23 júní, 2006

Pælingar um andfélagslyndi

Í kaffi


Stundum nenni ég ekki að tala við fólk. Ég er stundum í strætó og sé einhvern sem ég þekki, en langar ekki að tala við þann einstakling. Þá vonast ég stundum eftir því að hann sjái mig ekki og ég gref mig í bókina mína (stundum er ég bara það niðursokkinni í bókina að ég tek ekki eftir hlutunum í kringum mig).

Þetta er stundum svona þegar maður fer í kaffi eða mat í vinnunni. Þá nennir maður ekki að tala eða eiga í einhverjum samræðum. Maður vill stundum eta matinn sinn i friði, horfa á fólkið í kringum sig, spá í sætu stelpurnar og hugsa um sætustu stelpuna. Já það koma tímabil þar sem ég er andfélagslyndur.

Ekki það að ég vilji ekki tala við fólk. Ég vil bara ekki eyða tímanum í einhverjar samræður til þess eins að eiga í samræðum. Finna eitthvað málefni sem báðir aðilar geta rætt um eða segja frá sjálfum sér. Ekki í kaffi, mat eða strætó. Þá getur maður ekki rætt um alla hluti því persónan sem maður talar við er ókunnug (eða sem næst því) eða einhverjir geta verið að hlusta.

Stundum nennir maður ekki að eyða tímanum sínum í svoleiðis hluti. Það koma tímabil þar sem maður nennir því alveg, en ekki í dag. Settist líka með bakið í alla og horfði út um gluggann. Vildi ekki tala um pabba, fótbolta, veðrið eða eitthvað álíka. Langaði bara að hugsa um gærdaginn, framtíðina, fortíðina og vildi líka horfa út á útsýnið (sem var nú ekkert voðalega glæsilegt, Hótel Saga). En í dag þá var það skemmtilegra en að reyna að tala um daginn og veginn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli