17 október, 2005

Trúin

Hugrenningar varðandi trú

Þegar ég var yngri og minni þá trúði ég á guð. Ég spáði mikið í hann, ég las biblíuna og var trúaður. Ætli Vatnaskógur hafi ekki gert þetta sterkara í mér. Alltaf þegar maður kom þangað þá var maður umkringdur flottu, fullorðnu fólki sem trúði og talaði um það.

Ég fermdist vegna trúarinnar. Ég fór í gegnum þessi leiðindi með þá hugmynd að ef ég gerði þetta þá væri ég að segja við Guð að ég tryði á hann. Væri að minna Guð á mig. Ég fór í vatnaskóg að mig minnir 5 sinnum. Í síðasta skiptið þá var trúin og guð með mun sterkari návist þarna og fólk var að tala um KSS. Ég ákvað að mæta á þá fundi og mætti nokkrum sinnum og fannst gaman. Það var gott að finna fólk sem hugsaði það sama og ég.

En gallin var að fundirnir voru síðan fluttir á laugardaga... sem voru spunaspilsdagar. Þannig að ég þurfti að velja. Sem ég og gerði.

Eftir að ég hætti að venja komur mínar til Vatnaskógs þá minnkaði þessi tilfinning og það blandað hinum hefðbundnu efasemdarhyggju varð til þess að ég hætti að trúa á Guð og fór að trúa á guð. Nú fór ég að trúa því að Biblían væri bara bók, jafnvel leiðarvísir, en guð væri einhver yfirnátturuleg vera sem væri allt og ekkert. Væri góð. Að við værum í einhverskonar prófunum... Ég skráði mig þá fljótlega úr Þjóðkirkjunni og sagðist vera fyrir utan trúfélaga.

En í dag þá hefur þetta breyst. Áður fyrr gat ég farið í kirkju án þess að blikna, hlustað á ræður prestanna og jafnvel hafa gaman af. En núna verð ég bara pirraður. Verð pirraður af þessum kjánalætum, þessum yfirlætistóni sem prestar nota.

Nú er svo komið að ég get ekki kallað mig sjálfan trúaðan. Mínar hugsanir eru á þær leið að það er tvennt í þessu með guð. Önnur er sú að guð eða Guð hefur aldrei verið til. Að þetta sé hugarburður mannkyns til þess að ná stjórn á lýðnum. Búa til eitthvað kerfi til að koma í veg fyrir óöryggi og hræðslu. Búa til kerfi til þess að mót hegðun mannkyns á rétta braut.

Hin hugsunin er sú að ef það er guð/Guð þá er hann ekki vera sem við ættum að dýrka og dá. Samkvæmt skoðunum margra þá gaf guð okkur frjálsa hugsun og síðan eigum við að velja rétt. Fyrir mér er það eins og að rétt barni hníf og vona að það skeri ekki neinn. Auðvitað er það fáránleg hugsun að guð/Guð hugsi um okkur eins og börnin sín. Maður stjórnar börnunum sínum lætur þau ekki komast upp með allt. Fyrir mitt leyti þá er guð/Guð vísindamaður og við erum hvítu mýsnar. Honum er skít sama hvort við lifum eða deyjum, er bara að horfa á okkur hlaupa fram og til baka.

"If there is a god then he does not deserve to be worshipped" (sagt eftir minni) Jonathan Safran Foer úr bókinni Everything is Illuminated.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli