02 janúar, 2007

2006-2007

Þetta ár byrjar ekki vel. Eftir 4 tíma fer ég til sérfræðings í munn- og kjálkaskurðlækningum og ég býst fastlega við því að hann rífi úr mér eina tönn. En það er ekki allt þar sem ég hef verið að taka sýklalyf vegna tannarinnar og þau eru að hafa mjög slæm áhrif á meltinguna mína (sem var ekki sérstaklega góð fyrir). En síðan en ekki síst þá hef ég verið að þjást vegna bakleiðinda síðustu tvo daga. Er með eitthvað tak í vinstri öxl, nánar tiltekið undir og í kringum vinstra herðablaðið. Á erfitt með að líta til vinstri og það eru vissar hreyfingar sem valda mér miklum óþægindum.

Síðan má ekki gleyma því að ég var að taka game of thrones í gær og það var verið að taka mig í kennslustund um hvernig á að tapa af byrjenda í spilinu, af honum Gústa. Ekki sáttur við það.

En 2006 var ár öfga, mjög mikilla öfga. Á því ári lærði ég það að örsmáir hlutir geta snúið lífi manns á hvolf. Það má segja að lítil baktería hafi kennt mér talsvert um mig sjálfan, forgangsröðun lífs míns og margt fleira. En á þessu ári kynntist ég Ester og það er enn blússandi hamingja þar í gangi.

Á síðasta ári lærði ég líka talsvert á skattmann og mun ég ráðleggja öllum hér með að kynnast honum ekki náið. Ég vann á 6 vinnustöðum á síðasta ári.

En á þessu ári eru eftirtaldir hlutir að fara að gerast. Ég verð 30 ára gamall, ég mun útskrifast úr Háskóla Íslands með B.a gráðu í uppeldis- og menntunarfræði.

Já.. þar er það upptalið í sambandi við áætlanir ársins.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli