17 maí, 2006

Afmæli

20. maí - stóri dagurinn

Næstkomandi laugardag á síðuhaldari afmæli. Hann verður 29 ára gamall. Dagurinn sem maður á að líta til baka og fagna þessum árum. Þessum gleðitíðindum.

Oftast er þetta fagnað með veislu þar sem vinum og vandamönnum er boðið í. Ég hef ekki haldið almennilegt afmæli síðan ég náði þeim merka áfanga að verða tvítugur. Þá var sko tekið á því. Haldið almennilegt partí í heimahúsi þar sem allir voru boðnir. Það var dansað, drukkið, reykt út í garði, spjallað og fleira. Það partí skiptist í tvennt, edrú herbergið og hinir. Í því partíi myndaðist mikið af slúðursögum. Um Óla og Tinnu sem eru hjón í dag... ekki vegna þessara veislu. Vita örugglega ekki af því að þau voru nálægt hvort öðru. Partíið þar sem Halli Dökk stakk undan vini sínum. Þar sem Unnar og Tóti lentu á einhverju rosa spjalli. Þar sem Rúnar tók rosalega diskó takta inní stofu o.fl.

Hef ekki haldið almennilegt partí síðan. Var líka gestgjafinn svo að ég þurfti að vera flakkandi á milli fólks og haldandi stemmingunni uppi. Langaði lítið að vera gestgjafinn þá.

Ég ætla ekkert að halda upp á afmælið mitt. Kannski bjóði fólki í köku ef ég nenni að baka. Er búin að tala við R-ið um að gera eitthvað skrall en það er alls óvíst hvort af því verði. Síðan er Evróvísjón um kvöldið svo það rænir svolítið athyglinni frá mér.

Er alltaf með svolitlar blendnar tilfinningar gagnvart afmælum, sérstaklega þegar árin færast yfir. Upplifi það að maður er ennþá alltof ungur í hegðun. Á ekki neitt nema bækur, er ekki enn búin að gefa bókina mína út, ekki enn búin að gerast sjálfboðaliði í afríku, ekki enn búin að marka mín spor á heiminn. En ohh well.. best að reyna fagna því að ég á enn styttra ólifað í dag en í gær.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli