Ég brotnaði næstum niður áðan. Fann kökk myndast í hálsinum og fann að tárkirtlarnir fóru að undirbúa sig undir starfsemi. Auðvitað kyngdi ég kekkinum og neyddi mig til að finna það að ég væri karlmaður (í þeim skilningi að karlmenn gráta ekki og grafa alla hluti djúpt niður í sálartetrinu). Það væri svolítið fáránlegt að vera vinna og bresta síðan í grát þegar maður er umkringdur vinnufélögum. Ef ég hefði verið einn eða jafnvel heima hjá mér þá hefði ég örugglega leyft mér að sleppa tilfinningunum lausum. Ég vissi af þessu, var búin að sjá þessa tilfinningaflækja sem ég myndi lenda í en bjóst við því þar sem ég sá þetta í gær að ég myndi ekki finna fyrir einhverjum tilfinningasveiflum. Ég veit að það er önnur hindrun framundan, en þar sem kerfið sem ég vinn í hrundi þá bíður það til seinni tíma (morgun eða í kvöld).
Annars er ég komin með góða aðstöðu til að vinna heima hjá mér. Komið með skrifborð sem er í minni hæð, búin að hækka fartölvuna mína svo skjárinn henti mér, komið með gott lyklaborð og ágæta mús (sem ég rændi reyndar af Guðmundi fyrir nokkrum árum). Og vonandi fæ ég leyfi til þess að vinna heima hjá mér fljótlega.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli