21 ágúst, 2005

Kristinn

Gamall félagi

Á föstudaginn fékk ég heimaboð til hans Ibbets. Ég sagði við hann í gegnum msn að mér leiddist og hann bauð mér heim til sín. Sem er sérstakt vegna þess að ég hef aldrei komið heim til hans og hvað þá hangið mikið með honum síðustu árin. Strákur sem ég hef þekkt síðan úr leikskóla... en ég ætlaði ekkert að tala um hann Ibbets.

Nei.. ég ætlaði að tala um hann Kristinn. Málið var að hann Kiddi kíkti á svæðið eftir smá tíma. Hann Kristinn var félagi minn úr Foldaskóla. Hann og Binni var örugglega ástæðan fyrir því að ég komst í gegnum þetta tímabil tiltölulega óskaddaður.

En ég "sá" hann Kidda aftur þarna á föstudaginn. Málið er að Kiddi var strákur sem ég leit upp til. Mér fannst hann alltaf vera flottur gaur, þrælgáfaður og sniðugur. Fannst hann alltaf vera gáfaðari en ég í barnaskóla. Ég var mikill bókaormur og hafði ekkert fyrir náminu mínu.. en einkunnirnar mínar voru alltaf lægri en hans. Hann var líka alltaf með einhverjar pælingar sambandi við vísindi og svoleiðis. Lesa greinar um stjörnufræði og eitthvað svoleiðis. Öfundaði hann oft vegna þess. (já öfundaði.. það er víst stór hluti af mínum leynda persónuleika)

Við fórum í mismunandi framhaldsskóla og misstum samband. Árin liðu og ég heyrði að hann hefði eiginlega misst samband við Binna (sem fór í sama skóla og hann) og væri hangandi með strákum sem ég hafði aldrei mikið álit á. Drekkandi mikið og í einhverju tjóni.. síðan frétti maður af því að hann flosnaði úr skóla og fór að vinna á hinum ýmsu stöðum. Flutti síðan út til Danmerkur og dvaldi þar eitthvað.

En já.. málið er að hann Kiddi féll af sínum fílabeinsturni. Hitti hann nokkrum sinnum og fannst hann vera bitur og pirrandi. Ætli málið hafi ekki verið að ég trúði að hann mundi ná langt.. og síðan var sú trú fyrir áfalli.

En síðan kynntist ég honum í gegnum netið fyrir nokkru og hef haft mjög gaman að fylgjast með honum og hans fjölskyldu. Hef stundum fengið þá tilfinningu að gamli Kiddi leynist þarna einhverstaðar á bakvið.

Síðan á föstudaginn þá hittumst við þrír og spjölluðum. Var mjög skemmtilegt. Þrátt fyrir að hann Kristinn dró upp myndavélina í gríð og erg og tróð henni upp í andlitið. Þar sá ég að gáfur hans hafa ekki farið neitt, húmorinn var ennþá til staðar. Hann hefur bara þroskast.. fundið sér ný áhugamál og tekur þau með trompi. Er strákur sem hefur náð nokkuð langt.

Fannst gaman að því. Ibbets.... hann hefur lítið breyst.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli