14 október, 2004

Síðasta önnin

Leit að ritgerð

Ég var að leita að ákveðnari ritgerð sem ég gerði fyrir um 4 árum síðan. Ég tók upp kassa með öllu svoleiðis dóti og fór að gramsa í honum. Dró upp verkefni sem ég gerði á lokaönninni minni í Háskólanum. Var eiginlega mappa með þremur verkefnum í.

Síðasta önnin mín í háskólanum.... önnin sem ég var í tveimur áföngum og ritgerðinni. Vann aldrei í ritgerðinni, kláraði aldrei lokaverkefnið fyrir einn áfangann (og þar af leiðandi féll ég í honum) og fékk 5 í hinum áfanganum. Vann eitthvað hroðalegt lokaverkefni nokkrum dögum fyrir frest skiladaginn (skiladagurinn var komin og farin og ég var búin að fá frest).

Áfanginn hét námskráarfræði og námsefnisgerð. Mjög áhugverður og með mjög skemmtilegan kennara. Ég fann möppuna sem ég notaði í þeim áfanga. Ég fór að fletta í henni og las gagnrýni kennarans á lokaverkefnið mitt í fyrst skiptið. Kláraði áfangann fyrir tveimur árum síðan en hafði aldrei lesið þetta áður. Þegar ég var búin með lesturinn þá velti ég fyrir mér af hverju ég hafði fengið svona háa einkunn. Ég las líka verkefnin og þau voru hroðaleg. Unnin augljóslega á einhverju spani, engin yfirlestur (og allir sem lesa þessa síðu reglulega vita hvað það þýðir). Engin heimildavinna og einfaldlega hræðilega unnið. Ég fékk hátt fyrir eitt verkefnið og það var nemendafyrirlestur þar sem aðrir nemendur gáfu einkunn.

Ég átti skilið að falla í þessum áfanga (fékk líka lang lægstu einkunnina í samanburði við aðra nemendur). Ég man líka ekkert eftir þessari önn. Hún er öll í einhverri móðu. Man eftir einum og einum atburði en ég hef á tilfinningunni að ég hef eytt mestum tímanum mínum á netinu, í spilerí, að horfa á video o.s.frv.

Það vöknuðu satt að segja ekki góðar tilfinningar þegar ég var að rifja þetta upp. Minningar um tilfinningadoða og tilgangsleysi. Það var svona hálft ár síðan ég hætti á Buglinu, sem að ég held það starf hafi skilið eftir djúp ör á sálinni og þetta var líka tíminn þar sem ég var að hugsa um að hætta með sambýliskonunni.

Ekki beint sá skemmtilegasti tími sem ég hef upplifað. Vildi helst hverfa burt, vera ekki til, vissi að ég var að særa sambýliskonuna og valda kennurunum vonbrigðum. Allt var einhvervegin bragðdauft og leiðinlegt. Vildi helst gleyma því að ég væri andandi og starfandi.

En ég fann ekki hina ritgerðina.. djö....

Engin ummæli:

Skrifa ummæli