30 september, 2007

Helgin

Helgin var mjög fín. Horfði á tvær myndir á föstudaginn, Köld slóð og Babel. Báðar voru ágætar. Á laugardaginn var skroppið á bókasafnið, verslað í Kringlunni og síðan skroppið í heimsókn til tengdó í smá spjall. Glápt á imbann um kvöldið og farið að sofa.

Ég vaknaði báða dagana fyrir klukkan 9. Alveg sama hvenær ég fór að sofa. En kannski er það bara gott að maður vaknar svona snemma. Gott fyrir vinnuna.

27 september, 2007

Hjallastefnan

Ég var að skipta á bleyju á einum af yngri strákunum í gær þegar einn af hinum 5 ára "stóru" strákum stekkur inn og segir þeir eru búnir að opna hurðina og eru að fara út. Ég vissi hvaða hurð þeir voru að tala um, hún er í leikstofunni og er alveg ferleg. En þar sem ég var klæddur í latex hanska og var upp að olnboga í skít þá gat ég augljóslega ekki stokkið af stað. Þannig að ég leit á drenginn og sagði þú verður að stoppa þá. Um hálfri mínútu síðar þá var ég kominn með drenginn í bleyjuna og arkaði af stað, reiðubúinn til að setja mig í löggustellingar og stöðva drengina og urra svolítið. Þá sér einn af hinum 5 ára mig vera að rölta í átt að leikstofu og kallar "þetta er allt í lagi, þeir eru hættir og ætla ekki gera þetta aftur". Ég lít á hann, kíki inn í leikstofu þar sem 4 drengir eru og enginn virðist vera týndur. Kinnka kolli til drengsins sem kallaði og hrósa þeim öllum fyrir að leysa þetta mál. Fer svo og klæði bleyju drenginn í buxur.

Þetta var hjalla móment.

25 september, 2007

4400

Hef verið að horfa á þriðju og fjórðu seríu af 4400. Þetta er rosa góðir þættir en maður veit ekki hvort að ný sería verður gerð. Sem er leitt vegna þess að fjórða serían var nokkuð góð.

En svona er lífið.

Spilaði í fyrsta sinn á sunnudaginn, roleplay, á þessum stað. Það var nokkuð skemmtilegt og vonandi verður það endurtekið fljótlega. Það dóu 4 karakterar (Gústi tvisvar).

Annars eru fáir sem koma í heimsókn og lífið er einhvern veginn voða rólegt. Æsingur í vinnunni, stress o.s.frv. en það er eitthvað sem á eftir að ganga yfir og er orðið mun betra.

18 september, 2007

Veikur

Sataníska veiki. Ég er veikur. Hálsinn bólginn og með einhvern hitavott og beinverki. Rosa gaman.

Er í fríi frá skólanum, verður gaman að sjá hvernig það gengur.

Hef ekkert að segja.

Og þá er best að segja ekkert.

08 september, 2007

Fyrstu dagarnir

Jæja nú virðast málin vera að róast. Það eru komnir 4 starfsmenn inná kjarnann minn svo að við erum fullmönnuð, enn sem komið er. Það á eftir að taka 3 litla gaura frá litla kjarna inná minn kjarna (Rauðakjarna) og þá þarf mjög líklega einn til viðbótar. En þessi flutningur verður ekki framkvæmdur strax.

Íbúðin er frábær en það er mikið eftir að taka upp úr kössum. Ég er nú að vinna síðustu vaktina mína í fjölmiðlavaktinni og ég er feginn að hætta hérna. Þetta er komið gott. Kominn með hundleið á öllum fréttum og finnst fjölmiðlar á Íslandi vera óþolandi.

Nú verður tekið stefnuna á að koma kjarnanum mínum í lag. Fínpússa dagskipulag, undirbúa vel hópastarfið með stórahóp sem ég stjórna og athuga hvað 5 ára kennsla þýðir, hinn kjarnastjórinn er alltaf að tala um 5 ára kennsluna og ég segi hmm.. og jámm á réttum stöðum án þess að vita hvað hún á við. En það ætti nú að skýrast fljótlega.

Fjarbúðin við kærustuna er erfið en ég nýt þess þeim mun meira að hitta hana þegar tækifæri gefast.

Hann Hallur hefur reynst frábær sambýlismaður og ég keypti meira að segja kaffi handa honum fyrir vel heppnaða máltíð sem hann eldaði handa mér og samstarfsmönnum mínum síðasta fimmtudag.

Annars bið ég að heilsa öllum sem ég hef ekki heyrt í og ætla á næstu vikum að reyna heyra í flestum þeim sem ég hef vanrækt síðustu vikur/mánuði.

02 september, 2007

Ég er á lífi

Já, þrátt fyrir bloggleysi þá er ég á lífi og við ágæta heilsu. Þetta er erfitt verkefni sem tekur mikinn toll af minni geðheilsu og satt að segja þá hef ég lítið af orku til að sinna öðru, þ.á.m rafrausi.

En vonandi lagast það á næstu vikum, mánuðum. Nú ef ekki þá er eflaust nægur tími að rafrausast þegar ég er kominn með tölvuréttindin á geðdeild Landspítalans.

Ef einhver vill koma í heimsókn þá er honum það velkomið. Eftir vinnu (um klukkan hálf sex) þá ligg ég oftast upp í rúmi í fósturstellingu og hef nægan tíma til að spjalla.