýsingar sem hún sýndi væri ekki til þess fallið að hjálpa til við málstaðinn. Það var innihaldið hjá honum.
En hann skreytti þann pistil með setningum eins og “Það er það sem fréttaritari fjallar um og til þess að lesa úr því einhverja vanvirðingu við konur þarf maður að setja sig í alveg sérstakan gír sem Hildur og stöllur virðast einmitt vera í”, “Það er áhugavert að fólk skuli geta sett upp gleraugu sem skæla svo merkingu tiltölulega venjulegs fréttaflutnings að hann verður að fólskulegri árás á réttlætiskennd þess”.
Síðan segir hann “Spurningin nú er hinsvegar hvort Hildur og stöllur telja mig vera blindaða karlrembu sem veitir óþarflega miklu púðri í að réttlæta umrædd orð fréttaritarans, eða hvort þær átta sig á því að ég er ekki öfgamaður hvað þetta snertir og að það eru þær sem eru aðeins búnar að tapa áttum í femínisma sínum.”
Með þessu skýtur hans sig aðeins í fótinn. Hann sýnir smá hroka með því að fjalla um Hildi og stöllur (ég hélt að hún hafði skrifað þennan pistil í sínu nafni en ekki í nafni neins hóps), hann talar niður til hennar með því að segja að hún sé í sérstökum gír, með gleraugu og endar pistillinn með því að segja að annað hvort játi hún það að hún sé að tapa áttum eða að hún muni túlka hans skrif sem karlrembuskrif.
Hún Hildur, og fleiri, fara síðan í umræður við hann og fer umræðan um víðan völl. Hann segir oft að hann sé ekkert á móti henni Hildi og baráttunni um jafnrétti. Hann er bara einfaldlega að segja að öfgar séu slæmir og koma þessu málefni ekki til góðs. Öfgarnar sem hann ræðir um er það að túlka hlutina einstrengingslega og geta ekki sagt að það séu aðrar túlkanir á málunum heldur en Hildur og félagar gefa sér.
Ég gæti vitnað í Hildi og bent á að hún hafi sagt að aðrar túlkanir séu til staðar.
En ég ætla ekki að gera það. Mig langar ekki að fjalla um þá umræðu sem spratt út úr þessari byrjun heldur langar mig að fjalla um kjarnann.
Hver er kjarni málsins? Hún Hildur túlkaði orð Heimir Márs á ákveðin hátt og hann Kristinn er ósammála hennar túlkun og rökræðir það mál og segir að hennar túlkun sé ekki endilega sú rétta.
En þetta er spurning um túlkun. Ekkert annað, túlkun hennar og hans á orðum fréttamanns. Allt annað er bara dót sem er búið að safnast saman um þessa umræðu.
Nú skulum við skoða túlkanir hans og hennar. Hún segir að fréttamaðurinn hafi gerst sekur um að gera lítið úr fórnarlambinu með því að nota orðalag eins og „vandræðum með samskipti“ og segja „þetta var mikið áfall fyrir feril Strauss-Kahn“. Kristinn segir að það séu góð og gildar ástæður fyrir að segja þessa hluti og það sé oftúlkun að segja að Heimir hafi verið að gera lítið úr fórnarlambinu.
Og nú standa þessar tvær túlkanir hlið við hlið og hver er sú rétta? Auðvitað er engin sú rétta. HIldur og Kristinn eru að tala um sama hlutinn frá sitthvorum staðnum. Hún er að tala sem fórnarlamb kynferðisofbeldis (sjá Samantekt á kvennréttindaumræðu síðustu daga, innlegg nr. 16) og Kristinn er að rökræða orðanotkun og hvort að það eigi að túlka ákveðna hluti á ákveðin máta.
Þarna er einn af kjörnum málsins. Hún Hildur talaði um sína upplifun, hún talaði ekki fyrir hönd allra feminista, eða hönd allra einstaklinga sem hafa upplifað kynferðislegt ofbeldi. Hún las greinina og upplifði lítillækkun. Hún skrifaði síðan harðorða grein um þá upplifun, sína upplifun.
Það mætti færa rök fyrir því hún hefði ekki átt að nota svona sterk orð, nauðgaravinur. Mætti alveg færa rök bæði með og á móti en staðreyndin er sú að Heimir skrifaði grein sem særði einn lesenda hennar.
Kristinn kom með rök á móti því en eins og ég sagði hér fyrir ofan þá skaut hann sig í fótinn með því að setja smá hroka í hlutina. Þessi litli hroki varð til þess að allt þetta fór af stað og nú er komið illindi í málin.
En hvers vegna er þetta svona viðkvæmt? Jú vegna þess að það er verið að tala um raunverulegt vandamál. Einn þriðji af mannkyninu upplifir kynferðislegt ofbeldi. Fórnarlömb ofbeldisins finnst síðan samfélagið hunsa það, gera lítið úr því og lætur því fyllast skömm á ofbeldi sem það bar enga ábyrgð á.
Ég tel að Hildur hafi verið reið, en þetta var réttlátt reiði. Jú það er hægt að túlka orð hans Heimis öðruvís en hún gerði en það skiptir ekki máli þar sem hún talaði út frá sinni upplifun með nafnið sitt undir.
Hann Kristinn reynir að rökræða hlutina og ég skil hann að vissu leyti en hún var ekkert að rökræða, hún var einfaldlega að segja sína skoðun og frá sinni upplifun. Menn máttu svo vera sammála eða ósammála.