10 apríl, 2011

Icesave og framtíðin

Jæja núna lítur út eins og ég bjóst við. Meiri hluti Íslendinga kaus að segja Nei við samningu um Icesave. Ég kaus já eftir mikla íhugun en ég vonaðist eftir að það yrði sagt nei.

Ég veit, svolítill geðklofi þar en ég skal reyna að útskýra.

Ég sagði já vegna þess að samviskan mín bauð ekki upp á annað. Ég taldi að Íslendingar beri ábyrgð á því að hollenskir og breskir skattgreiðendur töpuðu helling af pening vegna þess að þeir lögðu sína peninga inná íslenska reikninga. Ég taldi (og tel enn) að Íslendingar beri ábyrgð á þessu vegna þess að þeir leyfðu þessu að gerast, það voru íslenskir aðilar sem stunduðu þessa rányrkju með aðstoð íslenskra stjórnvalda. Og við, hinn íslenski almúgi, berum ábyrgð á íslenskum stjórnmálamönnum.

En ég vonaði að það yrði sagt nei vegna þess að hlutirnir þurfa að breytast. Það er ríkisábyrgð á innistæðum banka. Íslenskir skattgreiðendur upplifðu hrun allra banka en gátu samt gengið að sínum fjármunum í flestum tilfellum. Það var dælt milljörðum í bankanna til að leyfa hjólum samfélagsins gangandi. Ímyndið ykkur ef íslenska ríkið hefði ekki gert þetta, engin hefði getað notað debetkort, engir posar virka, enginn fær greidd laun, fyrirtæki hefðu ekki getað náð í fjármuni sína. Eruð þið að ná þessu?

Svona er okkar samfélag, bankar eru órjúfanlegur hluti af nútímasamfélagi. Ég tala nú ekki um að bankalán o.s.frv.

En síðustu ár, um það bil 20 ár, þá hafa bankar orðið eitthvað annað heldur en mikilvæg grunnstoð samfélagsins. Þeir hafa eignast sitt líf og orðið að peningaverksmiðjum. Þeir stunda fjárfestingar í miklum móð og skapa pening úr peningum. Þeir lána hvor öðrum gríðarlegar fjárhæðir og geta síðan fengið meiri peningin vegna lánanna sem þeir hafa sett út. Þeir hafa orðið að spilavítum þar sem menn tala um áhættur og því meiri áhætta því meiri gróði.

Og nú erum við að súpa seyðið af þessu, bankar sem fengu frelsi hlupu út um allan heim og lánuðum hvor öðrum, keyptu hlutabréf í sjálfum sér til að halda uppi verði, og stunduðu ótrúlega ósiði.. þeir féllu. Við fengum reikninginn og Icesave er bara lítill hluti af því, hundruðir milljarðar voru settir í banka, seðlabanka, tryggingafyrirtækja o.s.frv.

Þetta verður að stöðva. Nú eru Íslendingar búnir að segja nei við IceSave. Nú þurfa dómsmál að fara í gang. Dómsmál sem ganga út á grundvallaratriði. Satt að segja þá ganga dómsmálið út á eina klausu í EES samningum, sem að mínu áliti er skýr. En er hún réttlætanleg og ef hún er ekki réttlætanleg... hvað þá?

Það er rétt sem Eva Joly, og þessi Micheal hvaðsemhannheitir prófessor í USA segja.. fjármálakerfið er rotið og það þarf að breyta því. Að segja nei er kannski hluti af því. Spennandi möguleiki.

En ég gat ekki sagt nei í þessum kosningum vegna þess við tókum þátt í bullinu og ég get ekki með góðri samvisku sagt við breta og hollendinga "farið í rassgat, ég er sáttur við að geta gengið að sparnaðinum mínum, en þið megið eta það sem úti frýs"

1 ummæli:

  1. Góðar pælingar hjá þér Jens. Mjög ábyrg afstaða. Ekki við öðru að búast af ábyrgum fjölskylduföður. :)

    SvaraEyða