29 nóvember, 2006

Gissur

Gissur

Þessi ágæti vinur minn gerði mér stóran bjarnagreiða á sunnudaginn. Hann lánaði mér bók. Bókin heitir Pandora´s Star og er eftir Peter F. Hamilton.

Alveg frábær bók, ein af þeim betri vísindaskáldsögum sem ég hef lesið. Með fjöldann allan af persónum sem eru verða einhvern vegin raunverulegir og lifandi í meðförum höfundsins. Hann býr til heim sem virkar og söguþráð sem heldur manni í heljargreipum.

Ég kláraði bókina í gær. Byrjaði að lesa hana á mánudaginn. Sem er svo sem normal fyrir mér en þessi bók hafði þann ókost að vera eitt þúsund blaðsíður. Og það má ekki gleyma því að þetta er fyrri parturinn í tveggja bókaflokki og endar í algerlega í lausu lofti.

Þannig að ég las að meðaltali um 330 blaðsíður á dag. Þannig að ég gerði mest lítið annað en að lesa (samt tókst mér að klára að skrifa upp síðasta viðtalið og vinna tvær vaktir).

Gissur.. ég ætla ekki að fá lánaðar bækur frá þér í um það bil mánuð!

28 nóvember, 2006

Jarðafarir og brúðkaup

Jarðafarir og brúðkaup

2 brúðkaup og 2 jarðafarir á þessu ár. Ætli það sé ekki jafnt skipt.. hamingjudagur og síðan verði að kveðja einstakling.

Það hugsa ég, maður spyr sig samt stundum. Ég var ekki nátengdur neinum í brúðkaupunum.. þ.e.a.s þeim sem var að giftast.. en gróf afa minn en það var komin tími á hann. Í jarðaförinni sem ég fór í gær hugsa ég að flestir hafi hugsað að það væri ekki komin tími á þann einstakling sem fór snögglega.

Maður horfir svolítið bjargarlaus á nákomna ættingja og veit eiginlega hvort og þá hvað maður getur sagt. Var lítið sem ég get gert, nema bara vera.. og kannski er það nóg.. æji ég veit það ekki..

ég veit ekki einu sinni hvað ég er að segja hérna..

En ég er allavega búin að ákveða að breyta jarðarfaratilhögunni minni. Búin að segja kærustunni frá því.. svo ef ég dey í dag eða á morgun án þess að breyta því þá getið þið spurt hana.

18 nóvember, 2006

Nefhár

Nefhár

Ég er með eitt pirrandi nefhár í vinstri nös. Það vex út. Á nokkurra mánaða fresti finn ég fyrir litlum pirringi í vinstri nös og eftir smá könnun finn ég að hárið illræmda er komið. Ég veit ekki hvað er við þetta eina hár en það fer alveg ótrúlega í mínar fínustu taugar. Ég gríp um það langar rosalega til að kippa en þegar það er komin smá þrýstingur á það þá er ég byrjaður að finna til mikils sársauka og finn að þetta myndi verða gríðarlega vont. Þá hefst leit að skærum til að klippa þetta. Auðvitað segir maður ekki, ef maður er í heimsókn og fattar að hárið er að pirra mann, "má ég fá lítil nett skæri til að klippa pirrandi nefhárið í burtu."

það var akkúrat svoleiðis í morgun. Hárið var búið að pirra mig gríðarlega allan morguninn og í gærkvöld. Þá lítur dóttir kærustunnar á mig og segir "Þú ert með hár í nefinu" segir þetta auðvitað gríðarlega hátt og snjallt þannig að það glymur í öllu húsinu. Ekki bætti það sálarástandið á mér.

Það var líka eitt af fyrstu verkefnum dagsins þegar ég kom í vinnuna að finna mér skæri og klippa þetta hár í burtu. Spurning um að taka vax-meðferðina á þetta?

Það er víst ekki sniðugt þar sem hárið í nösunum er nauðsynlegt samkvæmt Wikipedia.

14 nóvember, 2006

13 nóvember, 2006

Kærastan

Við



Þessi mynd var tekin við gott tækifæri, ein af þeim betri myndum sem ég á af okkur saman. Ég tók þessa mynd með því að halda myndavélinni frá mér. Þegar ég var að fara yfir þessar myndir fyrst með henni og þá var þessi mynd meðal mynda þá sagði hún ekkert við henni og ég varð svolítið skúffaður vegna þess að mér fannst hún frábær, jú ég var frekar líkur bróður mínum þarna en mér fannst hún ekki of ýkt og brosið sem hún sýnir er eðlilegt (hnuss.. verð að finna betra orð.. genuine). En síðan liðu nokkrir mánuðir og þá sá hún þessa mynd aftur og svór að hún hafði aldrei séð hana áður. Ég lét auðvitað hana fá eintak (frekar auðvelt í gegnum tölvuna líka). En þá mætti hún með hana á síðasta fimmtudag til mín svarthvíta og innrammaða. Nú er hún hliðiná rúminu mínu.

Ég hef ekki oft skrifað í gegnum tíðina um mín ástarsambönd. Fannst það einhvern vegin óviðeigandi og kjánalegt. Svona kjánahrollslegt... til hvers að láta fólk vita að maður er hrifin af einhverjum? Finnst það eiginlega miður að þrátt fyrir öll mín stóru orð og fyrirætlanir þá á ég erfitt með að hafa þetta opinbert.

09 nóvember, 2006

Ritgerð

Status á Ritgerð

50 heimildir hafa verið skoðaðar, flokkaðar og gerðar úrdrátt úr í exel skjali. Um 30 eru nothæfar. 3 mjög mikilvægar heimildir verða notaðar mikið í ritgerðinni.

3 viðtöl eru búin. Búin að skrifa upp tvö þeirra. Mun taka vonandi eitt viðtal á morgun, kannski tvö. Á eftir að taka svona 4-8 viðtöl í viðbót, mun gera þau eftir þörfum.

Er búin að skrifa tvö kafla "árangur kynfræðslu" og "ástand kynfræðslu í íslenskum skólum", á auðvitað eftir að betrumbæta þá tvo verulega. En þeir eru komnir.

Er búin að rita upp drög að inngangi og búin að setja upp efnisyfirlit.

Ég lærði það í sumar í Þjóðarbókhlöðunni að góð verkfæri geta aðstoða mann með verkefnin gríðarlega. Þess vegna hrósa ég þessum MP4 spilara sem ég keypti fyrir lítið fé og hélt að væri algjört dót, en hefur gagnast mér rosalega vel. Diktafóninn í honum er mun betri en ég bjóst við... mun betri... gæti eiginlega ekki verið betri.

Leiðbeinandi minn er Guðný Guðbjörnsdóttir og síðan hef ég fengið ómetanlega aðstoð hjá Sóley S. Bender. Þeir sem þekkja vel feril minn í Háskólanum ættu að vera mjög undrandi yfir þessum nöfnum þar sem ég hafði fyrir ritgerðarsmíðina ekki góða reynslu af þessum kvenmönnum.

En eins og staðan er í dag þá lítur þetta mjög vel út.

08 nóvember, 2006

Innflytjendur

Innflytjendur

Mál málanna er að þessu sinni Innflytjendur og áhrif þeirra á íslenskt þjóðlíf. Er Ísland að kafna undan útlendingum, nennir þetta fólk ekki að læra tungumál okkar, eru þeir að ræna vinnunni af okkar vinnufólki?

Frjálslyndi flokkurinn sem er búin að missa mitt atkvæði gersamlega fyrir fordómafulla umræðu, eru búnir að vekja mál á þessu máli. Vandinn tengdan útlendingum. Þeir hafa ýjað að því að útlendingar séu að ræna vinnu af Íslendingum vegna þess að þeir eru tilbúnir að vinna fyrir lág laun. Það er ýjað að því að þessu fólk sé því að kenna að það eru lág laun í sumum stéttum.

Þetta er þarft umræðuefni, engin spurning en það er miður að umræðan skuli hafa farið á þessa leið. Hann Paul F. Nikolov hefur verið að fjalla um aðstæður innflytjenda í nokkurn tíma og segir að það sé vandi á ferðinni en því miður þá voru hans tillögur og hans orð ekki eins "heitar" og þær sem hann Magnús er með.

Atvinnuleysi er 1% á öllu Íslandi. Sem þýðir að það er ekkert atvinnuleysi. Það er skortur á vinnuafli. Fólk ræður sig ekki í vinnu sem kassadama í Bónus eða í Hagkaup, það stekkur ekki til þess að skeina gömlu fólki inná hjúkrunarheimilum. Útlendingar eru byrjaðir að afgreiða í Bónus, með tilheyrandi þjónustumissi (en ég verð að játa að það er svo sem engin nýlunda að þjónustan sé hræðileg í Bónus, ekki hef ég orðið var við mikla þjónustulund hjá þessum 17 ára unglingum sem hafa verið að afgreiða mig), útlendingar eru byrjaðir að vinna á hjúkrunarheimilum við að hugsa um okkar gamla fólk. Það eru lág laun borguð í þeim geira svo það er eiginlega mjög skiljanlegt þar sem þú getur fengið vaktavinnu í Select sem borgar tvöfalt meira, að fólkið flykkist ekki að í að vinna á hjúkrunarheimilum. Það ætti að borga starfsfólki betri laun. Já, það ætti að gera það en þetta eru ríkisbatterí og það eru bara ekki peningar til að borga þessu fólki betri laun.

Við heyrum sögur af Pólverjum sem búa 8 saman í 3 herberga íbúð og hneykslumst á því. Við sjáum myndir og heyrum af starfsmannaleigum sem fer með starfsfólk sitt eins og skít, dregur 40 þúsund króna leigu af launum þeirra fyrir að búa í einhverri kytru með 8 öðrum. Hvað gera verkalýðsfélögin, hvað gerir ríkisvaldið þegar það er augljóslega brotið helling af reglum?

