23 desember, 2002

Jólin eru að koma.

En ég ætla ekki að tala um þau... eru ekki allir komnir með leið á þeim hvort sem er! En ég var að taka til í herberginu mínu og var að taka upp úr kössunum sem voru búnir að sitja þar í nokkra mánuði. Þar tók ég upp myndirnar mínar. Myndir sem ég vil hengja upp á vegg til að dást að. En ég varð fyrir frekar miklu áfalli.

Það voru þrjár myndir sem ég tók upp. En var teiknuð mynd af mér sem ég fékk í tvítugsafmælisgjöf frá Hafdísi. Ein var svona grafíti mynd af "Che" sem hann Vergo gaf mér eftir einhverja ferð sína og svo voru tvær Jesú myndir. Ein sem ég keypti í kolaportinu fyrir mörgum árum og hin keypti ég út á spáni ´98. 2 Jesú myndir og mynd af byltingarleiðtoga.

Afhverju vil ég hafa þær myndir uppi? Ég er ekki trúaður og ég trúi því ekki heldur að ofbeldi leysi einhvern vanda. Svo afhverju? Ég velti þessu fyrir mér í smá tíma og komst að því að það eru sterkar ástæður fyrir því að ég vil hafa þessa kappa upp á vegg. Ég var búin að gleyma þessum ástæðum! Þessir menn eru stórkostlegar persónur. Þeir trúðu báðir á einhvern málstað það mikið að þeir voru tilbúinir að láta lífið fyrir hann. Hugsið ykkur, að vita það að það er Guð til (og hann er faðir þinn) eða að vita að það er hægt að bæta heiminn og gera allt í sínu valdi til þess að bæta hann. Hve mörg ykkar hafa fengið þá tilfinningu að það sé einhver málstaður til sem er þess virði að láta lífið fyrir. Nú er ekki að tala um að deyja fyrir börnin sína eða eitthvað svoleiðis. Málstað!

Ég mundi vilja að ég trúði það mikið á einhvern málstað að ég væri tilbúin að hverfa og láta málstaðinn taka bólfestu í þessum líkama. En ég er bara of mikill efasemdamaður (eins og flestir í nútímasamfélagi) til þess að gera það. Mér finnst engin málstaður vera svo fullkomin að ég er tilbúin að fórna einhverju miklu fyrir hann. En þetta er draumur... þess vegna er ég með myndir af mönnum upp á vegg.

Gleðileg Jól.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli