Það var ýmislegt sem ég breytti á síðastliðnu ári, breytti í fari mínu. Ég keypti mér jakkaföt og bindi og lærði að binda bindishnút og hef náð ágætri færni í því að binda svoleiðis hnúta. Á síðasta ári þá keypti ég 4 bindi og fékk eitt gefins.
Ég fór að nota rakakrem fyrir húð. Byrjaði á að bera á allan skrokkinn en eftir að ein svitaholan stíflaðist vegna kremsins þá hætti ég að bera á líkamann og lét nægja að bera á andlit, hef ekki hætt því enn.
Hugsaði um hvernig fötum mér líkaði að vera í og keypti bara þau. Hætti að reyna þykjast vera peysukall eða sportsokkakall. Þá hafa flauelsbuxur verið í uppáhaldi og keypti mér margar skyrtur af ýmsum litum.
Ég missti mörg kíló í mars og þau hafa haldist í burtu, ótrúlegt en satt. Bjóst við því að þau mundu kíkja í heimsókn um jólin en ég hugsa að endajaxlinn hafi haldið þeim frá.
Skrifaði 5 kafla í vísindaskáldsögu og finnst ennþá eins og ég eigi eftir að bæta við. Sagan er svolítið rúnk en mér finnst hugmyndin góð og þeir sem hafa lesið hafa annaðhvort þagað um hana eða sagt að hugmyndin sé fín (ég geri mér grein fyrir að það er þarna ýmislegt ósagt en það bíður bara betri tíma).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli