29 mars, 2006

Þankaroks helgin

Hvað gerði ég um helgina síðustu?

Helgin var frábær, skítakuldi, vatnið frosið og mikið nesti (sem í var bara brauð, ávextir, grænmeti og einn kvöldverður).

Þetta byrjaði á því að ég var að hlaupa á milli dæluskúrsins og sumarbústaðarins til að fá vatnið í gang.. það gekk ekki en eyddi um klukkutíma í þessu hlaup.

Fékk mér svo að borða og hengdi upp 6 a3 blöð þar sem ég skrifaði nokkur lykilorð. Setti síðan post-its miða á þessi blöð og skrifaði á þá nokkur orð. Gerði síðan nokkrar jógaæfingar (stólinn, hundinn og fleiri sem ég man ekki nöfnin á) og talaði síðan við sjálfan mig í um klukkutíma. Sagði sjálfum mér frá þessum plakötum og hver væri tilgangurinn með þeim.

Las síðan Fíasól í Hósiló og fór að sofa.

Vaknaði og kláraði bókina "saga um Stúlku" eftir Mikael Torfason. Fór þá fram, tók fleiri jógaæfingar og tók plakötin niður, losaði post-its miðana af þeim og hengdi þá upp annars staðar. Fór síðan í gegnum öll plakötin og skrifaði niður lausnir, markmið og dagsetningar. Fékk símtal í miðri vinnunni og þá hvarf einbeitningin. Fór þá að lesa bókina "ástaraldin" eftir einhvern Hollenskan höfund. Kláraði hana. Dottaði, vatnið komst í lag, fór í sturtu.

Eldaði mér mat, fór í göngutúr, talaði við vin minn í klukkutíma um ákveðið mál, tók nokkrar æfingar og hélt áfram vinnunni. Lauk við öll plakötin og hengdi þau upp. Var mjög sáttur við þessa vinnu.

Lagðist upp í rúm og byrjaði að lesa Baróninn e. Þórarinn Eldjárn.. sofnaði yfir henni.

Vaknaði, sturta, þreif, borðaði, tók saman og fór. Tappaði vatnið af bústaðnum.

23 mars, 2006

Aðrir tímar

Aðrir tímar?

Ég hef aldrei upplifað það áður að uppgötva það að allt virðist hafa breyst. Frá því í desember í fyrra hefur líf mitt tekið algerum stakkaskiptum. Miklu meira heldur en ég geri mér grein fyrir. En samt sem áður eru á yfirborðinu ekki svo miklar breytingar.

En það er svo margt sem kraumar í hausnum á mér.. að mér finnst ég vera að springa... hugmyndir.. framtíð.. fortíð.. ákvarðanir sem ég hef tekið.. ákvarðanir sem ég á eftir að taka.. ástin.. fjölskyldan..

þannig að ég ætla gerast einsetumaður yfir eina helgi.. fara upp í sumarbústað.. með sjálfum mér.. borða.. lesa.. hugsa.. plana...

sjá hvort að ég geti ekki leyst úr þessum hnút.

21 mars, 2006

Veikindi pabba

Hvað gerðist fyrir pabba?


Ég er búin að vera skoða (gúgla) þetta vandamál sem pabbi var að ganga í gegn. Reyna að átta mig á því hvað kom fyrir.

Miðað við upplýsingarnar sem ég fékk frá læknunum þá er orsökin baktería sem heitir Staphylococcus aureus. Þetta er baktería sem er nokkuð algeng og er oftast í formi matarareitrana, getur líka orsakað útbrot og greftri í húð. En hún getur líka tekið alvarlegri mynd. Ef bakterían fær aðgang að líkamanum í gegnum opið sár þá getur hún valdið greftri og ígerð. Sérstaklega er fólk með gerviliði í hættu.

Pabbi er með gervimjaðmalið og bakterían tók bólfestu í honum og orsakaði ígerð á því svæði. Þetta var ekki uppgötvað strax, haldið að þetta væri vöðvafestingar sem væru í krampa. Veiran fór að dreifa sér um líkaman. Olli ígerð í olnboga, einni tá og hendi. Þegar það var gerð blóðprufa á honum þá uppgötvaðist það að bakterían var komið í blóðið. Hann var komin með blóðeitrun (eða orðin septískur). Það ástand þýðir einfaldlega að sýkingin er komin á mjög alvarlegt stig og innri líffæri fara að gefa sig. Pabbi fékk lungabólgu, nýrun voru orðin veik, lifrin var byrjuð að bila og brisið var orðið bólgið.

Við þessu eru nokkur skref sem eru tekin. Öllum greftri er hjálpað að koma út úr líkamanum, með skurðaðgerðum, það er dælt í fólki sýklalyfjum í stórum skömmtum og gefið hinu ýmsu lyf til að hjálpa líffærunum að starfa, síðan er fólk sett í öndunarvélar og nýrnatæki ef þau líffæri virðast vara gefa sig. Pabbi fór í öndunarvél en nýrnavélin var ekki sett í gang.

Pabbi er heilsuhraustur kall, borðar hollan mat, hreyfir sig mikið, reykir ekki og drekkur í hófi. Það er að hjálpa honum gríðarlega. Núna er hann að vakna aftur eftir mánaðarsvefn, var tekin úr öndunarvél í fyrradag og er að braggast ágætlega. Þetta á eftir að vera langur gangur fyrir hann en ég hugsa að hann verði snöggur að ná sér eftir þetta.

Nánari lesning

http://www.ust.is/Matvaeli/Matvaelafrettir/nr/1699

15 mars, 2006

Breyttir tímar

Breytt aðstaða


Jæja fyrir 3 mánuðum síðan var ég 94,7 kg. Á leið til Tékklands og sagði við sjálfan mig "alveg sama hvað kemur fyrir þá mun líða 6 mánuðir þangað til að ég hugsa að flytja til Íslands aftur". Ég var tiltörulega bjartsýnn á framtíðina.

Núna...

Ég er 89,5 kg. Komin til Íslands aftur - örlögin hafa tekið ærlega í taumana. Byrjaður að vinna í vinnu sem mér hefði aldrei dottið að fara í... örugglega einn rólegasti vinnustaður sem ég hef kynnst. En líst vel á vinnuna. Þrátt fyrir allar þessa atburði sem mætti líkja við að fimm beljakar hafi gengið í skrokkinn á mér og skilið mig eftir í blóði, ælandi öllum innyflum út.. þá líður mér bara ágætlega. Pabbi á batavegi og margir mjög góðir hlutir sjást við sjóndeildarhringinn. Ef eitthvað þá er ég bjartsýnni núna en ég var.
Þannig að mér líður svo sem ekkert illa... mætti losna við þetta djöfulsins hor sem er að drepa mig lifandi.

10 mars, 2006

Breyting og söltun

Breyting og söltun

Stundum gerast atburðir sem skilja mann eftir í lausu lofti. Er búin að vera þrjár vikur á Íslandi og mun vera hérna lengur. Öll dvöl í útlöndum hefur verið söltuð. Pabbi mun dvelja næstu mánuði á spítala og síðan mun löng endurhæfing taka við.

Jæja.... lítið hægt að gera í því. Ætla sparka R-inu úr rúminu mínu og ætla svipast um eftir vinnu. Veit einhver um vinnu fyrir mig?

Þessir atburðir sem hafa verið að dynja yfir mig síðustu mánuði hafa skilið mig eftir agndofa. Allar mínar áætlanir, öll mín plön.. allt.. er orðið breytt. Finnst ég vera hangandi í lausu lofti. Vitandi ekki neitt. En núna þarf ég bara að taka einn dag í einu.

02 mars, 2006

Brói að blogga

Plögg


Maður verður alltaf að plögga af og til. Núna ætla ég að hvetja fólk til að heimsækja rafrausið hans bróður míns slóðin er joingi.blogspot.com


Annars eru engar fréttir af pabba. En jafn veikur. Ég hef ekki sofið almennilega síðan ég kom frá Tékklandi og það stökk á heilsuna mína og er orðin frekar slappur, einhver hitavella og hálsbólga.

Takk fyrir kveðjurnar. Ég veit að föður mínum myndi þykja vænt um þær.