Að gráta
Ég var að lesa bók í gær. Höfundur Íslands eftir Hallgrím Helgason. Á einum kaflanum er aðalsögupersónan að fjalla um sovétríkinn og spyr þá "Af hverju þurfti þetta að vera svona?" það var svo mikil sársauki bak við þessa setningu að ég fékk kökk í hálsinn. Mig langaði að gráta.
Mér hefur langað að gráta í nokkurn tíma. Fyrir nokkrum vikum þá var ég staddur í heimsókn og þar var persóna sem ég hafði aldrei séð áður. Hún fékk símtal og dró sig til hliðar og var að spjalla í nokkurn tíma. Síðan kom hún og settist og það brotnaði smá af skelinni hennar. Hún táraðist og fékk kökk í hálsinn. Hafði fengið slæmar fréttir í símanum.
Mér leið eins og skít. Vissi ekkert hvað ég átti að gera af mér. Hvort að ég ætti að segja eitthvað eða gera eitthvað. Þegar ég var á gangi heim þá fór ég að velta þessu fyrir mér. Ég hef sjálfur ekki grátið almennilega síðan ég var 18 ára gamall. Hef stundum fengið kökk í hálsin og eitt og eitt tár hefur skroppið út en þetta hefur aldrei komið fram með látum, tárum, hori og öllu þessu sem því fylgir. En grátur er eðlilegur hlutur af hegðun mannsins. Þegar börn fæðast þá er þetta oftast það fyrsta sem þau gera.
En síðan þegar líður á þá ýtum við þessu til hliðar. Vitum lítið hvernig á að bregðast við þegar fullorðið fólk grætur í kringum okkur. Stöndum eins og illa gerðir hlutir og reynum að hugsa um eitthvað annað. Hvað er málið... af hverju gerum við það? Erum við illa við að aðrir sýni tilfinningar sínar? Af hverju græt ég ekki? Af hverju ýti ég kekkinum til hliðar? Af hverju finnst mér það hryllileg tilhugsun að gráta fyrir framan aðra?
Já mig langaði að gráta í gær. Væla eins og gamall krakki sem hefur dottið og meitt sig. Gráta úr mér augum. Fá geggjaðan ekka og láta öll vit mín fyllast af vökva. Langaði að öskra yfir vonleysinu sem er að setjast í mig, mig langaði að gráta yfir öllu þessu.
En það gekk ekki...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli