30 júní, 2006

Afi Jói

Jóhann Ingvarsson
Fæddur 29. september 1923 Dáin 30. júní 2006

Afi Jói dó í gær á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ.

Giftur í 53 ár
8 börn
Ól upp sjö
Agatha Christie
Reykti í gleymskuna
Atvinnubílstjóri allt líf sitt
Leigubíll í yfir 30 ár

Bróðir
Eiginmaður
Pabbi
Tengdafaðir
Afi
Langafi

Jarðsungin í Bústaðarkirkju eftir viku

28 júní, 2006

Tilhlökkun

Að hlakka til

Er ekki fáránlegt að hlakka til dagsetningarinnar 3. júlí, og helgina 7-9 júlí? Og hvað þá að vera rosa spenntur fyrir 14. ágúst?

Eins og ég sagði hérna fyrir stuttu þá mun fólk eyða mér úr símaskránni. Ég prentaði út vinnuáætlunina í gær og plastaði hana (stundum er gott að vinna í bókasafni). Hún lítur vægast sagt skemmtilega út. Ég á ekkert líf í sumar. Gjörsamlega ekkert. Mesta vinnutörnin er frá 13. júlí til 13. ágúst. Á þessum mánuði er ég að vinna ALLA helvítis dagana. Nema frá 28-31. júlí en þá verð ég staddur út í útlöndum.

Þannig að ef þessir fækkandi fjölda vina langar að hitta mig þá skulu þeir skila beiðni þess efni minnst tveimur vikur fyrir áætlaðan hitting. Helst ekki taka lengri tíma heldur en tvær klukkustundir fyrir hitting.

Nei, í alvöru, ég er ekkert að grínast með þetta.

En annars get ég hitt fólk á milli fjögur og sex flesta daga. Þá er ég á milli vinna. Helgarnar eru oftast lausar fyrir klukkan sex á daginn (en ekki allar, sérstaklega ekki verslunarmannahelgin). Talandi um það, þá verður farið í göngutúr upp í Reykjadal næsta sunnudag. Hvet ég alla til þess að mæta, með í þá skemmtilegu göngu. Ef það verður slæmt veður þá er alltaf hægt að setjast niður og spila catan eða gera eitthvað skemmtilegt saman. Síðan er helgin 18-19.ágúst. Langar að fara út á land þá.

Sjit.. ég hef aldrei nokkurn tíman þurft að skipuleggja mig svona. Kennir manni að segja ekki já þegar maður er spurður um aukavinnu.

26 júní, 2006

Draumlandið

Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason

Ég fór í þjóðdeild Háskólabókasafnsins á laugardaginn og náði mér í Draumalandið. Fannst þetta áhugaverð bók og eftir vinnu þá fór í niður í Mál og menningu og keypti mér bókina. Kláraði síðan hana í gær.

Þetta er áróðursrit en mjög gott sem slíkt. Hann grefur upp rosalegan skít um málflutning virkjunarsinna og kemur með mjög áhugaverða punkta um virkjanir og stóriðju. Þetta var svolítið eins og Micheal Moore lesning, en satt að segja þá fannst mér hann Andri vera það rökfastur að ég hef ekki enn getað fundið galla á málflutningi hans.

Ég googlaði bókina og fór að lesa umræðu um þessa bók, fór meira að segja á barnaland.is og malefni.com til þess að sjá hvort einhver væri að segja eitthvað með viti. Svo var ekki. Það eina sem ég fann var pistill eftir Þorstein Hilmarsson. Fínn pistill en galin er sá að það er bara gagnrýni á hann en ekkert málinu til stuðnings, engin dæmi engar heimildir. En ég sá að þessi póstur hefur haft áhrif, rakst oft á umræður þar sem var vitnað í hann. Ég sendi tölvupóst til Þorsteins og spurði hann hvort að gæti bent mér á einhverjar frekar lesningu.

En bókin, hún er skemmtileg lesning og það málefni sem hún tekst á við er þess virði að gefa sér þann tíma til að lesa bókina.

24 júní, 2006

Eytt út úr símskránni

Mér verður eytt út úr símaskránni

Eins og alþjóð veit, þá náði ég mér í kvöld og helgarvinnu. Nánar tiltekið er sú vinna á fjölmiðlavaktinni. Þar var ég ráðin í ljósvakadeildina og sé um að afrita kvöld og helgarfréttir. Er búin að mæta nokkrum sinnum og líst bara nokkuð vel á starfið. Auðvitað er ég að komast inní það og er að gera helling af vitleysum og spyr þúsund spurninga. En það er nú bara eðlilegt.

Þegar ég var ráðin var spurt hvort að ég vildi taka nokkrar aukavaktir. Auðvitað sagði ég já, langar í pening og vildi auðvitað aðstoða við afleysingar. Fékk síðan vaktaplanið mitt í gær með drögum að aukavöktum. Jæja ég held að vinir og fjölskylda geti bara eytt mér úr símaskránni í sumar. Sérstaklega í endann júlí og byrjun ágúst, þá er ég upp á vaktinni á hverjum einasta degi. En þannig er lífið, stundum.

Það er nú langt síðan að ég hef unnið svona mikið. Ætli mesta vinnutarnir voru ekki þegar ég vann í SORPU og í vallargerði. En það er svo langt síðan. En ég held að þetta verði ágætt.

Þegar ég var ráðin á vaktina þá var sagt við mig að ég þetta væri mjög einfald starf. Maður þarf að vera nákvæmur, lærdómsfús, með góða heyrn og með stafsetningu á hreinu. Miðað við gagnrýnina sem ég hef fengið á stafsetninguna hérna þá var nokkuð augljóst að fólkið þarna hefur ekki verið að lesa síðuna mína. En þetta er eins og með margt annað í lífinu, lærðu eða hættu, maður þarf bara að taka sig á og bæta sig. Sem betur fer þá er ég að rita niður sem aðrir segja þannig að málfræðin þarf ekki að vera 100% en stafsetningin þarf að batna. Sértaklega n og nn reglurnar.

Ef að í haust ég fer að leita nýrri vinnu þá er nokkuð augljóst af hverju.

23 júní, 2006

Pælingar um andfélagslyndi

Í kaffi


Stundum nenni ég ekki að tala við fólk. Ég er stundum í strætó og sé einhvern sem ég þekki, en langar ekki að tala við þann einstakling. Þá vonast ég stundum eftir því að hann sjái mig ekki og ég gref mig í bókina mína (stundum er ég bara það niðursokkinni í bókina að ég tek ekki eftir hlutunum í kringum mig).

Þetta er stundum svona þegar maður fer í kaffi eða mat í vinnunni. Þá nennir maður ekki að tala eða eiga í einhverjum samræðum. Maður vill stundum eta matinn sinn i friði, horfa á fólkið í kringum sig, spá í sætu stelpurnar og hugsa um sætustu stelpuna. Já það koma tímabil þar sem ég er andfélagslyndur.

Ekki það að ég vilji ekki tala við fólk. Ég vil bara ekki eyða tímanum í einhverjar samræður til þess eins að eiga í samræðum. Finna eitthvað málefni sem báðir aðilar geta rætt um eða segja frá sjálfum sér. Ekki í kaffi, mat eða strætó. Þá getur maður ekki rætt um alla hluti því persónan sem maður talar við er ókunnug (eða sem næst því) eða einhverjir geta verið að hlusta.

Stundum nennir maður ekki að eyða tímanum sínum í svoleiðis hluti. Það koma tímabil þar sem maður nennir því alveg, en ekki í dag. Settist líka með bakið í alla og horfði út um gluggann. Vildi ekki tala um pabba, fótbolta, veðrið eða eitthvað álíka. Langaði bara að hugsa um gærdaginn, framtíðina, fortíðina og vildi líka horfa út á útsýnið (sem var nú ekkert voðalega glæsilegt, Hótel Saga). En í dag þá var það skemmtilegra en að reyna að tala um daginn og veginn.

21 júní, 2006

Eyrun

Eyrun

Fyrir nokkru þá fór ég að vera með verk í hægra eyranu. Eitthvað truflaði mig verulega. Ég fór til læknis á mánudaginn og hann sagði það að ég væri með hlustunarbólgu.

Ég spurði hann um eyrnamerginn og hann sagði klisjuna um að maður ætti ekki að hreinsa eyrun. Eyrnamergurinn myndi losa sig sjálfur. Ég sagði að ég væri að losa eyrnamerginn sjálfur og sagði söguna um að ég hefði sleppt því í smá tíma og þá hefði komið þvílíkur eyrnamergsöfnun og á endanum þá hefði ég fiskað það úr með eyrnapinna(sleppti að segja frá því að ég hafði tekið mynd af mergnum). Hann sagði að ég væri þá líklega einn af þeim sem þyrfti að koma og láta hreinsa úr sér eyrun reglulega. Sagði jafnframt að það væri hægt að hreinsa eyrun sjálfur með mikilli natni. Sagði jafnframt að ég væri ekki með vandamál við eyrnamerginn í eyrunum (sem var líka vegna þess að ég hafði hreinsað það út sjálfur). Sem þýðir að ég er rosalega duglegur við að gera þetta sjálfur. Ligga ligga lái.

Gallin er að þessi hlustunarbólga gæti verði út af því að ég sé að hreinsa eyrun mín með eyrnapinna. Jæja.

Ég fékk einhverja eyrnadropa, 3 dropar í eyrað þrisvar á dag. Hef notað þessa dropa. Ekki gengið mjög vel að hitta í bölvaða eyrað og sjá hve mikið eru þrír dropar. Þetta er líka soldið þykkur vökvi og rennur hægt (eins og þykkt rennandi hor, áferðin og hve fljótt hann lekur). Er líka soldið olíukenndur.

Auðvitað tókst mér að gleyma honum heima í dag. Sem varð til þess að ég gat rafrausast um það.

19 júní, 2006

Mr. Skallagrímsson

Mr. Skallagrímsson

Fór á leikrit í gær. Hann Raggi kom með þá snilldar hugmynd að fara upp í Borgarnes og skella sér á leikritið Mr. Skallagrímsson með honum Benedikt Erlingssyni. Það var ákveðið að fara og hann Óli slóst í förina með okkur. Hiklaust mun ég mæla með þessu leikriti við hvern sem er. Skemmtilegt, fræðandi og í alla staði vel heppnað. Það er blóðugt og ofbeldisfullt með skemmtilegum lýsingum á víkingum.

Skemmti mér konunglega. Væri jafnvel til í að skella mér aftur.

15 júní, 2006

Vinna

Vinna

Jæja. Búin að landa kvöld og helgarvinnu. Það er að segja ef ég klúðra hlutunum ekki, er að fara í þjálfun og maður verður að standa sig þar.

Líst nokkuð vel á þessa vinnu. En þetta er alveg ótrúlegt.. mér finnst ég aldrei þurfa að hafa neitt fyrir því að fá vinnu.. ég hlýt að vera svona alger hóra.. tek bara öllu sem býðst.

Fór í atvinnuviðtal um daginn fyrir vinnu sem ég fékk ekki.. var líka ekkert rosa spenntur fyrir þeirri vinnu. Var búin að setja saman starfsferilinn minn og hann er nokkuð fjölbreyttur. En þegar ég fór yfir hann þá var nokkuð augljóst að ég er ekki að eltast við vinnuna. Kemur oftast í hendurnar á mér eða í gegnum sambönd.

Sorpa - pabbi reddaði henni. Vallargerði - Biggi var að vinna þar og reddað mér henni. Mannúð og menning - var í gegnum Rauða Krossinn þar sem ég þekkti alla. Vörubíll - Hann Örn Ingvar reddaði mér henni. Húsaskóli - það var hún mamma. Talnatök - mamma vinar míns. Síminn - Vargurinn reddaði því. Félagsþjónstunan - það var GEB sem plöggaði því. EC - það var Leifur. Þjóðarbókhlaðan - það var pabbi.

Fékk Lánstraust í gegnum atvinnumiðlun. Finnst eins og það hafi bara dottið í hendurnar á mér.

BUGL var vinna þar sem ég sá atvinnuauglýsingu og sótti um. Fékk líka afskaplega skemmtilegt atvinnuviðtal þar "ertu oft að rífast?" "verðurðu oft þungur í skapi" o.s.frv.

Eina vinnan sem ég fór á staðinn til þess að sækja um og fékk hana var Klettaborg. Fór og talaði bara við leikskólastjórann og landaði þeirri vinnu. Þykir líka gríðarlega vænt um þann stað.

Ég var auðvitað valin í vinnu vegna þess að fólk leist ágætlega á mig og ég held að ég hafi staðið mig afskaplega vel í flestum af þeim vinnum sem ég hef tekið að mér. Held að frændur og vinir hafi aldrei valið mig sem starfskraft ef ég hefði verið einhvað fífl.

En jæja.. komin í kvöld og helgar vinnu.. hætti samt ekkert strax í hlöðunni.

13 júní, 2006

Busl og oryrki.net

Oryrki.net

Fyrir nokkrum árum síðan þá tók ég þátt í BUSL hópnum. Kynntist þar frábæru fólki og suma kalla ég vini mína ennþá í dag.

En þessi hópur var eiginlega félagsmiðstöð fyrir hreyfihamlaða unglinga. Vettvangur þar sem unglingar geta hitt jafningja sína og gert eitthvað skrall með þeim. Veturinn byrjaði alltaf með því að það var sest niður með þeim og þau komu með hugmyndir um hvað ætti að gera um veturinn. Síðan var unnið úr þeim hugmyndunum og gert dagskrá. Jet-ski, vélsleðaferð, ferð til Danmerkur, tívolí, elda saman, video kvöld, fjáröflun o.s.frv.

En síðan fékk maður leið á þessu starfi og fór að hugsa um eitthvað annað. Komin tími á mig til þess.

En það sem er frábært við þetta tímabil að nú eru þessu sömu unglingar, og ég var að hanga með, orðnir fullorðnir. Ekki bara það heldur eru þeir að gera hluti sem ég dáist að.

Þessu sömu strákar eru á bakvið síðuna oryrki.net, þar fara þeir á kostum við að brjóta upp þá ímynd sem við höfum af hreyfihömluðum og fötluðum. Þeir gera stólpagrín að sjálfum sér.. að aumingjastimpluninni sem er á fólki í hjólastól og öryrkjum. Mæli með síðunni þeirra og kíkið á myndböndin, mér fannst sprite myndbandið og Gyrðir Sigurðsson alger snilld.

Já þeir eru að gera fína hluti. Ég er bara nokkuð stoltur af þeim. Hugsa líka að ég eigi einhvern smáhlut í þessu, ég lýg því að sjálfum mér.

12 júní, 2006

Noregur og fleira

Noregur og fleiri punktar

Ég skrapp til Noregs um helgina. Fór með kærustunni og hitti bróður hennar. Langar að skrifa nánari lýsingu á staðhættum og atburðum.. en langar að láta nokkrar myndir fljóta með.. og þar sem ég er ekki með internettenginu þá get ég það ekki sem stendur.

Talandi um það.. ódýrast er að kaupa sér internet tenginu í gegnum BT-net. Er lesandi hér sem sér einhvern meinhug á því?

Fékk nokkuð góða hugmynd að ævintýri. Sem hefur nú barasta ekki gerst í svona.. 6 mánuði... ef ekki lengra síðan. Gæti meira að segja notað hana þegar Óli mætir á svæðið. Hann er búin að lýsa því yfir að hann vilji spila. Og hugmyndin er ekki vibbi! Sem er nú bara nokkuð góð breyting.. hugsa ég.

Kíkti á byrjunina á Audition og Ichi the killer... eftir Takashi Mike. Audition lýtur nokkuð vel út. En Ichi leit út fyrir að vera mynd þar sem manni muni líða illa við að horfa á... og örugglega hin líka... hvað lætur manni horfa á svona myndir?

Hver vill horfa á þær með mér?

Annars er ég búin að vera redda mér með á Roger Waters.. ekki beint redda þar sem það er ekki uppselt á þá.. en ég og pabbi vorum að hugsa um að skella okkur á tónleikana. En áður ég keypti mér miða þá hafði ég samband við þá vegna þess að pabbi er í hjólastól. Eftir að hafa talað við tvo aðila sem vissu ekki neitt þá var mér bent á að senda tölvupóst. Sem ég og gerði. Liðu tveir dagar og fékk þá svar. Svarið var á þá leið að aðgengi fyrir fatlaða og hreyfihamlaða væri á svæði A. Ég sendi strax svar til baka og benti á það að það væri uppselt á svæði A. Spurði hvort að það væri nóg að eiga miða á svæði B. Hef ekki enn fengið svar við þeirri fyrirspurn. Óljóst er hvernig þetta fer.

Getur einhver bent mér á góða kvöld og helgarvinnu?

02 júní, 2006

Blogg um ekkert

Rafraus

Búin að taka saman maí mánuð í eyðslu.. talsvert eytt meira af pening en það var skráningargjald í H.Í og flugmiði til Noregs sem hafði mikil áhrif á það. Ef ég tek það út þá var eyðslan jafn mikil og í apríl. Kem með nánari greiningu eftir helgi.

Var að spila í gær og sýndi talsverða hetjudáð.. þegar skíturinn lenti í viftunni þá var ég næst síðasti sem byrjaði að hlaupa. Mér fannst það vel að verki staðið.

Búin að sjá X-men 3. Já.... flott.... ætti eiginlega ekkert að hugsa um hana.. bara opna munnin og slefa... og gleyma síðan.

Er búin að átta mig á því að ég þarf eiginlega að fara í aðra svona hugsunargangs sumarbústaðarferð. Gerði 6 mánaða plan í þeirri ferð og það plan er eiginlega að klárast. Þarf að skrúfa hausinn betur á mig eftir þessa rússibanaferð.

Annars er ég djöfullega þreyttur og nenni varla að skrifa eitthvað hér..

Stórir tímar framundan...