Við Íslendingar berum ábyrgð á þessu! Við höfum flutt þetta fólk inn í bílförmum til þess að vinna vinnu sem fáir vilja vinna. Það eru ekki peningar til þess að borga almennileg laun og það er nóg af vinnu að fá svo hvers vegna ættum við, Íslendingar, að þurfa að vinna í einhverri skíta vinnu. Við höfum komið okkur upp þrælum, við flytjum þá inn, borgum þeim skítalaun, látum einhverja feita kalla sem stjórna starfamannaleigunum komast upp með það að fara illa með erlend vinnuafl, við skikkum útlendingana sem vilja setjast hér að í rándýrt íslenskunámskeið sem gagnast þeim illa, við tölum ensku við þá ef okkur finnst þeir tala slæma íslensku, við erum svo upptekin af gróðanum að gamalt fólk, öryrkjar, fólk með skerta vinnugetu verður eftir í lífsgæðakapphlaupinu.

Fólkið sem kemur til landsins er að koma til að vinna í flestum tilfellum, það er engin skylda á þeirra herðum að læra Íslenskt tungumál, hvers vegna, það er bara að koma og vinna. Ef það ætlar að setjast hér að þá þarf það að læra tungumálið. Það er fáránleg hugmynd að ætlast til þess að fólk sem kemur hér til að vinna þurfi að læra tungumál okkar.. eða ímyndið ykkur ef þið ákváðuð að fara vinna við að týna appelsínur í Ísrael og þyrftuð nauðsynlega að læra tungumálið í landi sem þið ætluðu kannski að vinna í 6 mánuði.

Hvað gætum við gert? Við gætum bætt íslenskunámskeiðin, látið allt erlent vinnufólk fá upplýsingar um réttindi sín á sínu eigin tungumáli þegar það kemur til landsins, við gætum tekið allsherjar úttekt á aðstæðum, launum erlends vinnufólks, við gætum grandskoðað þessar starfsmannaleigur og svipt þær starfmannaleigur réttindi sem eru að fara illa með erlent starfsfólk.

04 nóvember, 2006

Breytingar

Breytingar að vænta

Ég hef stundum minnst á það að mig langar að breyta síðunni minni. Og nú er svo komið að google keypti bloggerinn og er komin með nýjan blogg editor. Sumir eru svo heppnir að geta bara fært gamla bloggið yfir í nýja en sumir eru ekki eins heppnir. Svo ég bjó til nýja vefsíðu til þess ða geta fiktað í þessu nýja dóti. Ég hef verið mjög hrifn af því hvað google er að gera, og sú hrifnig jókst þegar ég fór að fikta í þessu.

ég er samt ekki sáttur við nýja lookið. Ég vil hafa linka báðum megin eins og ég e rmeð hérna. En mig langar rosalega í archive dótið þeirra og þeir eru með label setting sem ég mun hiklaust nýta mér.

Það sem mig langar að setja á síðuna mína eru linkar yfir á vini - fjölskyldur - myndasíðan þarf að hafa góðan sess, síðan er ég að spá hvort að ég eigi að hafa svona "er að hlusta" og "er að lesa" Prófíllinn þarf að koma sterkariinn og ég er að spá að hafa head bannerinnn með myndum... mig langar jafnvel að hafa mynd af mér sem breytis þegar maður refreshar.... en það gæti verið of mikið ego.. ég veit ekki...

en allavega þá er einhverra breytinga að vænta á næstunni. Á eftir að íhuga hve róttækar þær eiga að vera. Er meira segja að spá að rifja upp dreamweaverinn og sjá hvort að ég geti bara ekki hannað mitt eigi template.

02 nóvember, 2006

Geggjun?

Í gær þá vaknaði ég klukkan 05:45, réttara væri sagt að ég stillti klukkuna mína þá og dröslaðistá fætur 20 mín seinna)

Ástæðan fyrir þessu var þetta rölt sem ég tók. Ég tók 25 mínútna rölt heiman frá mér til Egilshallar. Leiðin sem ég fór sést á meðfylgjandi korti.

Þar hófst nefnilega svokölluð herþjálfun klukkan 07:00. Ég persónulega myndi ekki kalla þetta herþjálfun, minnti mig frekar á gömlu góðu stöðvarþjálfunina sem maður stundaði í gamla daga í íþróttatímum.

En ég mætti á réttum tíma og tók þátt í þessari þjálfun, skemmti mér ágætlega og svitnaði talsvert.

Seinna um daginn fann ég fyrir mikill þreytu í líkamanum og síðan var farið í sund og hamast með 2 skemmtilegum krökkum, fann að ég var byrjaður að stirðna upp talsvart eftir þá skemmtun.

Þegar ég vaknaði í morgun þá leið mér ekkert sérstaklega vel og var nokkuð stirður. Sjit.. hvað ég er með miklar harðsperrur.

Á morgun ætla ég að endurtaka leikinn.