Missti ég af einhverju?
Ég hef verið að hugsa þessa dagana um líf mitt í Foldaskóla. Ég var 100% nörd. Hlustaði á kvikmyndatónlist, las mikið af bókum, hafði ekkert fyrir lærdómnum, spilaði hlutverkaspil, var lítill og bólugrafinn, talaði bara um mín áhugamál (hlutverkaspil og bækur).
Gaf mér ekki á tal við fólk, reyndi ekki að taka þátt í chit chatti. Þagði frekar. Sagði frá ef ég sá fólk svindla á prófi, Gat spjallað við kennarana og spurði oft kennarann að einhverju sem tengdist ekkert náminu sem ég var að læra (kennarasleikja).
Á þremur og hálfu ári í gagnfræðiskóla þá var mér boðið í eitt partí. Þetta var afmælipartí hjá H-eitthvað (vinkona stelpunnar sem varð tennisstjarna, rosa sæt stelpa). Ég reyndi að dansa eitthvað og reyndi að falla inní hópinn. Gekk frekar illa og mér leið illa allt kvöldið. Hugsa að það hafi sést.
Oft þegar ég kynnist fólk og það fer að tala um barnaskólann og segir Partíunum og djamminu og hvað þetta allt var skemmtilegt, þá þagna ég og fæ hnút í magann.
Maður hefur bara eitt líf og þessi hluti lífsins er mér glataður. Get aldrei upplifað þá stemmingu sem þetta fólk hefur upplifað. Hópstemmingu bekks og skemmtuninni sem fylgir því að fólk fer í partí hjá hvor öðrum.
Missti af því. Stundum fæ ég eftirsjá og fyllist öfund. Stundum verð ég reiður. Aðallega þá út í sjálfan mig að hafa ekki rifið mig út úr þessu á sínum tíma. En aðallega fyllist ég eftirsjá.
Ég væri auðvitað allt annar maður ef ég hefði ekki verið nörd, ekki flutt í annað hverfi, ekki skipt um skóla, ekki lent í einelti, ekki byrjað að spila hlutverkaspil, verið með meiri metnaði í skólanum?
Spurning hvort að ég væri betri maður? En hverjum í andskotanum er ekki sama um betri mann. Væri ég hamingjusamari? Ég veit það ekki.. en ég veit það að það fólk sem upplifði þessa tíma í góðum bekk, í skemmtilegum félagsskap, með partíum, með uppáferðum og öllu því sjitti?
......það myndi ekki vilja skipta við mig.