08 september, 2007

Fyrstu dagarnir

Jæja nú virðast málin vera að róast. Það eru komnir 4 starfsmenn inná kjarnann minn svo að við erum fullmönnuð, enn sem komið er. Það á eftir að taka 3 litla gaura frá litla kjarna inná minn kjarna (Rauðakjarna) og þá þarf mjög líklega einn til viðbótar. En þessi flutningur verður ekki framkvæmdur strax.

Íbúðin er frábær en það er mikið eftir að taka upp úr kössum. Ég er nú að vinna síðustu vaktina mína í fjölmiðlavaktinni og ég er feginn að hætta hérna. Þetta er komið gott. Kominn með hundleið á öllum fréttum og finnst fjölmiðlar á Íslandi vera óþolandi.

Nú verður tekið stefnuna á að koma kjarnanum mínum í lag. Fínpússa dagskipulag, undirbúa vel hópastarfið með stórahóp sem ég stjórna og athuga hvað 5 ára kennsla þýðir, hinn kjarnastjórinn er alltaf að tala um 5 ára kennsluna og ég segi hmm.. og jámm á réttum stöðum án þess að vita hvað hún á við. En það ætti nú að skýrast fljótlega.

Fjarbúðin við kærustuna er erfið en ég nýt þess þeim mun meira að hitta hana þegar tækifæri gefast.

Hann Hallur hefur reynst frábær sambýlismaður og ég keypti meira að segja kaffi handa honum fyrir vel heppnaða máltíð sem hann eldaði handa mér og samstarfsmönnum mínum síðasta fimmtudag.

Annars bið ég að heilsa öllum sem ég hef ekki heyrt í og ætla á næstu vikum að reyna heyra í flestum þeim sem ég hef vanrækt síðustu vikur/mánuði.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli