30 janúar, 2007

Bíó og útrás

Fór loksins á Children of Men í bíó í gær. Lenti auðvitað í lang minnsta salnum í Háskólabíó en fékk afslátt vegna Moggans. Ferlegt að hafa ekki séð hana í sal 1 með geggjuðu hljóðkerfi.

En svona er lífið.

Ert ÞÚ búin að sjá hana?

Annars hef ég lítið að segja.

Jú ég fór í nexus um daginn og var að skoða ritin þar þegar ég heyrði samtal stelpu og stráks. Þar sem hann var útskýra fyrir henni hvað sagan 300, eftir Frank Miller, fjallaði um. Sagði frá því að sagan byggðist á sönnum atburðum og að það væri verið að gera bíómynd eftir þessari sögu, fannst það sjálfum fáránlegt að segja að þeir séu að gera bíómynd eftir sögunni þar sem hún byggðist á raunverulegum atburðum. Stelpan hváði og ískraði og var rosa hissa hvað strákurinn vissi mikið og hann játaði því.

Á meðan var ég að horfa á japanskar manga teiknimyndasögur og það sauð á mér. Merkikerti sem hafði ekki hundsvit á því sem hann var að segja og var að troða þeirri vitleysu í einhverja stelpu og sagði að hann væri gáfaður drengur. Mig langaði svo að segja "fyrirgefðu, ég komst ekki hjá því að heyra hvað þið voruð að tala um og ég verð að leiðrétta nokkur atriði hjá þér. Sko, hann Frank Miller skrifaði þessa sögu upp úr þjóðsögunni um Spartverja. Ég held að það sé vitað að Spartverjar vörðust persa her í skarði og það hafi verið frekar ójafnt hlutfalla á milli Spörtu og Persíu en Sparta hafi farið með sigur að hólmi. En það er ekki vitað með sanni meira en það. Það sem Frank gerði var að skapa skáldsagnarpersónur í kringum þessa atburði og láði þeim nöfn og persónuleika og fyllti síðan söguna af miklu testósterón sem er nú fangamerki hans í flestum sögum. Bíómyndin er byggð á þeirri sögu, þessari skáldsögu sem byggð er á sönnum atburðum. Síðan má bæta því við að mér þykir leitt að hafa kúkað í garðinn hjá þér en ég get bara ekki staðið hjá og hlustað einhverja vitleysu."

En það gerði ég ekki. Ég beit í tunguna mína og lofaði sjálfum mér að blogga um þetta.

22 janúar, 2007

Children of men

Í myndinni Children of Men er 6 mínútna atriði sem er tekið með einu löngu skoti. Ólýsanlegt

Helgin

Mexíkönsk kjúklingasúpa, rútuferð, magadans, súludans, Rúv, Bogi Ágústsson, Piknikk, Rauðvín Thorvaldsen, Lambakjöt, bjór, Svefn, letilíf, bónus, flakkari, Heroes (2-3), ýsa í pastaskelju baði, heroes 4-7, Children of men (GEGGJUÐ MYND, ef þú ert ekki búin að sjá hana, shame on you), Svefn, letilíf, Heroes 9-10, hangs, skönnun, spjall, hreindýraborgari, Catan, CSI 1-2, svefn.

Fín helgi.

En ég er ekki að grínast.. Children of Men... búin að sjá hana tvisvar og er alvarlega að hugsa um að fara og sjá hana í bíó.. gallinn er að hún er bara sýnd í VIP sal á þeim tíma sem ég get séð hana... buhuhuh... Held að Ester hafi ekki verið eins dolfallin fyrir henni, en sjit, hún kippir undan mér fótunum.

18 janúar, 2007

Fréttir og eirðarleysi

En ein merkilega fréttin kom í gær. Í henni kom hagfræðingur frá Kaupþing og fjallaði um það að það hefði komið smá kæling í efnahagslífinu vegna þess að útlendingar hafa komið í þjónustu- og byggingavinnu. Þeir hafi gert það að verkum að laun í þeim geira hafa staðið í stað eða jafnvel lækkað á meðan annars staðar var launaskrið.

Fannst þetta frekar merkilegt að það væri jákvætt að vegna þess að ákveðin flokkur manna væri að halda aftur af launum í tveimur geirum í atvinnulífinu á meðan allir aðrir væru að fara fram úr þeim. Ætli það verði ekki eftir nokkur ár að útlendingum verði kennt um hversu lág laun eru í þjónustu- og byggingariðnaðinum.

Af hverju er þetta ekki grein niður í kjölinn, athugað hvers vegna þetta mikla launaskrið er í gangi og hvaða áhrif það hefur á íslenskt samfélag yfir heildina. Og hvað þarf að gera þannig að allir verði jafnir en ekki að einhverjir hópar verða skyldir eftir vegna þess að því var ekki reddað yfir allt Ísland heldur var bara einhver fámennur hópur sem tók á sig kjaraskerðingu vegna einhvers sem allt samfélagið tekur þátt í.

En já, ég er búin að vera skipuleggja mig nokkuð mikið. Hef verði að fara í gegnum herbergið mitt og skipuleggja það mun betur en það var. Nú er ég að hugsa um hvað ég eigi að gera við bókasafnið mitt, finnst það of stórt og verð einhvern vegin að grisja það og bæta. Það sama með allt mitt dót sem ég á. Er búin að vera henda og taka til. Er að lesa bók sem hefur verið að beina mér á rétta leið. Hún hefur svona aðeins ýtt við mér, ekkert sérstaklega skemmtileg bók og alltof bandarísk á köflum en eins og ég sagði, hefur ýtt við mér. Núna eru fjármálin til skoðunar og las nefnilega bók um það sem útskýrði fyrir mér ýmislegt sem ég var í vandræðum með og ætla að fara aðeins í það sem hún var að tala um.

Er með hugann fullan af hugmyndum og hitt og þetta og get varla róað hugann á mér. Er að skrifa nokkuð í ritgerðinni en það fer hægt aftur af stað. Er einhver annar þarna úti sem er að skrifa um kynfræðslu og getur jumpstartað mér?

17 janúar, 2007

3 dagur án verkjalyfs

Þann 15. janúar síðastliðin þá rann upp einn af merkisdögunum á þessu ári. Þetta var fyrsti dagurinn þar sem ég tók ekki verkjalyf. Skammtarnir höfðu að vísu farið minnkandi og hafði bara tekið um helgina 4oo mg af íbúfen við morgunverðarborðið.

Ég er búin að vera eta verkjalyf síðan á Þorláksmessu, frá 23. desember til 14. janúar. Mismundandi hvað skammtarnir voru stórir en þegar þeir voru stærstir þá var ég að taka 2 parkódín 500 mg og eina 400 mg íbúfen, 3svar á dag. Kom meira segja einu sinni fyrir mig að ég fékk svona lyfjamók (lyfjavímu), var ekki alveg að fíla það.

Ástæðan fyrir öllu þessu töfluáti var herra endajaxl. Ég var víst með einhverjar snúnar rætur á endajöxlunum í neðri gómnum. Báðir endajaxlarnir voru með vandræði þegar þeir voru rifnir út, kom upp sársauki og þetta var lengi að gróa.

En nú horfi allt á betri veg og ég sé næstu daga í jákvæðu og lyfjalausu ljósi.

14 janúar, 2007

Græðgi

Það er búið að fjalla mikið um evru, matarskatt, hátt verðlag og margt af sama brunni síðastliðna daga.

Í útvarpsfréttum í dag (14-01-07) klukkan sex var viðtal við Bjarna Ármannsson, forstjóra Glitnis, þar sem hann segir að allt tal um evru sé óraunverulegt. Nokkrum fréttum síðar var viðtal við dósent þar sem hann segir að upptaka evru mundi auka samkeppni og lækka matarverð.

Þið sjáið hvernig umræðan er.

Það var samt ein mikilvæg frétt sem kom í gær á Stöð 2 (13-01-07). Það var talað við formann Landssambands bakarameistara og hann sagði frá því að skýringuna á háu verði á brauði væri launakostnaður og sú staðreynd að íslenskir neytendur væru tilbúnir að greiða uppsett verð. Fréttamaðurinn endaði á því að spyrja hvort íslenskir neytendur væri fólk sem væri að láta hafa sig af fífli.

En ef þið hugsið um þessa frétt um brauðið þá ættuð þið að átta ykkur á því að þarna er stór sannleikur. Ef neytendur eru tilbúnir að greiða hátt verð þá mun launakostnaður hækka, það er að segja fólkið sem er að baka brauðið græðir meira. Einfaldur, fallegur sannleikur.

Nú er verið að fara lækka matarskattinn. En ef fólk er tilbúið að greiða hátt verð fyrir matvöru, mun þá verðið eitthvað haldast lágt í lengri tíma? Verður ekki eitthvað annað að koma til heldur en lækkun á skatti?

Einstaklingurinn vill græða á sinni vinnu, hann vill fá vel borgað fyrir hana, hann vill lifa hátt á sinni vinnu. Allir vilja þetta svo alls staðar eru hækkun á launakostnaði með tilheyrandi hækkun á verðinu. Græðgi kallast þetta. En hver á að hætta? Er það möguleiki að hætta þessari þróun? Einstaklingurinn sem hættir þessu, hann mun bara tapa á þessu þar sem allt hækkar í verði nema laun hans.

Ég er ekki með neina lausn. Ég veit ekki einu sinni hvort að þetta sé rétt greint hjá mér... hvað haldið þið?

13 janúar, 2007

Í vinnunni

Ég brotnaði næstum niður áðan. Fann kökk myndast í hálsinum og fann að tárkirtlarnir fóru að undirbúa sig undir starfsemi. Auðvitað kyngdi ég kekkinum og neyddi mig til að finna það að ég væri karlmaður (í þeim skilningi að karlmenn gráta ekki og grafa alla hluti djúpt niður í sálartetrinu). Það væri svolítið fáránlegt að vera vinna og bresta síðan í grát þegar maður er umkringdur vinnufélögum. Ef ég hefði verið einn eða jafnvel heima hjá mér þá hefði ég örugglega leyft mér að sleppa tilfinningunum lausum. Ég vissi af þessu, var búin að sjá þessa tilfinningaflækja sem ég myndi lenda í en bjóst við því þar sem ég sá þetta í gær að ég myndi ekki finna fyrir einhverjum tilfinningasveiflum. Ég veit að það er önnur hindrun framundan, en þar sem kerfið sem ég vinn í hrundi þá bíður það til seinni tíma (morgun eða í kvöld).

Annars er ég komin með góða aðstöðu til að vinna heima hjá mér. Komið með skrifborð sem er í minni hæð, búin að hækka fartölvuna mína svo skjárinn henti mér, komið með gott lyklaborð og ágæta mús (sem ég rændi reyndar af Guðmundi fyrir nokkrum árum). Og vonandi fæ ég leyfi til þess að vinna heima hjá mér fljótlega.

09 janúar, 2007

Hugmynd af Sögu

Ég var í baði áðan, sat þar í Dove-freyðibaði, með Pepsi max lime og las teiknimyndasöguna Whiteout eftir Grec Rucka, teiknuð af Seve Leieber. Bókin var mjög góð og hef ég ákveðið að fjárfesta í þessari bók, teikningarnar voru góðar og sagan áhugaverð og eitthvað fyrir minn smekk.

Þegar ég kláraði hana og lét hana frá mér þá kviknaði hugmynd af teiknimyndasögu. Hef stundum velt mér upp úr þessu formi, hvort að ég gæti skrifað sögu sem mundi skila sér á því formi og sú saga fæddist rétt áðan.

Þegar ég hitti HL þá ætla ég að spyrja hann hvort hann gæti teiknað fyrir mig og hvernig ætti ég að skrifa söguna.

05 janúar, 2007

Breytingar

Það var ýmislegt sem ég breytti á síðastliðnu ári, breytti í fari mínu. Ég keypti mér jakkaföt og bindi og lærði að binda bindishnút og hef náð ágætri færni í því að binda svoleiðis hnúta. Á síðasta ári þá keypti ég 4 bindi og fékk eitt gefins.

Ég fór að nota rakakrem fyrir húð. Byrjaði á að bera á allan skrokkinn en eftir að ein svitaholan stíflaðist vegna kremsins þá hætti ég að bera á líkamann og lét nægja að bera á andlit, hef ekki hætt því enn.

Hugsaði um hvernig fötum mér líkaði að vera í og keypti bara þau. Hætti að reyna þykjast vera peysukall eða sportsokkakall. Þá hafa flauelsbuxur verið í uppáhaldi og keypti mér margar skyrtur af ýmsum litum.

Ég missti mörg kíló í mars og þau hafa haldist í burtu, ótrúlegt en satt. Bjóst við því að þau mundu kíkja í heimsókn um jólin en ég hugsa að endajaxlinn hafi haldið þeim frá.

Skrifaði 5 kafla í vísindaskáldsögu og finnst ennþá eins og ég eigi eftir að bæta við. Sagan er svolítið rúnk en mér finnst hugmyndin góð og þeir sem hafa lesið hafa annaðhvort þagað um hana eða sagt að hugmyndin sé fín (ég geri mér grein fyrir að það er þarna ýmislegt ósagt en það bíður bara betri tíma).

02 janúar, 2007

2006-2007

Þetta ár byrjar ekki vel. Eftir 4 tíma fer ég til sérfræðings í munn- og kjálkaskurðlækningum og ég býst fastlega við því að hann rífi úr mér eina tönn. En það er ekki allt þar sem ég hef verið að taka sýklalyf vegna tannarinnar og þau eru að hafa mjög slæm áhrif á meltinguna mína (sem var ekki sérstaklega góð fyrir). En síðan en ekki síst þá hef ég verið að þjást vegna bakleiðinda síðustu tvo daga. Er með eitthvað tak í vinstri öxl, nánar tiltekið undir og í kringum vinstra herðablaðið. Á erfitt með að líta til vinstri og það eru vissar hreyfingar sem valda mér miklum óþægindum.

Síðan má ekki gleyma því að ég var að taka game of thrones í gær og það var verið að taka mig í kennslustund um hvernig á að tapa af byrjenda í spilinu, af honum Gústa. Ekki sáttur við það.

En 2006 var ár öfga, mjög mikilla öfga. Á því ári lærði ég það að örsmáir hlutir geta snúið lífi manns á hvolf. Það má segja að lítil baktería hafi kennt mér talsvert um mig sjálfan, forgangsröðun lífs míns og margt fleira. En á þessu ári kynntist ég Ester og það er enn blússandi hamingja þar í gangi.

Á síðasta ári lærði ég líka talsvert á skattmann og mun ég ráðleggja öllum hér með að kynnast honum ekki náið. Ég vann á 6 vinnustöðum á síðasta ári.

En á þessu ári eru eftirtaldir hlutir að fara að gerast. Ég verð 30 ára gamall, ég mun útskrifast úr Háskóla Íslands með B.a gráðu í uppeldis- og menntunarfræði.

Já.. þar er það upptalið í sambandi við áætlanir ársins.