07 nóvember, 2008

Þetta gekk ekki upp

Fyrir mörgum árum þá lenti ég í ástarsorg. Þáverandi stóra ástin í lífi mínu hætti með mér og ég var rosa sár. Talaði um þetta við alla sem ég hitti og velti mér upp úr þessu.

Síðan fór ég að vinna í sumarvinnu og hitti þar einn aðila sem ég hafði verið að vinna með um jólin. Hann spurði mig um kærustuna og þá sagði ég að við höfðum hætt saman.

"Nú?" Sagði hann og hleypti í brýrnar.
"Já, hún var ekki lengur hrifin af mér og vildi að við værum vinir og síðan fór hún að tala um einhvern annan gaur..."
"Heyrðu, Jens" Sagði vinnufélaginn og greip fram í fyrir mér. "Það þýðir ekkert að vera velta sér upp úr þessu. Ef einhver spyr þá er bara best að segja það gekk ekki upp." Síðan fann hann sér eitthvað annað að gera, afgreiða viðskiptavin eða eitthvað.

Ég sá alveg að hann hafði engan áhuga að hlusta á eitthvað röfl í mér. Mig tala um einhverja ástarsorg og mínar vangaveltur um hvað hafði farið úrskeiðis. Þetta varð til þess að ég opnaði augun, ekki of mikið samt. Ég röfla enn um ástina við vini mína en ég reyni að velta sem minnst úr þessu. Já, ég er í ástarsorg. Já, ég er sorgmæddur og er í niðursveiflu.

En best er að segja "Sambandið gekk ekki upp".

Engin ummæli:

Skrifa ummæli