Bugl
Ég vann, eins og flestir vita, á unglingageðdeild landspítalans. Það var ég í rúmt ár, frá júní 2000 til september 2001 (gæti munað einu ári til eða frá). Þetta tímabil markaði tímamót í minni lífssögu.
Þetta var rosaleg reynsla. Á þessum stað var frábær starfsandi, góður yfirmaður, frábærir krakkar. Ég fékk að sjá með mínum eigin augum hvað það í raun þýðir að greinast með geðsjúkdóm.
En aðalreynslan var ég sjálfur. Fékk að kynnast mínum mörkum og hvað það í raun þýddi fyrir mig þegar ég fór yfir þau mörk. Ég fékk að kynnast í hverju ég var góður í sambandi við mannleg samskipti. Var mikið hrósað fyrir starf mitt og ég fyllist oft stolti yfir því.
En þetta var erfitt starf sem í raun var ómögulegt að skilja eftir í vinnunni. Maður var alltaf með þetta í bakgrunninum. Maður fann til með þeim sem voru mjög veikir. Ég fann fyrir að það var ákveðið úræðaleysi með ákveðin flokk af geðsjúkdómum. Fékk að kynnast sjálfsmorðtilraunum, hegðunarbrenglunum, unglingum sem voru svo miklir snillingar að þeir réðu engan vegin við það, maníuköstum, ofbeldi, átröskunum o.fl.
Ég brann upp í þessari vinnu. Síðustu mánuðina þá vaknaði ég upp með kvíðahnút í maganum því ég átti að mæta í vinnuna. Mig dreymdi illa og var með mál ákveðin sjúklings í huganum sem ég kynntist mjög vel og þótti mjög vænt um.
Ég var ánægður en samt ekki, þegar ég hætti.. eftir á að hyggja held ég að það hafi verið mistök að hætta. Ég hefði átt að leysa úr mínum málum áður en ég hætti... stokka upp ákveðna hluti.. leita mér aðstoðar með mín tilfinningamál.
Allir starfsmenn áttu að fá handleiðslu einu sinni í mánuði. Því miður þá komst ég sjaldan á þá fundi vegna þess að þeir stönguðust við mitt nám. Ég vann þarna um helgar og á kvöldin og handleiðslan var á daginn. Þegar ég mér leið sem verst þá hugsaði ég ekkert um að tala við neinn.. ég hélt að ég myndi bara þola þetta og þetta myndi batna þegar ég hætti.
En það gerði það ekki.. varð óþolinmóður við börn, nennti ekki að hlusta á unglinga tala saman í strætó o.s.frv. Næsta ár eftir að ég hætti þar var ekki gott.. ég eyddi mestum af mínum tíma í afþreyingu og rugl.. skólin og þáverandi sambúð fór halloka.
En þetta var samt þess virði. Það líður varla sá dagur sem ég hugsa ekki um drenginn minn og samstarfsmenn.
En það er frekar ólíklegt að ég muni leitast eftir því að fá starf þar í framtíðinni.